29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1675 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Frsm. (Jón Kjartansson):

Það leiðir af sjálfu sjer, að þar sem þessum brtt. er ekki útbýtt fyr en á fundi í dag, hefir allshn. ekki getað tekið ákvörðun um þær, og hafa nefndarmenn því óbundin atkv. Mjer virðast þó brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), einkum sú fyrri, alveg óþörf. Að bæta inn í umráðamönnum sýnist mjer óþarft, því það liggur í hlutarins eðli, að þeir, sem fara að virkja orkuvötn, verða að hafa heimild til þess. En hvað snertir 3. brtt. á þskj. 405, þá býst jeg við, að hún, þótt hún sje ekki beinlínis þörf, sje heldur til bóta, með því að hún er skýrari en ákvæðin í lögunum.

Brtt. hv. þm. Str. (TrÞ) fer fram á það að takmarka talsvert sjerleyfi. Um það var deilt við 2. umr. málsins, og get jeg ekkert sagt um hana fyrir nefndarinnar hönd, því að hún var líka skift við þá umr., og býst jeg við, að hún verði það ennþá. En ekki get jeg fallist á þau orð, sem hv. 2. þm. Rang. (KIJ) ljet falla nú, að frv. hefði verið svo mikið skemt við 2. umr., að þýðingarlaust væri að samþykkja það eins og það nú væri, því enginn mundi vilja virkja fossa, ef hann væri neyddur til þess að lúta skilyrðum frv. Jeg álít, að það sje þó rjett að halda frv. fram. Það er ekki rjett hjá hv. þm. (KIJ), að sjerleyfistíminn sje fastákveðinn 50 ár, því að það er tilskilið, að Alþingi segi til, hvort það vilji hafa tímann lengri, en vel getur verið, að Alþingi fallist á að veita sjerleyfi til 75 ára og jafnvel 100 ára. En um hitt er jeg samdóma hv. þm. (KIJ), að það sje óheppilegt að ganga svo frá þessum lögum, að ávalt þurfi að leita til Alþingis, því að það getur hleypt pólitík og æsingum í málin og getur því orðið til ógagns.

Þegar hv. Ed. á þinginu 1923 lengdi sjerleyfið upp í 75 ár, setti hún inn í frv. ákvæði um það, að ríkið hefði innlausnarrjett á orkuveri eftir 40 ár og að orkuver skyldi renna til ríkissjóðs endurgjaldslaust að sjerleyfistímanum loknum. Þetta var sett sem öryggisákvæði, en slík ákvæði eru lítilsvirði fyrir þjóðina eða minna virði, þegar sjerleyfistíminn er settur 50 ár; en samt virðist mjer nauðsynlegt, að frv. nái fram að ganga, því að jeg tel það afaróheppilegt að hafa engin lög um þetta efni, og einmitt af þeim umr., sem hjer fóru fram við 2. umr., býst jeg við, að allir hv. þdm. sjeu mjer samdóma um það, að afgreiða beri lög um þetta efni, jafnvel þótt þau verði strangari en margir hefðu óskað.