21.04.1925
Neðri deild: 61. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1703 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

30. mál, laun embættismanna

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Það er hvorttveggja, að jeg er ekki viss um, að jeg þurfi að halda sjerlega langa framsöguræðu fyrir hönd meiri hl. nefndarinnar, enda er það skemtilegra að þurfa ekki að búta hana í tvent, þótt svo áliðið sje fundartímans sem nú er.

Fjhn., sem hafði málið til meðferðar, hefir klofnað; en þó munu menn sjá, að í raun og veru er það ekki svo stórvægilegt, sem á milli ber. Ágreiningurinn var í raun og veru ekki um annað en það, hvort samþykkja ætti frv. stjórnarinnar eða halda dýrtíðaruppbótinni óbreyttri, eins og hv. minni hl. leggur til, og það skakkar sáralitlu, hvor kosturinn er tekinn. Nefndin ræddi málið á mörgum fundum, og það sýnir, hve lítið bar á milli, að það var í raun og veru samstarf í nefndinni fram til þess síðasta. Án þess að jeg vilji grípa fram fyrir hendur hv. frsm. minni hl., þá held jeg óhætt að segja, enda mun það sjást í nál. minni hl., að nefndarmenn voru í raun og veru allir sammála um hvorttveggja, að það væri ekki nema sanngjarnt, að laun ráðherra væru nokkuð bætt upp, og einnig bætt upp laun þeirra lægst launuðu. En menn voru ekki sammála um, hvort uppbót þeirra lægst launuðu ætti að vera lögákveðin dýrtíðaruppbót, eða taka skyldi frá vissa upphæð til uppbótarinnar, líkt og nú er gert við símastúlkur. Ágreiningurinn var því frekar um aðferðina heldur en um aðalatriðið sjálft.

Þegar þingið 1919 setti ákvæðin um dýrtíðaruppbót og tímabatt hana við árslok 1925, þá býst jeg við, að menn hafi gengið í þeirri sælu von, að þar sem stríðinu væri nú lokið, mundi stefna fjármálanna í veröldinni, og þá einnig á Íslandi, vera komin nokkurnveginn í rjett horf 1925; yrði þá ef til vill ekki lengur þörf á að bæta launin upp. Einnig hefir sjálfsagt meðfram vakað fyrir mönnum, að þessi uppbót, sem ákveðin var, hefði nokkra annmarka; væri því gott að geta endurskoðað fyrirkomulagið eftir hæfilegan tíma. Það hafa jafnvel heyrst raddir um að afnema dýrtíðaruppbótina nú á þessu þingi án þess að setja nokkuð í staðinn. En öllum nefndarmönnum kom saman um, að það gæti ekki komið til neinna mála að fella dýrtíðaruppbótina niður að fullu og öllu nú, að peningarnir væru komnir í svo gott gengi, verðlag komið svo niður, án þess að setja nokkuð í staðinn. Enda er þetta augljóst þegar á það er litið, að sú seinasta dýrtíðarvísitala, sem við höfum í Hagtíðindum, fyrir Reykjavík, sýnir dýrtíð í jan. 1925 um 200%.

Þegar svo er á það litið, að 1914, í stríðsbyrjun, kom öllum saman um, að embættislaun væru orðin óhæfilega lág, vegna þess að peningarnir höfðu, þótt hægt færi, rýrnar að verði um allmörg ár. Þegar aftur er litið á það, að launin 1919 hanga varla í laununum 1914, ef tillit er tekið til verðfalls gullsins, þá er alveg óhugsandi, að það sje fært að fella nú niður uppbót launanna, þegar krónan er ekki nema eitthvað yfir 60% af gulli ennþá. Það þarf ekkert að ræða um það, hvaða afleiðingar slík launakjör hefðu. Það, sem um er að ræða hjer, getur þess vegna ekki verið annað en það, hvort hægt sje að finna hentugri og þægilegri aðferð fyrir báða aðilja. Það er ekki hægt að segja, að þessi dýrtíðaruppbót, sem ákveðin var 1919, væri nein frumsmíð, því eins og öllum hv. þm. er kunnugt, var þingið þrívegis áður búið að glíma við þetta verkefni. Það voru reyndar fjórar aðferðir. Fyrst var það reynt með lögum frá 3. nóv. 1915; þá var tekin upp sú aðferð að skifta embættismönnum í tvo flokka eftir því, hvort þeir voru fjölskyldumenn eða ekki. Þeir fjölskyldumenn, sem höfðu undir 500 kr. laun, skyldu hafa 30% af laununum, 500–1000 kr. fengu 20% uppbót, 1000–1500 kr. 15%, 1500–2000 kr. 10%. Auk þess voru ákveðnar 10 kr., sem starfsmenn ríkisins skyldu fá fyrir hvert barn, sem þeir höfðu á sínu framfæri undir 16 ára aldri.

