31.03.1925
Efri deild: 43. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1550 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Jeg gat þess við 2. umr., að jeg mundi leggja fram nokkur ný gögn í þessu máli við 3. umr. En áður en jeg kem að þeim lið, ætla jeg að minna lítið eitt á nokkur atriði, sem jeg þykist hafa fullsannað við 1. umr.

Jeg benti á það ósamræmi hjá hæstv. stjórn að bera fram þetta frv. nú, þar sem stuðningsflokkur hennar vildi leggja þetta starf niður 1922 og kom þeim vilja í framkvæmd 1924. Jeg benti líka á það ósamræmi, að hæstvirt stjórn, sem ber þetta frv. fram, hefir á þingi í fyrra borið fram frv., sem fer í gagnólíka átt. Á jeg þar við frv. hæstv. fjrh. (JÞ) um háskólann. Í greinargerð þess frv. kemur glögt fram, hvað fyrir honum vakir. Hann segir:

„Fjárhag landssjóðs er nú svo komið, að telja má ókleift að rjetta hann við nema gripið sje til allra þeirra úrræða samtímis, sem nota mætti í því skyni. Þótt reynt sje í bili að stöðva tekjuhallann með því að fella niður allar verklegar framkvæmdir, þá er einsætt, að þjóðin muni ekki geta unað því til langframa, en þá verður líka nú þegar að hugsa fyrir niðurfærslu útgjaldanna á öðrum sviðum, svo sem með fækkun embætta. Þótt sú leiðin geti ekki leitt til stórkostlegs sparnaðar þegar í stað, þá verður engu að síður að taka nú þegar ákvarðanir í því efni, til þess að landssjóður geti aftur byrjað verklegar framkvæmdir og aukið þær eftir því, sem sparnaðurinn af embættafækkuninni kemur fram ....“

„.... Stungið er upp á sömu kenslukröftum í íslenskum fræðum, sem ákveðnir voru í lögunum frá 1909, er háskólinn var stofnaður.“

Það er þá, sem sagt, að hæstv. fjrh. hefir í fyrra lagt það til, að skipulagið í íslenskudeildinni yrði á sama veg og var 1909, að þar yrði einn prófessor og einn dósent. Nú er gert ráð fyrir að bæta við einum manni, svo að í deildinni verði 2 prófessorar og 1 dósent.

Í þessari greinargerð kemur skýrt fram sú hugsun, að viðreisn ríkissjóðs verði að byggjast á fækkun embætta og stöðvun verklegra framkvæmda. Ef þetta frv. er borið fram með samþykki hæstv. fjrh., þá hefir honum snúist hugur. En sje það borið fram í trássi við hann, þá hlýtur það að vera þvert ofan í skoðun hans.

Jeg hefi sannað það, að frá byrjun hefir þetta starf verið bundið við ákveðinn mann. Og jeg get bent á eitt, sem raunar kemur betur fram síðar, að velgengni þessa frv. hefir altaf farið eftir gengi stjórnarinnar. Gengi Alexanders hefir verið mest, þegar gengi stjórnarinnar hefir verið minst. Eða með öðrum orðum, það er öfugt hlutfall milli velgengni dr. A. J. og hæstv. forsrh.

Þá skal jeg víkja að nokkrum liðum, sem deildinni koma við. Það er ómótmælanlegt, að fyrst var aðeins einn kennari í íslenskudeildinni, Björn M. Olsen, þar til A. J. kom 1917–18. Með öðrum orðum: nálega helmingur af æfi háskólans líður svo, að í íslenskudeildinni er aðeins einn kennari. En ef það lof er verðskuldað, sem hjer hefir verið borið á Alexander Jóhannesson, að hann væri jafnvel mesti núlifandi málfræðingur á íslenska tungu, þá virðist dálítið undarlegt, að Björn Ólsen skyldi ekki mæla með honum sem eftirmanni sínum. Þá hefir verið deilt um það, hvort leyfilegt væri að hugsa sjer starfandi menn við háskólann, sem ekki væru fastir kennarar. Jeg hjelt því fram, að nota mætti tímakenslu við íslenskudeildina, en þetta hefir verið vefengt og jafnvel gert gys að því. En jeg hefi bent á, að við læknadeildina eru tímakennarar, sem kenna fyrir ákveðna þóknun án þess að hafa föst embætti. Viðvíkjandi því, að vansæmandi sje fyrir háskólann að hafa tímakennara, skal jeg benda á, að þessi nafntogaði vísindamaður, Alexander Jóhannesson, er í vetur tímakennari við mentaskólann. Ef hann getur það án þess að saurga sig, hví getur hann þá ekki eins verið tímakennari við háskólann? Jeg óska, að hæstv. forsrh. (JM) svari þessu snúningalaust.

