18.04.1925
Neðri deild: 59. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1496 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Magnús Torfason:

Jeg hefi ekki mörgu að svara að þessu sinni.

Hvað það atriði snertir, að hafður sje fulltrúi í framandi ríki maður, sem áður hefir verið fulltrúi þess sama ríkis hjer í. landi, þá vil jeg halda fast við þá skoðun mína, að þetta sje óheppilegt í „principinu“, enda þótt það geti blessast í einstaka tilfellum.

Jeg get ekki betur sjeð t. d. en úr því að maður, sem verið hefir fulltrúi Íslands á Spáni, er gerðum að spönskum konsúl hjer á landi þegar eftir heimkomu sína, þá felist í því velþóknun Spánverja á hlutaðeigandi manni. En þar af má aftur draga þá ályktun, að hann hafi ekki verið Spánverjum slæmur ljár í þúfu í samningagerðum fyrir okkar hönd.

Háttv. þm. Dala. (BJ) vildi halda því fram, að þessi fiskifulltrúi yrði jafnframt að hafa „diplomatisk“ störf með höndum, ef vel ætti að vera. Þessu verð jeg enn að mótmæla algerlega, jafnvel þó að hv. þm. (BJ) hafi stundum farið út fyrir sitt afmarkaða svið þegar hann var verslunarerindreki okkar erlendis hjerna um árið. Jeg verð að taka mjer í munn latneska málsháttinn:

Quod licet Jovi,

non licet bovi,

því enda þótt hann hafi ekki gert skaða, en ef til vill gagn í sínum erindrekstri, þá er ekki öllum trúandi fyrir slíkum störfum.

Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að jeg hefði talað um bitlingasýki í sambandi við þetta mál. Það gerði jeg reyndar ekki, heldur mintist lítilsháttar á bitlingapólitík. En vel má vera, að heppilegra sje að tala um bitlingasýki. Um það skal jeg ekki deila við hæstv. ráðh. (MG), enda mun hann þeim hnútum kunnugri en jeg.

Út af ummælum hæstv. forsrh. (JM) skal jeg geta þess, að auðvitað var ekki meining mín að gera árás á bresku samningana í þessu sambandi. Hæstv. forsrh. ætti að muna, að jeg var einmitt frsm. þingnefndar, sem rannsakaði þá samninga á sínum tíma, og þegar af þeirri ástæðu, hvernig jeg leysti það starf af hendi, hlýtur hann að vita, að mjer er fjarri skapi að ráðast á, hvernig samningarnir voru gerðir.

Hæstv. forsrh. sagði, að þeir samningar hefðu reynst heppilegir þjóðinni. En mjer var kunnugt, að samningarnir vöktu megna óánægju, einmitt einkum meðal flokksmanna hæstv. ráðherra (JM). Og það er víst, að í þeim samningum urðum við að sæta afarkostum, en við það varð ekki ráðið, og fer fjarri því, að jeg vilji hið allra minsta áfella þann mann, sem gerði samningana fyrir okkar hönd. En það er undanfari þessara bresku samninga, sem vel hefði mátt koma til umr. nú, einmitt í sambandi við þetta frv., þó að jeg skuli ekki fara frekar út í þá sálma að sinni. Jeg held, að sá undanfari, sem samningarnir voru leiddir af, sje ef til vill eitt hið fyrsta, sem við höfum framkvæmt í utanríkismálum upp á eigin spýtur, og er sú saga ekki glæsileg, ef hún er krufin til mergjar.

Þá átaldi hæstv. forsrh. (JM), að jeg skyldi minnast á, hvernig sendiferðirnar til Ameríku á stríðsárunum hefðu hepnast. Jeg gerði þetta vegna þess, að í gær var óátalið farið mjög óvirðulegum orðum um aðrar sendiferðir, sem farnar hafa verið fyrir ríkið. T. d. var sagt um einn stórtemplar, að hann hafi verið sendur til að „smakka“ spönsku vínin áður en þeim yrði hleypt inn í landið. Þess vegna hjelt jeg, að mjer væri óhætt að drepa örlítið á Ameríkuferðirnar frægu. En viðkvæmni hæstv. forsrh. (JM) var meiri þar.

Loks vil jeg mótmæla þeim ummælum hæstv. forsrh., að jeg hafi teygt þessar umr. úr hófi fram, en hinsvegar get jeg skilið, að hann sje ekkert ánægður yfir umr. í þinginu yfirleitt. Hann er ekki vanur því að sækja gull í greipar andstæðinga sinna, og vill því skiljanlega vera laus við alla viðureign við þá.