Einhleypir menn áttu að hafa talsvert lægra; þeir, sem fengu undir 500 kr. laun, 20%, 500–1000 kr. 10%, 1000–1500 kr. 5%. Svo var tiltekin upphæð til þess að bæta upp laun símamanna. Þeir, sem voru undir 1800 kr. launum, fengu 16%, og útbýtti ráðherra því eftir till. landssímastjóra.

Við þessi launakjör var búið í tvö ár. 1917 var tekin upp önnur aðferð, nokkru vísindalegri og ef til vill að einhverju leyti betri. Þar átti að borga af 1500 kr. launum eða minna 40%, af 2300 kr. eða minna 30%, af 3100 kr. eða minna 20%, af 3900 kr. eða minna 10%. Laun yfir 4700 kr. fyrir fjölskyldumenn voru ekki bætt upp, og laun yfir 2500 kr. voru ekki bætt upp fyrir einhleypa.

Þessu var strax breytt 1918. Þá var tekin upp ennþá flóknari aðferð, sem átti að ná til manna með ennþá meiri sanngirni, þar sem ákveðið var, að af fyrstu þúsund kr. eða minna yrði uppbótin 60%. Af því, sem þar er framyfir, upp í 2000 kr., fá þeir, sem hafa undir 4500 kr., 30%, en þeir, sem hafa frá 4500–4800 kr., fá uppbót af öðru þúsundinu þannig, að laun og uppbót verði 5400 kr. Einhleypir fá enga uppbót, ef þeir hafa 3000 kr. eða meira í laun, annars 2/3 uppbótar o. s. frv.

Það er vitaskuld ekki svo gott að fylgjast með tölum, fljótt upp lesnum, en jeg býst við, að sumum hv. þm. sje þetta svo kunnugt, að þeir hafi fylgst með. Að jeg minnist á þetta, er til þess að sýna fram á, að það var mjög fjarri, að menn rendu blint í sjóinn, er dýrtíðaruppbótin var ákveðin 1919, og var þess vegna sennilegt, að þeim gæti tekist vel, með alla þá reynslu, sem þeir höfðu að baki. 1919 var tekin upp sú aðferð að reikna verð ýmsra vörutegunda eins og þær voru seldar í smásölu í Reykjavík, og reikna frá því vísitölu, sem uppfærsla launanna var gerð eftir. Þegar um þetta var rætt í nefndinni, man jeg ekki eftir, að fram kæmi nein uppástunga um að haga dýrtíðaruppbótinni öðruvísi en gert hefir verið síðan 1919, nema nokkuð var minst á þá aðferð, sem stjórnin minnist á í aths. sínum við frv., sem sje að bæta upp launin eftir gengi íslensku krónunnar móti gulli. Nefndinni kom saman um, eftir að hafa athugað þetta atriði, að miklir erfiðleikar væru á þessu, eins og gengið er óstöðugt og búast má við að verði ennþá. Má benda á síðasta ár og nú til samanburðar. Gengið getur sveiflast á skömmum tíma, eins og sjá má af því, að það er ekki langt á milli, að bæta hefði átt upp laun með yfir 100%, þar til ekki hefði átt að bæta þau upp nema með 52%. Á þeim tíma hefir ekki orðið verulegur munur á vöruverðlagi í landinu, nema þá til hækkunar það sem það er. Það er vöruverðið, en ekki gengið, sem þá varðar um, sem á vörunum eiga að lifa. Þetta sýnir, hversu það er varhugavert að bæta upp launin þannig, nema gengið sje sæmilega fast, eða fundnar verði einhverjar þær aðferðir, sem mönnum eru ekki ljósar enn.

