27.03.1925
Efri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1530 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Frsm. minni (Jónas Jónsson):

Í gær hjelt hæstv. forsrh. (JM) langa ræðu um þetta dósentsmál, og vil jeg nú gera fáeinar aths. við þá ræðu.

Fyrsta atriðið, sem hæstv. ráðh. (JM) vildi sanna, var það, að engin kensla væri í íslenskri tungu við háskólann, ef þessari kenslu dr. Alexanders yrði ekki haldið áfram. Jeg hefi áður hrakið þessa fullyrðingu, en þó vil jeg nú enn víkja að henni nokkrum orðum. Þá er rjettast að vitna fyrst í þau ummæli nokkurra stuðningsmanna hæstv. forsrh. í hv. Nd., að þessi kennari kenni aðeins 4 stundir á viku við háskólann. Ef þetta er eina kenslan, sem nemendur norrœnudeildarinnar fá í íslenskri tungu, þá er jeg hræddur um, að þeir verði ekki sjerlega þykkir á barðið í móðurmálinu hvort eð er, þegar þeir útskrifast úr deildinni. Nei, hæstv. forsrh. veit vel, að þessi fullyrðing er tóm endileysa. Hann veit fullvel, að þegar háskólinn var stofnaður, var lögð aðaláhersla á aðra hlið kenslunnar í íslenskum fræðum, nefnilega bókmentasöguna, og var svo til ætlast, að hæfasti maðurinn, sem völ væri á á hverjum tíma, gegndi þessu embætti og legði jafnframt rækt við vísindaiðkanir í ísl. málfræði, eftir því sem hugur hans hneigðist til.

Það er rjett, sem hv. 2. þm. Skagf. (JS) hefir haldið fram, að fyrstu ár háskólans heyrðust engar umkvartanir, þó að enginn sjerstakur kennari væri í íslenskri málfræði. Fyrsti prófessorinn í íslenskum fræðum fjekst aðallega við bókmentaskýringar, og hið sama hefir eftirmaður hans, sem nú er prófessor, gert. Það hefir því aldrei verið þörf háskólans, heldur þörf Alexanders Jóhannessonar, sem hefir valdið því, að hann hefir haft þessa kenslu á hendi. Hann hefir sjálfur beðið um, að þetta embætti verði stofnað, og það ætti þá að stafa af því, að þessi maður hafi fundið svo brennandi þörf á því að auka málfræðikensluna, að hann hafi ekki getað stilt sig um að bjóða fram krafta sína í þessu skyni.

Í þessu sambandi má geta þess, að hæstv. forsrh. hefir enn ekki svarað þeirri fyrirspurn minni, hvort menn hafi ekki kunnað íslensku á söguöldinni, þó að engin væri málfræðin kend. Eða kunni enginn maður íslensku á miðöldunum? Nei, svona röksemdir verða ljettvægar fundnar. Það má líkja þeim við orð nafngreinds manns, sem sagði, að menn gætu ekki hugsað án þess að læra áður hugsunarfræði. Eftir því hefir enginn maður, að undanteknum örfáum, sem fengu mentun sína við erlenda háskóla, kunnað að hugsa rökrjett hjer á landi alt fram á allra síðustu ár, er byrjað var á kenslu í hugsunarfræði eða rökfræði hjer á landi. Þetta eru hliðstæðar firrur og jafn frambærilegar og sóma sjer fremur illa í munni kenslumálaráðherra. Menn munu engu síður læra og kunna íslenska tungu, þó að þetta dósentsembætti verði ekki stofnað.

Það eru ekki aðeins ósannindi, heldu gat á allri rökrjettri hugsun, að menn geti ekki kunnað fullvel íslenska tungu án þess að kunna skil málfræði aftur í svörtustu fornöld. Við þyrftum að vera horfnir aftur að „scolastik“ miðaldanna, til þess að skynsamir menn gætu tekið slíkt alvarlega.

Þá sagði hæstv. forsrh. (JM), að prófessorinn í íslenskum fræðum væri ekki fær um að kenna ísl. málfræði við háskólann, en aftur á móti væri þessi sjerfræðingur, sem fyrir rás viðburðanna og kraft stórveldanna er kominn í þetta embætti, fær um það.

Prófessorinn í ísl. fræðum við háskólann hefir fyrst og fremst tekið próf í norrænu við Kaupmannahafnarháskóla. Síðan varð hann doktor í íslensku við sama háskóla. (Forsrh. JM: Í íslensku?). Já, í íslensku. Jeg þekki doktorsritgerð hans, og ef hún heyrir undir nokkra sjerstaka fræðigrein, þá heyrir hún undir íslensk fræði. Eða heldur hæstv. forsrh. (JM), að hann hafi „dispúterað“ við sagnfræðideild háskólans? Eða heldur hann kannske, að ritgerðin sje úr þýsku?

