28.02.1925
Efri deild: 19. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Eggert Pálsson:

Jeg verð að biðja afsökunar á því, að jeg tek til máls, jafnóáheyrilegt sem mál mitt hlýtur að verða. Jeg er allveikur af inflúensu eða kvefi, og á því erfitt um að tala. En úr því að hv. 5. landsk. blandaði mjer inn í þetta mál, verð jeg að tala nokkur orð, en skal ekki verða langorður.

Hv. 5. landsk. fann ástæðu til að blanda inn í þessar umræður meðferð grískudósentsembættisins í fyrra, en það var nú algerður óþarfi. Við vorum búnir að tala nægilega saman um það mál áður, m. a. í blöðum.

Jeg skal taka það fram, að jeg geri ekki mikið að því að unga út frv., sem auðsjeð er, að ekki muni komast fram. Á háttv. 5. landsk. meiri sök á því en jeg, eins og raun ber vitni um. Og þess vegna kemur mjer ekki til hugar að eyða tíma og fje í það að bera fram á þessu þingi frv. um afnám grískudósentsembættisins, þar sem það er fyrirfram augljóst, að slíkt hefði alls enga þýðingu. En til þess að gera háttv. þm. nokkur skil, skal jeg lofa honum stuðningi mínum, ef hann vill bera fram till. um að afnema hina ósanngjörnu launaviðbót til Sigurðar Nordals, sem samþykt var á síðasta þingi. Og því fremur mundi jeg ljá liðsinni mitt til þess, sem jeg er sannfærður um, að sú ótilhlýðilega launaviðbót hefir orðið til þess, að þessi maður, sem hjer á hlut að máli, var sviftur þeim styrk, sem hann hefir um mörg ár haft í fjárlögum til að kenna íslensku við háskólann. Hann var, eins og kunnugt er, strikaður út úr síðustu fjárlögum þessi styrkur, einungis eða aðallega í þeim tilgangi, að hægra væri að standa á móti hinni óforsvaranlegu launaviðbót til Nordals. En eins og menn muna, mistókst það, vegna þeirra föstu taka, sem hv. 5. landsk. hafði á flokksmönnum sínum.

En hvernig sem um þetta frv. kann að fara að lokum, þá finst mjer þó hjer um svo þýðingarmikið mál að ræða, kenslu í íslenskri tungu, að jeg tel óforsvaranlegt að afgreiða það með rökstuddri dagskrá. Málið á heimtingu á að vera rannsakað í nefnd. Enginn veit, hvernig þar kann að skipast. Hv. 5. landsk. á sæti í nefndinni, og jeg efast ekki um, að hann muni leggja þar til það eitt, sem honum þykir sanngjarnast vera.