Einn örðugleiki á þessu yrði sá, að það yrði að miða dýrtíðaruppbótina við talsvert annan tíma en hún á að koma til útborgunar á, vegna þess, að enginn getur gert ráð fyrir, að breyting á gengi ísl. krónu geri strax vart við sig í breyttu verðlagi innanlands.

Annars liggur ekki fyrir till. um þetta, svo það er óþarfi að minnast á það frekar. En jeg skal segja það fyrir mig, að jeg býst ekki við, að fært verði að miða við gengi ísl. krónu fyr en það er orðið svo stöðugt, að verðlag, sem skapast undir því, hefir náð verulegri festu; og þá væri sennilega rjettara að hætta að tala um dýrtíðaruppbót, en sníða í þess stað launin sjálf eftir þessu nýja verðlagi.

Nefndin hefir því orðið öll sammála um að halda sama útreikningi um dýrtíðaruppbótina eins og áður hefir verið.

Í stjórnarfrv. er, eins og hv. þm. er kunnugt, farið fram á, að gerðar verði tvær breytingar frá því, sem verið hefir. Önnur fer fram á, að afnumið sje það krónuhámark, sem ákveðið er í launalögunum að laun og dýrtíðaruppbót megi nema samanlagt. Eins og kunnugt er, er annað hámark sett í lögunum, sem sje það, að það má ekki bæta upp nema ákveðna upphæð, 4500 kr., og það er í raun og veru nóg hámark til að takmarka, að launin fari upp úr öllu valdi. Svo er þessu hámarki bætt við kr. 9500. nema hæstarjettardómarar mega hafa 10500 kr. Því er nú komið svo, að þeir, sem gjalda þessa hámarks, og mundu njóta þess, ef því yrði kipt burt, eru örfáir embættismenn, eiginlega ekki nema einn einasti embættismaður í öllu ríkinu, háyfirdómarinn í hæstarjetti; það mundi muna hann liðlega 2 þús. kr. Svo koma líklega 6 embættismenn, sem mundu fá ofurlitla uppbót, verði hámarkinu kipt burt. Það er því ekki um svo marga embættismenn að ræða eða neina stórupphæð, svo framarlega sem gengið er út frá því, að dýrtíðarvísitalan 1926 verði 60%, en á þeirri áætlun eru bygðir allir útreikningar í fjárlagafrumvarpi fyrir það ár, og er vonandi, að ekki þurfi að óttast, að dýrtíðin verði meiri en sem því svarar, hvorki þá nje framvegis, þó að þar sje vitanlega margt, sem til greina kemur.

Því hafa ýmsir haldið fram, að þessir menn væru færastir um að bera skarðan hlut frá borði hvað dýrtíðaruppbót snertir, þar sem launin væru svo há. En sannleikurinn er sá, að þeir eru mjög grátt leiknir af ákvæðum launalaganna. Fyrst eru ekki bætt upp nema 4500 kr. af laununum. Þetta þýðir það, að t. d. háyfirdómarinn fær ekki hálfa dýrtíðaruppbót á við aðra embættismenn, þó að ekki sje svo þessi uppbót aftur skert með hámarksákvæðinu. En svo er það gert. Tökum t. d. dýrtíðaruppbót 60% og háyfirdómarann með 10 þús. kr. launum. Ef hámarkið er numið burt, fær hann 60% af 4500 kr., eða 2700 kr., og það er 27% af laununum. Hann fær með öðrum orðum 27% í dýrtíðaruppbót, þegar þeir lægra launuðu fá 60%. Þetta sýnist nóg refsing á hans háu laun svokölluðu. En með hámarksákvæðinu fær hann ekki nema 500 kr., eða 5%, og það getur ekki náð neinni átt, svo framarlega sem nokkurt vit er í launum hans sjálfum í samanburði við aðra, svo framarlega sem menn álíta ekki, að það eigi að launa öllum embættismönnum jafnt.