En hvernig er sjermentun hins mannsins, sem nú á að gera að íslenskukennara, varið? Að því er menn best vita, hefir hann enga íslensku lært, nema í latínuskólanum, eins og aðrir, sem hafa tekið stúdentspróf. Í Kaupmannahöfn las hann þýsku og tók þar próf við háskólann í þeirri fræðigrein. Síðan fór hann til Þýskalands og tók þar eina af þessum ljettu doktorsgráðum, sem m. a. Greifswald er frægur staður fyrir í öðru sambandi.

Það er því rangt alt frá undirstöðunni, sem hæstv. forsrh. hefir sagt um þetta atriði,

Prófessorinn hefir lokið sjernámi, sem hjer á Norðurlöndum er talið leiða til þess, að geta talist sjerfræðingur í norrænum fræðum, og hefir ennfremur staðist þá vísindalegu raun, sem venjulega er talin nauðsynleg til þess að geta tekið við slíku embætti.

Hinn maðurinn hefir lært þýsku, og ef hann er sjerfræðingur í einhverju, þá er hann það í þýsku, enda byrjaði hann á að kenna þýsku, þegar hann fyrst kom að háskólanum. En þegar hann sá, að engar líkur voru til þess, að kennaraembætti í þýsku yrði stofnað hjer við háskólann, þá sneri hann við blaðinu og bauðst til að kenna gotnesku, síðan samanburðarmálfræði og loks íslenska málfræði.

Þá hefi jeg gengið frá því, hvernig sjermentun þessara tveggja manna er varið. Annar hefir eðlilegan og sjálfsagðan rjett til þess að vera talinn sjerfræðingur í norrænu, en hinn hefir engan slíkan rjett, enda viðurkent af honum sjálfum með því að byrja að kenna þýsku, þegar hann kom heim að afloknu námi.

Af því af hæstv. forsrh. (JM) gaf í skyn, að frægir vitnisburðir lægju fyrir um íslenskukunnáttu dr. Alexanders, þá væri fróðlegt að heyra, hvort íslenskuprófessorinn við Kaupmannahafnarháskóla, Finnur Jónsson, hafi gefið honum meðmæli, sem hæstv. ráðh. (JM) byggir á.

Jeg sá, að hæstv. forsrh. varð forviða, þegar jeg sagði, að prófessor Nordal væri doktor í norrænu, en ekki í sagnfræði; en ef hann vill halda því fram, að söguprófessorarnir við Hafnarháskóla hafi dæmt um ritgerð Nordals, þá væri mjer sönn ánægja að hlusta á þá fullyrðingu. Ef hinsvegar norrænufræðingar hafa dæmt um ritgerðina, þá verður það ekki hrakið, að jeg fór með rjett mál, og jeg held líka, að það verði ekki hrakið.

Þá var það að heyra á hæstv. forsrh., að jeg hefði farið með einhverja dómadagsfjarstæðu, þegar jeg talaði um tímakenslu við háskólann, að jeg skyldi leyfa mjer að stinga upp á því, að maður, sem kennir 4 stundir á viku, eftir því sem mektaríhaldsmenn segja, verði gerður að tímakennara.

Jeg skal nú leyfa mjer að slá upp fjárlögunum. Í 12. gr. þeirra er m. a. veittur styrkur læknunum Ólafi Þorsteinssyni, Vilhelm Bernhöft og augnlækni, með því skilyrði, að þeir segi nemendum læknadeildar til, hver í sinni sjerfræðigrein. Hvað er þetta annað en tímakensla? Og þessir menn fá einmitt viðlíka upphæð að launum eins og jeg stakk upp á, að tímakennara í íslenskri málfræði yrði greidd. Ennfremur fær hjeraðslæknirinn í Reykjavík þóknun í fjárlögum fyrir aukakenslu í lyflæknisfræði. Hvers vegna er hann ekki gerður að dósent? Er ekki vísindunum herfilega misboðið með því. að launa þennan mann sem tímakennara? En það er ekki alt búið enn. Fyrst tekur nú út yfir allan þjófabálk, þegar kennara í rjettarlæknisfræði eru greiddar einar 500 kr.! Það er engu líkara en að verið sje að hleypa barnaskólakennurum að háskólanum, svo lágar eru slíkar upphæðir, en verður ekki sjeð, hvernig vísindin geti þolað slíkt og annað eins. Nei, menn komast ekki í kringum það, að háskólinn hefir notað tímakennara og gefist vel. En nú þarf að setja upp hátignarsvip til þess að framfylgja sparnaðinum, sem útverðir íhaldsins hafa sett sjer að marki, þegar þeir eru að gæta pyngju ríkissjóðs.