Jón Ófeigsson mun hafa kent margar aukastundir við mentaskólann. Jeg sje ekki, að háskólanum væri nein vansæmd að slíkum manni, þótt hann kendi þar eitthvað án þess að vera settur á föst laun. Og það vill svo vel til, að við mentaskólann er norrænufræðingur frá Kaupmannahafnarháskóla, sem kennir þar íslensku. Hann mun líka hafa aukatíma. Hvað væri þá á móti því, að hann kendi við háskólann? Hefði átt að telja það vansæmd fyrir háskólann að njóta tímakenslu frá dr. Jóni Þorkelssyni eða dr. Birni Ólsen, ef þeir hefðu lifað? Nei, alt þetta skraf um vansæmd fyrir háskólann er endileysa, sem varla þarf að eyða orðum að. Jeg skal síðast benda á orðabókarhöfundinn, Jóhannes L. L. Jóhannsson, sem hjer hefir verið hælt svo mikið og enn er á háum launum. Væri óhugsandi, að hann kendi við háskólann? Ef hann er ekki fær um það, virðist undarlegt, að hann skuli vera fær um að semja þessa stóru orðabók.

Jeg gat þess við 2. umr., að jeg mundi rekja þetta mál nánar við þessa umr. og sýna frekar, hvernig til þess er stofnað. Í áliti fjvn. Ed. 1915 stendur:

„Dr. Alexander Jóhannesson sækir um 2000 kr. styrk á ári til að halda fyrirlestra við háskólann í ýmsum þýskum fræðum. .... Nú stendur svo á, að Þjóðverji sá, er hingað var sendur í fyrrasumar til þess að kenna þýsk fræði við háskólann, varð að hverfa heim, en engin von um, að annar Þjóðverji komi í hans stað fyrst um sinn.“

Þetta segir fjvn. Ed. Það er skýrt tekið fram, að dr. Alexander vill byrja sem varamaður fyrir þýskan mann heimansendan, sem varð að hverfa heim vegna stríðsins. Á sama þingi segir Bjarni frá Vogi:

„Jeg stóð upp til að flytja háttv. Ed. þakkir, .... en þó einkum fyrir meðferð hennar á þeim tillögum, sem jeg hefi borið fram í hv. Nd. Þær voru ekki svo fáar, en svo skelegglega var að verið í Nd., að þær voru allar skornar niður. .... Hún (Ed.) hefir bjargað fyrir mig tveim efnilegum ungum mönnum, Alexander Jóhannessyni og Jakob Jóhannessyni, og dregið þá upp úr hinu víða sláturtrogi Nd.

Af þessum tilvitnunum sjest tvent: Upphaf málsins er það, að Alexander sækir um styrk til að komast að háskólanum sem kennari í þýskum fræðum. Í öðru lagi tekur Bjarni frá Vogi þetta sem sína tillögu og hælist um yfir samþykki Ed. Það sjest, að enginn hefir barist betur með þessu en hann, að undanskildum Alexander sjálfum.

Við sömu umræðu í Sþ. segir einn af leiðandi mönnum í Nd., Magnús Pjetursson, að þeir, sem óttist, að styrkurinn til A. J. verði vísir til nýs embættis, skuli gæta að því, að hann sje einmitt settur í 15. gr. til að fyrirbyggja þann ótta.

Meðhaldsmenn styrksins leiða þannig rök að því, að þetta eigi ekki að vera framhaldsstyrkur. M. a. segir Pjetur Jónsson fyrir hönd fjvn., að hún geti ekki aðhylst að veita Alexander styrk til þýskra fræða.