Meiri hluta þótti því ekki nema einskært sanngirnismál að fallast á þessa lagfæringu, sem stjórnin hefir borið fram, og er þó langt frá, að hæstu launin sjeu bætt upp eins og hin lægri launin. Og lækki dýrtíðaruppbótin, sem fastlega má búast við, minkar auðvitað sú upphæð, sem þetta kostar ríkið.

Þá er hitt atriðið, sem farið er fram á að breyta og nær eingöngu til þeirra manna, sem laun taka eftir öðrum lögum en launalögunum. En undir þetta ákvæði falla aðeins ráðherrarnir.

Í rauninni skildist mjer, að nefndin, nema þá kannske að einum manni undanteknum, áliti ekki ósanngjarnt, að ráðherrarnir fengju einhverjar dýrtíðarbætur, svo að þeir þyrftu ekki sjálfir að leggja fje úr eigin vasa til þess að standa straum af embættinu. Þingið 1923 áleit líka, að ráðherralaunin væru of lág, og ákvað þeim því 1500 kr. aukaþóknun. Er því ljóst, að enn er ástæða til að bæta þeim eitthvað upp, enda sjá allir, að laun þessara manna eru óhæfilega lág, þegar þau eru borin saman við laun þau, sem eldri og æðstu embættismenn þjóðarinnar höfðu á sínum tíma. T. d. hafði landshöfðinginn á sínum tíma um 12 þús. kr., og er það ekki sambærilegt, mundi svara til 40 þús. kr. nú. Og amtmaðurinn hafði um 5–6 þús. kr. hærri laun en ráðherrar nú, biskup landsins 7 þús. kr., eða nærri því helmingi hærri laun en ráðherrar nú. Og svona mætti lengur telja.

En ef við berum nú ráðherrana saman við aðra, sem nú eru í trúnaðarstöðum ríkisins, þá verður munurinn þó ennþá undarlegri. T. d. hefir forstjóri landsverslunarinnar 12 þús. kr. árslaun, forstjóri áfengisverslunarinnar 18 þús. kr., bankaeftirlitsmaðurinn 10 þús. kr. auk dýrtíðaruppbótar af allri upphæðinni, en uppbótin nemur nú 78%, og verða launin því á þessu ári 17800 kr., bankastjórar Landsbankans 15 þús. kr. auk dýrtíðaruppbótar af allri launaupphæðinni, þó ekki yfir 25 þús. kr. á ári, en það hafa þeir nú.

Þetta eru alt trúnaðarstöður, og jeg er ekki að segja, að menn þessir sjeu of hátt launaðir, þegar litið er til samkepninnar og borið saman við trúnaðarstöður einstakra fyrirtækja. Að vísu er jeg ekki öllum einkafyrirtækjum kunnugur, en þó veit jeg, að sumstaðar er goldið hærra þeim mönnum, sem aðaltrúnaðarstörfin hafa með höndum.

En hvað sem því líður, er það óhæfa mikil, að ráðherrarnir, sem eru þó æðstu embættismenn þjóðarinnar, sjeu svo illa launaðir, að þeir geti ekki dregið fram lífið, hvað þá að þeir sjeu ekki samkepnisfærir eða hafi langtum lægri laun en ýmsir þeir menn, sem undir þá eru settir. Það hafa ef til vill oftast ráðist í þessar stöður efnamenn, sem færir hafa verið til þess að greiða úr sínum vasa það, sem á vantaði, en það geta líka valist í ráðherrastöður fátækir menn, sem ekki eru færir um að greiða 3–4 þús. kr. á ári hverju til þess að sjá sjer og sínum borgið. Svo mætti einnig líta á það, að ráðherrastaðan er engin lífstíðarábúð, heldur miklu fremur völt atvinna.