Hæstv. forsrh. (JM) vildi álíta, að mjer bæri að sanna, að loforðið, sem prófessor Sigurði Nordal var gefið í fyrra, væri bindandi fyrir þingið. En þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt. Hann flytur nú frv. um að stofna embætti, sem skorið var niður í báðum deildum þingsins í fyrra, og færir sem ástæðu fyrir frv. loforð, sem fjvn. Nd. á að hafa gefið fyrir löngu síðan. Jafnframt fellir hann niður dýrtíðaruppbót Nordals, sem þingið í fyrra lofaði honum. Hvers vegna heldur hann ekki bæði loforðin? Það er hann, sem verður að sanna, að þau sjeu ekki bæði jafnbindandi. Jeg hefi altaf sagt, að jeg áliti hvorugt loforðið lagalega bindandi. Jeg held, að hæstv. forsrh. muni ganga illa að sannfæra menn um, að halda beri loforð nefndar, ef ekki á að virða nokkurs loforð alls þingsins.

Þá vil jeg segja nokkur orð um afstöðu hæstv. forsrh. til þessa máls á síðasta þingi. Hann var óánægður með afdrif dr. Alexanders, og fórust honum svo orð út af meðferð þingsins á honum:

„Finst mjer það bera vott um hörku hjá Alþingi og alllítinn skilning; því maðurinn hefir fengið hálfgert ef ekki algert loforð fyrir þessum launum og hefir búið sig undir að helga líf sitt vísindunum. Þegar hann er búinn að vinna nokkur ár, er þeim kipt af honum. Er manni þessum sýnd mikil óbilgirni. Má vera, að ýmsar slíkar misfellur stafi nokkuð af því, að hv. Nd. hefir ekki átt neina áhugamenn í mentamálum í fjvn. Þyrfti að hugsa fyrir því á næsta þingi.“

Það virðist nokkuð undarlegt, ef stærsti flokkur þingsins hefir af ásettu ráði valið áhugalausa menn í mentamálum í fjvn.

En þetta dósentsmál er alt borið fram til að þóknast vissum þm., hv. þm. Dala. Jeg hefi áður sýnt, hversu afarnauðsynlegur þessi hv. þm. (BJ) hefir reynst dr. Alexander til framdráttar í máli þessu, og benti jeg á, að ekki væri ólíklegt, að hæstv. forsrh. (JM) vildi nú stofna þetta embætti, í trássi við áðurnefndar íhalds stoðir í hv. Nd., hv. þm. Dala. (BJ) til geðs, enda hefir þessi mentafrömuður nýlega gert hæstv. stjórn stórmikinn greiða, þar sem hann gerðist lífgjafi hennar og lausnari í Krossanesmálinu, sællar minningar. (Forsrh. JM: Þetta frv. var borið fram í byrjun þings, en Krossanesmálið var til umræðu fyrir örskömmu síðan). Já, að vísu; en jeg get bent á það, að til er nokkuð, sem heitir að ráða menn fyrirfram til allskonar starfa, og er ekkert því til fyrirstöðu, að hæstv. stjórn hafi gefið sumum stuðningsmönnum sínum fyrirskipun um að jeta ofan í sig alt, sem þeir hafa áður um þetta mál sagt, til þess eins að fullnægja menningaráhuga þessa mæta mentafrömuðar (BJ), gegn því að hæstv. stjórn fengi haldið líftórunni missiri lengur.

Hæstv. forsrh. (JM) fór mörgum fögrum orðum um frelsið í Íhaldsflokknum. Hann mun þar eiga við, að flokksmönnum sje frjálst að skifta um skoðun, þegar stjórnin krefst þess og líf hennar liggur við. Enda gerði hann lítið úr ummælum þeirra trúnaðarmanna íhaldsins í fjvn. Nd., sem jeg hefi vitnað í, og vildi sem minst um það tala, að þeir hafi um margra ára skeið barist fyrir að fella þessa fjárveitingu niður og loks tekist það í fyrra.

Jeg held jeg hafi þá gengið í gegnum ræðu hæstv. forsrh. (JM), og hefi jeg ekki meira að segja að sinni.