Þá kemur það, sem Bjarni frá Vogi segir:

„Ber það til sjerstaklega, að hann veit, að óþektar eru hjer kenningar Sivers og rannsóknir um áhrif ýmsra vöðva á röddina; gætu þessar kenningar verið mjög gagnlegar fyrir alla þá, sem starfa að listum, og eins ræðusnillinga, svo að ekki er ólíklegt, að þingmenn, er þeir hefðu hlustað á þennan pilt í einn vetur, gætu talað af miklu meiri snild og hljómfegurð Væri það ekki ómerkilegt atriði, að löggjafarnir yrðu raddfegri, þegar þeir halda líkræðurnar yfir nauðsynjamálum þessa lands.“

Hjer er málið enn sett á nýjan grundvöll. Það er ekki lengur aðeins þýska, sem um er að ræða, heldur á nú einnig að fara að kenna mælskulist, sem jeg síðar mun víkja að, og ef til vill hefir borið einhvern árangur. En þetta hafði ekki meiri áhrif en svo, að Pjetur Jónsson segir:

„Nefndinni fanst hjer vera vísir til nýs dócentsembættis í háskólanum og hjelt heppilegra, að sá vísir væri gróðursettur að tilhlutun háskólaráðsins, en nefndin veit ekki til, að það hafi gert neitt í því skyni.“

Hjer er ný sönnun fyrir því, að háskólinn átti ekki frumkvæði um þetta mál, og það virðist ekki hafa verið leitað álits hans, enda hefi jeg áður leitt rök að því, að þetta er ekki frá honum komið upphaflega.

Þá segir Bjarni frá Vogi:

„Sumir eru hræddir um, að hjer sje stofnað til fasts embættis, en það er hvorki tilgangur minn nje hins unga manns, er styrksins æskir. Hann ætlar sjer að lesa fyrir við háskólann þessi tvö ár.“

Hjer liggur þá fyrir bein yfirlýsing frá aðalflytjanda málsins, að þetta eigi aðeins að vera til tveggja ára. Grunur Pjeturs Jónssonar er að engu gerður.

Nú skyldi maður ætla, að ekkert hefði verið í þessu gert eftir 2 ár og styrkurinn fallið niður. En það er öðru nær. Þá er Bjarni frá Vogi frsm. fjvn. og í fjárlögunum koma nú tveir styrkir sameinaðir til þessa manns. Jeg hygg, að núv. forsrh. (JM) hafi samið fjárlagafrv. fyrir 1917, en þar standa þessi orð:

„Til kennara í gotnesku og engilsaxnesku 1000 + 1000.“

Nú er breytingin orðin sú, að fyrir þýsku fyrst og síðar mælskulist er komin gotneska og engilsaxneska.

Svo líða tvö ár. Þá er það enn hæstv. núv. forsrh., sem undirbýr fjárlögin. Þar stendur:

„Til kennara í gotnesku, engilsaxnesku og germönskum fræðum 2800.“

Breytingin er sú, að komin eru germönsk fræði í viðbót, en íslensku er ekki minst á enn sem komið er.

Árið 1920 var stutt þing, en á því gerðist þó nokkuð mjög merkilegt í þessu máli, án þess þó að hægt sje að sjá það af þingtíðindunum það ár. Það kemur eiginlega ekki fram fyr en við meðferð þessa máls í fjárlögunum 1921. Þá er það sami ráðherra (JM), sem hefir undirbúið stjfrv. að þessu leyti, sem þegar kemur nokkuð fram. Á þinginu kemur mentmn. Nd. með frv. shlj. því, sem nú liggur fyrir. Það er mjög stutt athugasemd fyrir frv. (með leyfi hæstv. forseta):

„Aukakennarinn í gotnesku, engilsaxnesku og germönskum fræðum við háskólann hefir farið þess á leit, að dósentsembætti það, er ræðir um í frumvarpi þessu, verði stofnað Frekari grein verður gerð í framsögu. Kenslumálaráðherra hefir hana á hendi, því að hann hefir samið frv. og greinargerðina, en nefndin ber málið fram fyrir hann.“

