27.04.1925
Neðri deild: 65. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Sveinn Ólafsson:

Jeg get fylgt loflegu fordæmi þeirra hv. þm., sem talað hafa á undan mjer, og farið fljótt yfir sögu. Tveir hv. þm. (KIJ og MG) hafa lítillega haft á móti brtt. mínum sumum, og þó ekki sterklega mótmælt þeim, en með öðrum hafa þeir lagt. Jeg vildi þá, út af því, sem hæstv. atvrh. sagði um 1. till. mína, geta þess, að í 1. málsgrein felst ekki annað en samræming við 3. málsgr. 49. gr. vatnalaganna. Og þótt segja megi, að það sje ekki ýkjaáríðandi, þá virðist mjer, að fult eins vel fari á því, að það sje gert. Annars verð jeg að álíta, að 1. brtt. bæti mikið úr skák, því ákvæði 2. gr. frv. eru býsna óákveðin. Þar stendur (með leyfi hæstv. forseta):

„Eigi er heimilt án leyfis ríkisstjórnarinnar að virkja til orkunýtingar fallvatn (foss eða hávaða), eða hluta úr þeim, ef fallvatnið hefir meira en 500 eðlishestöfl.“

Hjer liggur beint við að spyrja, hvort skilja beri þetta svo, að þegar ekki er um stærri virkjun að ræða, þá skuli fyrirtækið vera laust við allar sjerleyfiskvaðir, eins og tekið er fram í 2. málsgr. 2. gr. frv., þar sem stendur, að ríkisstjórnin geti veitt samþykki til þess, að hjeraðsstjórnir og aðrir virki fallvötn án sjerleyfis, þótt um meira en 500 eðlishestöfl sje að ræða, ef aðeins er ætlað í þarfir almennings.

Það er tvent óskýrt í 1. málsgr. 2. gr. Fyrst og fremst það, hverjir geta virkjað alt að 500 eðlishestöflum án leyfis ríkisstjórnarinnar eða hverjar heimildir virkjandinn þarf að hafa á vatninu, og í öðru lagi það, hvort leyfi ríkisstjórnar í þessu sambandi þýðir sama og sjerleyfi. Það ætti að koma skýrt fram, að þessi 500 eðlishestöfl væru kvaðalaus, en ef virkjunin fer yfir 500 eðlishestöfl, þá skuli af þeim gjalda, og ef fallvatnið er stærra en nemi 500 hestöflum, þá geti stjórnin bannað, að virkjaður sje hluti af því, af því að með því móti getur fullkomnari nýting þess orðið dýrari og erfiðari. Jeg hefi nú komið með brtt. mína til þess að gera þetta skýrara.

Hæstv. atvrh. áleit, að 2. málsgrein í 1. brtt. minni væri óþörf. Hún er ef til vill ekki nauðsynleg, en hún er eðlileg takmörkun þess, hve langt verði að jafnaði farið um virkjunarleyfi án sjerleyfiskvaða. Það má segja, að það liggi ónefnt í lögunum, að ríkisstjórnin ráði yfir því, sem fer fram yfir þessa hestaflatölu.

Um 2. brtt. mína á þskj. 182, stafliðina a, b og c, ljet hæstv. atvrh. þess getið, að hann fjellist á þá. Aftur vildi hann ekki fallast á 3. brtt. mína, um að færa virkjunarleyfi stjórnarinnar úr 25 þús. hestöflum niður í 10 þús. Hann hjelt, að það mundi verða óþarflega umstangsmikið fyrir þingið að hafa slíkar leyfisveitingar með höndum. En þegar nú þingið kemur saman á hverju ári, þá virðist það einfalt mál að bera undir það, hvort veita skuli leyfi eða ekki.

Sömuleiðis var hæstv. atvrh. (MG) mótfallinn því að setja sjerleyfistímann 50 ár, í stað 75 ár, eins og stendur í frv. En ef betur er að gáð, þá er það á valdi Alþingis að ákveða hámark leyfistímans, og það getur sett hann 75 ár, eða jafnvel 100 ár, ef því sýnist, eftir brtt. minni, þótt stjórnin geti ekki veitt leyfi fram yfir 50 ár. Það er því ekki ástæða til þess að óttast þessa till.

Þá fjelst hæstv. atvrh. á brtt. við 12. gr. Eins og jeg hefi áður drepið á, er hún gerð til þess að samræma frv. við vatnalögin, sjerstaklega 49. og 65. gr.

Aftur fjelst hann ekki á brtt. við 15. gr., og gerir það í sjálfu sjer ekki svo mikið til, en þó tel jeg hana nauðsynlega vegna samræmis við gildandi lög, og alveg er hún hliðstæð a.-lið 2. brtt., við 4. gr.

Jeg sje ekki ástæðu til þess að deila hjer um eignarumráðin yfir vatni, þótt þessi till. snerti þau. Það mál verður að teljast útkljáð, enda hefi jeg ekki minst á það hjer nema í sambandi við samræmi í lagasetningunni um þessi efni.

Um 7. brtt. mína virðast allir sammála. En um 8. brtt. virðast aftur skiftar skoðanir, þótt undarlegt sje. Hún er af sama toga spunnin sem 2. og 6. till. og jafnrjettmæt sem þær, og skal jeg ekki fjölyrða frekar um það.

En 9. og síðasta brtt., við 36. gr., virðist því miður ætla að verða að þrætuepli. Jeg tel hana mest verða af öllum till., og að ekki megi teljast tryggilegur frágangur á þessum lögum, ef 36. gr. verður ekki breytt. Jeg endurtek það, og legg langmesta áherslu þar á, að í þessari brtt. felst mesti hemillinn á framkvæmdum útlendinga, sem hafa sölsað undir sig vatnsrjettindin í landinu. Og mjer virðist það liggja beint við, að Alþingi eitt veiti sjerleyfi, ef um virkjanir er að ræða af þeirra hálfu. Skal jeg í því sambandi benda á það að árið 1917 leitaði fossafjelagið „Ísland“ til þingsins í þessu skyni, enda þótt þá væru hjer engin lög um þetta efni og stjórninni þá opin leið að veita leyfið á eigin spýtur. Fleira þarf jeg ekki um þetta að segja. Hv. 2. þm. Rang. (KIJ) tók í sama strenginn og hæstv. atvrh., og hefi jeg þá svarað honum líka hjer með.