06.03.1925
Efri deild: 24. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Jónas Jónsson:

Mjer var það undrunarefni, að hæstv. atvrh. (MG) skyldi ekki geta gengið inn á þessa till. Fyrri liður hennar er samkvæmt því, sem hann hefir áður lýst yfir, að hann teldi sjálfsagt. Hann er aðeins til varúðar, svo ekki geti átt sjer stað, að maður, sem starfið er fengið, yrði að nokkru leyti í þjónustu annara þjóða. Till. þessi hefði þó ekki komið fram, hefði ekki verið búið að gefa í skyn við fyrri umr. þessa máls, að starfið væri miðað við vissan mann, og hefðu ekki komið fram þau atvik gagnvart manni þessum, sem gera það, vægast sagt, ærið óviðkunnanlegt, að hann sje í þjónustu ríkisins, ekki síst erlendis.

Jeg œtla að leyfa mjer að fara um þetta fáum orðum, fyrst hœstv. atvrh. (MG) hefir skýrt frá nokkrum atriðum viðvíkjandi Gunnari Egilsyni.

Það mun hafa verið á stríðsárunum, sem Gunnar Egilson var trúnaðarmaður landsins í Ameríku. Það var talið rjett, að landsverslun, sem þá hafði mikinn innflutning á hendi, skyldi borga erindrekanum. Nú þóttust kaupmenn þurfa að hafa mann út af fyrir sig. Árangur varð sá, að landið varð að svara út tugum þúsunda meira til þessara mála fyrir það, að Gunnar Egilson var sendur í viðbót, án þess nokkur þörf væri fyrir fleiri en þann, sem fyrir var.

Nú lendir Gunnar þessi í skuld við landið á þann hátt, að hann þurfti meira fje en hann fjekk í laun. Hefir hann staðið síðan í allstórri skuld, sem þar á ofan hefir verið afborgunarlaus tímum saman. Nú vil jeg fá að vita það með nafnakalli í dag, hverjir þeir eru hjer í hv. deild, sem vilja tryggja það, að maður, sem á þennan hátt hefir staðið fyrir málum landsins og hefir innbyrt fje framar en samningar stóðu til, meðan hann var í þjónustu landsins, — tryggja það, að honum sje veitt fyrirhugað embætti á Spáni. Þetta mun koma í ljós við atkvgr. um till. mína. Þá mun sjást, hvort embætti þetta er miðað við ríkisins hag og heiður, eða hvort það er ekki öllu heldur miðað við einstakan fjeþurfandi mann. Um þetta þarf ekki að ræða; atkvgr. sker úr. Jeg þykist vita, hvernig fylgismenn hæstv. stjórnar hagi sjer í þessu. Hæstv. atvrh. hefir líka sagt skýrum orðum, að hann vilji halda opnum þeim möguleika, að maður, sem hefir lent í skuld við landið, verði gerður trúnaðarmaður ríkisins, og að hann gefi skýrslurnar og hann sje önnur hönd fiskseljenda suður í löndum. Ef þetta er takmarkið, þá skilur maður allan gang málsins.

Mjer er ekki kunnugt um samninga í þessu skuldamáli. (Atvrh. MG: Mjer eru þeir kunnir, því jeg samdi um skuldina). Ekki gæti jeg hugsað mjer betri kosti með mínar skuldir en hæstv. atvrh (MG) hefir gefið þessum manni. Má vera, að slíkt atvik sem þetta geri það dálítið skiljanlegra, hvernig haldið var á ríkissjóði, þegar hæstv. atvrh. (MG) var fjrh. Það sýnir líka röggsemina, að vera ekki búinn að innheimta þessa skuld ennþá.

Það er öllum ljóst, hvað er hjer á ferð. Ef þessi till. er feld, er það af því, að verið er að búa til embœtti handa manni, sem stendur í óbættri skuld við ríkið og hefir misnotað sitt traust. (Forseti (hringir): Jeg vil biðja hv. þm. að tala varlega). Það geri jeg, og það er sannleikur, sem jeg segi. Það mundi víðast þykja illur viðskilnaður, ef maður eyddi opinberu fje úr sjálfs sín hendi og stæði ekki í skilum öðruvísi en með akkorði eins og þessu. Það verður að tryggja það, að maður með þessari fortíð geti ekki fengið embætti sem trúnaðarmaður erlendis.