En það liggur í þessu greinileg játning um það, hvernig þetta mál frá byrjun er sótt. Maðurinn sjálfur, sem hlut á að máli, hefir beðið um, að frv. sje flutt, en ekki háskólinn, og mentamálaráðherra gerir þetta að vísu, en of seint til þess að geta gert það að stjfrv. Mentmn. flytur það fyrir hann, en er þó svo óviljug að flytja það, að hún vill ekkert um það segja, svo að ráðherrann sjálfur verður að hafa framsögu. Það er því ljóst, hvernig alt þetta er bundið við baráttu mannsins sjálfs. Ráðherrann sjálfur er leiður á því, og hefði því komið of seint með frv., og nefndin enn leiðari og greiðir að einhverju leyti atkv. á móti því, sem jeg mun koma að síðar. Þegar ráðherra svo hefir framsögu í málinu, kemst hann svo að orði, að mentmn. 1920 hafi gengið að því að semja um sömu laun handa dr. Alexander Jóhannessyni eins og hann væri dósent. Þarna kemur þá nýr þáttur inn í málið. Það er gerður samningur í þessu máli á þinginu 1920, en ekki af þinginu sjálfu, ekki af stjórninni, að því er virðist, heldur af fjvn. þingsins, eða líklega helst af fjvn. Nd. En einmitt þetta, að það er hvorki þingið eða stjórnin, sem gerir þennan samning, gerir hann mjög haldlítinn, eins og von var og fram kom í fyrra. Þá, við þessa sömu umr., flytur núverandi fjrh. (JÞ) þá brtt. að binda fjárveitingu þessa við nafn mannsins sjálfs, og flm. (JÞ) útskýrði það svo (með leyfi hæstv. forseta) :

„.... af því að mjer var tjáð, að þessi maður hefði fengið loforð fyrir stöðunni hjá stjórn og þingi Jeg hafði vœnst þess, að við 1. umræðu hefði verið frá því skýrt, hvernig loforð þetta var til komið, en það var ekki gert.“

Það er auðsjeð, að núverandi fjrh. (JÞ) er töluvert efablandinn hvað þetta snertir, sem og sjest af því, að hann tekur þá aðferð að borga ekki annað út en það, sem stendur í fjárlögunum, og hefir ekki kunnað við þessa aðferð. Þessu svarar svo mentamála- og dómsmálaráðherra núverandi með þessum orðum:

„Það er rjett athugað, að það má líta svo á, að ekki hafi komið neinn löglegur samningur í þessa átt. En aðallega kom þetta til milli dr. Alexanders og fjárveitinganefnda beggja deilda.“

Hjer með er þá af hæstv. forsrh. (JM) slegið föstu, í ræðu, sem hann heldur á þinginu 1921, að þetta sje ekki löglegur samningur, og hann hefir um það þau skrítilegu orð, að þetta hafi aðallega „komið til“, eins og þegar menn eru að tala um trúlofanir, á milli hlutaðeiganda og fjvn. beggja deilda; reynir sem sagt að gera það ljóst, að það hafi ekki verið stjórnin, sem þar hafi átt hlut að máli; síðan bætir sami háttv. ræðumaður við, að þetta hafi orðið svo áberandi af því, að sú spurning hafi komið upp, hvort þessi maður ætti að fá fulla dýrtíðaruppbót, og bætir því við, að háttv. þm. Dala. (BJ) muni muna það vel, því að hann hafi verið frsm. að þeim kafla fjárlaganna. Það er hjer vel og rjettilega tekið fram hjá hæstv. ráðherra (JM), hver hafi verið kunnugastur þessu öllu saman og verið pottur og panna í því öllu, því að það kemur síðar fram í umr., mig minnir að hæstv. forsrh. (JM) segi, að það hafi komið til í þinglok 1921, og var þá ekki ástæða til annars en að leyfa nefndinni að gera þetta. En ástæðan til þess, að þetta er gert þar, en ekki á fjárlagaþingi, er sú, að maðurinn þarf að fá dýrtíðaruppbót. Nú mætir þetta mótstöðu í Nd., sjerstaklega af einum stuðningsmanni stjórnarinnar, hv. þm. Borgf. (PO); hann vítir stjórnina fyrir að hafa borgað út án leyfis þingsins, og bætir svo við:

„Mest brögð hafa verið að þessu á síðastliðnu ári, og má ekki láta slíka aðferð vera óvítta.“

