26.03.1925
Efri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Frsm. meiri hl. (Sigurður Eggerz); Hv. frsm. minni hl. (JJ) sagði, að það væri ekki rjett í nál., að það væri engin kensla í íslenskri tungu í háskólanum, en hæstv. dómsmálaráðherra (JM) hefir staðfest þetta, og þarf þá ekki frekar vitnanna við. Jeg á, satt að segja, erfitt með að skilja andstöðu háttv. frsm. minni hl. móti málinu, því að hann lætur sjer ant um margt, sem víkur að mentamálum þjóðarinnar. En hvernig getur hann litið hornauga til íslenskukenslunnar við háskólann, sem altaf hlýtur að verða metnaðarmál fyrir þessa þjóð?

Mjer virðist háttv. frsm. minni hl. beita ýmsum mönnum úr stjórnarflokknum allfast fyrir sig í þessu máli, og þykir mjer hann nú taka meira tillit til þeirra er venja hans er. En jeg verð nú að segja, að þótt þessir hv. þm., sem hjer eru nefndir, hafi staðið á móti þessu máli á síðustu þingum, þá virðist mjer það betra, ef þeir falla nú frá sinni skoðun og styðja stjórnina í þessu, því engin minkun er að því að sannfærast fyrir góð rök og snúa að góðum málstað frá vondum.

Þá vil jeg benda á það, að þótt hjer sje aðeins um 4 stundir á viku að ræða, þá er þess að gæta, að undirbúningur undir slíka kenslu getur oft kostað lífsstarf, því að satt að segja hygg jeg, að enginn maður geti verið kennari við háskóla í fagi eins og tungu þjóðarinnar, svo að það megi sóma skólanum, nema með því að hann geri það hreint og beint að lífsstarfi sínu.

Að því er snertir þann mann, sem starfið er ætlað, þá skal jeg ekki endurtaka það, sem jeg hefi sagt um hann áður, en mjer dylst það ekki, eftir því sem jeg þekki til málsins, að hann hafi fulla ástæðu til að skoða bæði þing og stjórn bundið, eftir því sem áður er fram komið í málinu. Það getur vel verið, að þingið sje ekki „juridiskt“ bundið, en það er siðferðilega bundið, og það er nóg. Dr. Alexander hefir varið allmörgum árum af æfi sinni til þess að búa sig undir þetta starf, og það er því hart fyrir hann að þurfa að hlaupa frá því; en þó er hjer annað og verra. Það er óheppilegt fyrir stofnunina að missa manninn frá því starfi, sem hann hefir lagt svo mikla rækt við.

Jeg vona, að ekki þurfi meiri umr. um þetta mál og að stjórninni megi takast að koma því í gegnum þingið. Jeg trúi ekki öðru en samkomulag náist um að skipa íslenskunni í hásætið hjer við háskólann, svo að erlendir menn, sem leita að sem fullkomnastri þekkingu í íslensku, leiti fyrst og fremst til háskólans hjer í því efni. Þjóðarmetnaður vor krefst, að vjer sjeum forgöngumenn á þessu sviði.