Hjer er ekki heldur farið fram á neina stóruppbót, heldur aðeins venjulega uppbót af tæpum helmingi launanna, eða 4500 kr. Og ef hið háa Alþingi fellir þessa rjettarbót, þá á það ekki skilið að fá góða menn í ráðherrastöður, enda gæti það kostað landið svo mikið, ef ófærir menn veldust í starfið, að tjónið yrði óbætanlegt og ekki reiknað með neinum tölum.

En um þetta ætla jeg ekki að fara fleiri orðum, vænti hins, að hv. deild sjái sóma sinn í að samþykkja þetta.

Þó get jeg ekki komist hjá því að minnast lítils háttar á nýmæli okkar meirihlutamanna um aukauppbætur þeim til handa, sem lægst eru launaðir.

Frá þessum mönnum hafa þrásinnis komið umkvartanir og þeir beðið um einhverja uppbót, vegna þess að þeir gætu ekki dregið fram lífið af þessum lágu launum. Hefir þetta verið tekið til greina í einstaka tilfellum og dálitlar uppbætur veittar, en öllum fjöldanum hefir verið synjað, og þau rök færð fyrir því, að þetta yrði tekið til athugunar 1925, þegar dýrtíðaruppbótin yrði endurskoðuð. Getur því Alþingi ekki lengur skelt skolleyrunum við þessu og neitað. Ef veita á öllum uppbætur, virðist rjettara, að það standi í löggjöfinni um þetta efni, heldur en að ákveða einhverja upphæð, sem stjórnin svo úthlutar.

Annars er þetta svo vel skýrt á þskj. 184, sem jeg geri ráð fyrir að hv. þdm. hafi lesið, að jeg sleppi að fara nánar út í það.

Uppbót þessi nemur rúmum 40 þús. kr. samkvæmt till. okkar, en þar frá dragast rúmar 10 þús. kr., sem ætlaðar eru talsímameyjum sjerstaklega, svo þessi hækkun frá því sem nú er verður þá rúmar 29 þús. kr.

Þó hafa barnakennararnir ekki verið teknir með, af þeim ástæðum, sem nefndar eru í nál. Þeir hafa langt sumarfrí og geta hæglega aflað sjer með ýmiskonar vinnu þann tíma uppbótar, sem nema mundi 200 krónum, og margir eflaust meira. En væru barnakennarar teknir inn, mundi þessi hækkun uppbótarinnar nema fast að 27 þús. kr.

Fleira ætla jeg ekki um þetta að segja, en læt atkvæði ráða, hversu um það fer.

Þá er að lokum brtt. frá sjálfum mjer, um að sveitaprestar njóti sömu dýrtíðaruppbótar og aðrir embættismenn, er sömu laun taka úr ríkissjóði. Mjer finst það illa sæmandi fyrir hið háa Alþingi, sem þykist þó altaf vera að finna einhver ráð til þess að festa fólkið í sveitunum, að leggja sekt á þá einu embættismenn, sem tollað hafa í sveitunum. Það má að vísu segja, að afsakanlegt væri, þó að það kæmist inn í lögin í öndverðu að svifta sveitapresta 1/3 uppbótarinnar. Þá voru uppgripaár og miklar tekjur, sem prestar höfðu af búum sínum. En þetta hefir breyst, eins og allir vita. Nú um nokkur ár hefir sveitabúskapur ekki verið rekinn með neinum hagnaði, og því er ranglátt að svifta prestana þessum hluta dýrtíðaruppbótarinnar.

Það hefir líka sýnt sig, að prestar eru óðfúsir í kaupstaðina. Þar hafa þeir rólegri daga, en hærri tekjur, og oft eitthvað smávegis, t. d. kenslu, sem getur dálítið hjálpað þeim. Þess vegna endurtek jeg það, að það er lítt sæmandi að breyta svo við prestana, að þeir haldist ekki í sveitumun.

Þá eru tvær brtt. hjer, sem jeg sleppi að minnast á fyr en hv. flm. hafa talað fyrir þeim. Og læt jeg þar með máli mínu lokið að þessu sinni.