Þá mun, sem sagt, hafa verið náð hámarki í þeim sið að borga eftir till. fjvn., án þess að þingið samþykti það. Þá segir háttv. þm. (PO) ennfremur, að háttv. þm. Dala. (BJ) og hæstv. dómsmálaráðherra (JM) hafi báðir sagt, „að fjvn. hafi ráðið þennan kennara, sem nú á að gera að föstum embættismanni. .... Jeg mótmæli slíkri verslun.“ Þá segir sá háttv. þm., sem nú er fjrh. (JÞ), nokkur orð í sömu átt:

„Þessu frv. hefir, samkvæmt því, sem nú er fram komið, að ófyrirsynju verið troðið upp á mentamálanefnd til flutnings .... Það er sitt hvað að veita hæfum manni styrk til einhvers starfa eða stofna nýtt, fast embætti. .... Mun jeg greiða atkv. gegn frv., því að jeg álít stefnu þess ekki heppilega, og jeg býst við, að jeg sje ekki einn um það álit.“

Það koma, sem sagt, alveg skýr og skörp mótmæli gegn þessu frá núverandi fjrh. (JÞ), og gerir hann mikinn mun á því og segir það sitt hvað að styrkja með fjárveitingu um stundar sakir, eins og þarna átti að vera, eða að vera með því að stofna nýtt embætti.

Nú kemur það enn í ljós, hve óheilt fylgið við frv. þetta var á þinginu 1921, því að einn úr mentmn., þáverandi 1. þm. Árn. (Eiríkur Einarsson) segir, að mentmn. sje alveg óbundin við frv., og bætir síðan við (með leyfi hæstv. forseta) :

„Hjer er haft að yfirvarpi, að verið sje að styrkja norrænu, en ef það væri af heilindum mælt, mundi í embættið valinn sjerfræðingur í norrænu, en maðurinn, sem um er að ræða, er sjerfræðingur í þýskum fræðum, og er þar tekið af öfugum enda.“

Þetta er eitthvað af því síðasta, sem sagt er um málið á þinginu 1921, og endar svo með því, að frv. er felt með 15:10 atkv. í Nd., að viðhöfðu nafnakalli, og vil jeg leyfa mjer að lesa upp nöfn þeirra manna, sem þar áttu hlut að máli, og gefa stutt yfirlit yfir það, hvernig flokkarnir stóðu að málinu. Þeir, sem atkv. greiddu á móti frv., voru þessir: JAJ, JBald, JS, JÞ, MG, PJ, PO, SSt, StSt, SvÓ, ÞorstJ, ÞórJ, BH, EÞ, EE. Af þessum 15 mönnum eru 11 eða hafa verið viðurkendir Íhaldsmenn, 3 Framsóknarmenn og 1 verkamannasinni. Með frv. voru þessir 10 menn: GunnS, HK, JakM, MJ, MK, MP, PÞ, ÞorlG, ÞorlJ, BJ.

Af þeim þingmönnum, sem þá voru í fjvn. af Framsóknarmönnum, er einn eftir á þingi; hinir eru ekki þingmenn lengur, og þessi eini, núverandi þm. A.-Sk. (ÞorlJ), hefir vafalaust verið bundinn af samstarfi sínu við höfuðflytjanda málsins (BJ) í fjvn.; en það er alveg áberandi í þinginu 1921, að nálega allir Íhaldsmenn, og þar á meðal báðir stjettarbræður hæstv. dómsmálaráðherra, eru á móti frv. og fella það umsvifalaust, og þar sem yfir þetta mál hefir gengið þessi dómur 1921, og síðan á þinginu í fyrra, fer það að verða nokkuð ljóst, að það, sem jeg sagði við 1. umr. þessa máls, að það væri allmikil dirfska, sem stjórnin sýndi, að koma með þetta mál inn á þingið.

Nú hefi jeg rakið þráðinn fram að þeim tíma, sem jeg hafði áður skýrt frá, nefnilega fram að þingunum 1921 og 1924, og held jeg þá, að það sje fullsannað af mjer, að flokksmenn hæstv. forsrh. (JM) hafa gengið ósleitilega fram í því að firra landið þeim kostnaði, er af þessu frv. leiddi, og haldið fram að því er háskólann snertir þeirri stefnu, er fram kom hjá hæstv. fjrh. (JÞ) í fyrra, að allar verklegar framkvæmdir, sem byrja eigi innan skamms, verði ekki að litlu leyti að byggja á sparnaði af embættafækkun.

Þá hefir því verið haldið uppi af hæstv. forsrh. (JM) og öðrum samherjum hans í þessu máli, að hjer væri um svo óvenjulegan mann að ræða á vísindanna sviði, að sú ástæða ein væri nægileg. En nú býst jeg ekki við, að hæstv. ráðherra (JM) hafi vitað um það, sem hv. þm. Dala.

(BJ) sagði á þinginu 1915, að þessu væri ætlað að vera til eins eða tveggja ára, því að þá hygg jeg, að hann hefði ekki viljað gera þann merkilega mann ómerkan orða sinna. En af því að svo mikið hefir verið talað um vísindi, og af því að jeg hefi svo takmarkaða þekkingu á þeim, skal jeg ekki leggja neinn dóm á þá hlið málsins sjálfur.

Jeg hefi áður vikið að því, að það liggur eftir þennan mann allfræg ritgerð, sem heitir Um fegurð kvenna í nýíslenskum skáldskap. Þessi ritgerð er í tímaritinu Eddu, 5. bindi, 1916; þar segir svo á bls. 364 (með leyfi hæstv. forseta) :

„Augun eru í íslenskum skáldskap annaðhvort blá eða dökk.“

Þetta er þá ein af þeim uppgötvunum í þágu vísindanna, sem um er að ræða, og þetta er ein af þeim setningum, sem hafa orðið mjög frægar erlendis, og jeg get þess vegna viðurkent, að hæstv. ráðherra (JM) hafi rjett fyrir sjer í því, að með þessari vísindalegu sönnun, sem hjer er slegið fastri, er það sannað, að augun í kvenfólki, í íslenskum skáldskap, eru ekki hvít, græn eða gul. eða með neinum öðrum höfuðlitum.

Nú muna hv. þm. enn, að jeg hafði vitnað í hv. þm. Dala. (BJ), þar sem hann segir á þinginu 1915, að þessi dósent geti kent hv. þm., ráðherrum og háskólakennurum mælskulist o. fl., og finst hjer kannske skýring á því, hvers vegna hæstv. ráðherra (JM) fylgir þessu máli svo fast fram, því að í Skírni 1916, bls. 395–396, er ítarleg grein um þessa miklu þýsku uppgötvun, og af því að þetta er loforð til þingsins um mælskulist, og af því að jeg býst við, að þetta valdi því, að stjórnin vill festa þennan mann við háskólann, þá ætla jeg, með leyfi hæstv. forseta, að lesa dálítinn kafla úr greininni. Þar er verið að tala um þessa rannsókn á vöðvunum í sambandi við röddina. Þar segir svo meðal annars:

„Einkenni 1. aðalflokks er það, að kviðurinn er nokkuð framsettur; má sannfærast um það, ef menn setja kviðinn nokkuð fram og brjóstið inn og taka síðan til máls, verður þá röddin dimm og mjúk. Einkenni 2. aðalflokks er, að brjóstið er nokkuð þanið, en herping hleypt í lendarnar þversum, verður þá röddin björt og mjúk. Einkenni 3. aðalflokks er, að herping kemur í lendarnar til beggja hliða og niður á við, og verður þá röddin björt og hörð. Er þetta vanarödd Íslendinga og hefir einn íslenskur ræðumaður skýrt mjer frá, að hann hafi eitt sinn flutt ræðu, er stóð yfir í nær 2 tíma; hafi hann að henni lokinni ekki kent neinnar þreytu í raddfærunum, en aftur á móti aftast í lendunum og mjóbakinu. Einkenni 4. aðalflokks er, að herping verður til beggja hliða upp á við, og verður þá röddin dimm og hörð. Þannig hyggur Sievers, að t. d. Jónas Hallgrímsson hafi talað, vegna þess að kvæði hans njóta sín best, ef þau eru lesin upp með dimmum og hörðum málróm (auk ýmissa annara hljómbrigða, er sjerkennileg eru fyrir kvæði hans).“

Síðan eru fáein orð til þess að skýra þetta betur:

„Hljómblærinn getur ennfremur orðið greinilegur eða ógreinilegur, eftir því hvort depill nokkur skamt fyrir ofan nafla gengur út eða ekki. Ennfremur er gerður greinarmunur á svo nefndum dramatiskum eða lyriskum hljómblæ raddarinnar, ef hans gætir; að öðrum kosti er talað um marklausan hljómblæ (neutral, þ. e. a. s. hvorki lyriskan eða dramatiskan). Er það vöðvasamdráttur, er á sjer stað í kviðnum neðarlega frá depli fyrir neðan nafla til beggja hliða aftur á bak. Fer samdráttur þessi eftir því, hvort hljómblærinn er heitur eða kaldur (þensla eða samdráttur á kviðbein): Heitur hljómblær 1. og 2. aðalflokks verður dramatiskur, ef þessi vöðvasamdráttur verður frá miðdeplinum fyrir neðan naflann til beggja hliða aftur á bak, en er nefndur lyriskur, ef samdrátturinn fer í öfuga átt, frá bakinu beggja megin að miðdeplinum. Kaldur hljómblær 1. og 2. aðalflokks verður dramatiskur, ef samdráttur þessi gengur frá bakinu beggja megin að miðdeplinum, en lyriskur, ef hann gengur frá miðdeplinum til beggja hliða aftur á bak. Sjest af þessu, að lyriskur og dramatiskur hljómblær lagar sig eftir heitum og köldum hljómblæ.“

Það er nokkuð meira í þessa átt, en jeg vil ekki þreyta hv. deild á meiru af þessu, enda geta hv. þm. lesið frekar um þetta í Skírni 1916. (Forsrh. JM: Eða hjá Sievers sjálfum). Já, þeir, sem hafa notið nægilegrar kenslu við háskólann í þýskum fræðum til þess að komast í hann sjálfan.

Nú hefi jeg áður leitt rök að því, að þessu hafi verið lofað áður af flm. málsins (BJ), að það væri hægt fyrir háttv. þm. að auka ræðukraft sinn með því að nema þessi fræði, og þessi frœði hafa einmitt komið fram í Skírnisgreininni 1916. Nú efast jeg ekki um, að svo lærður maður sem hœstv. forsrh. (JM) muni hafa fylgst með í þessu, og einmitt þar sem þessu hefir verið svo nákvæmlega lýst árið 1916, þá hefir mjer dottið í hug, að fylgi hœstv. forsrh. (JM) í þessu máli, þvert ofan í harðsnúna mótstöðu flokksbræðra hans, muni stafa af því, að hann sjálfur og einhverjir samherjar hans hafi einmitt notfært sjer þetta vísindalega kerfi Sievers, sem flutt er hjer, og það er einkennilegt, að svo að segja sama árið sem þessi grein kemur út, þá fer formælandi þessa máls (JM) að stíga og verður ráðherra. Og jeg vil nú skjóta því til hæstv. ráðherra, hvort hann geti ekki litið svo á, og ef svo er, hvort hann vilji þá ekki skýra þinginu frá, að hann sem áhrifamikill maður í þjóðlífinu standi í meira en lítilli þakklætisskuld við þann mann, sem hefir innleitt þessi vísindi eða mælskufræði hjá þjóðinni.

Jeg hefi tæpt á því áður, að það er, að því er virðist, öfug velgengni milli þessa dósents og stjórnar þeirrar, sem fer með þetta frv. Á þinginu 1915 gekk erfiðlega að koma þessum styrk í gegn, en tókst þó. Síðan siglir þetta alt vel og rólega frá 1917–1920, á blómatíma þessa ráðherra, en svo þegar stjórnin var tekin að hallast 1921 og þurfti hjálparmanna, þá kemur einmitt dósentinn upp, og er þá þvertekið fyrir hann á þinginu í fyrra. Þegar ráðherrann er í uppsiglingu, þá er hann altaf drepinn, en þegar svo aftur fer að blása á móti stjórninni, þá kemur dr. Alexander aftur ljóslifandi, og á nú að verða dósent. Jeg vil leyfa mjer að vekja athygli á þessu, til þess að það verði útskýrt.