31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

1. mál, fjárlög 1926

Hákon Kristófersson:

Jeg á eina brtt. á þskj. 235, 23. lið, um styrk til að koma upp heimavist við barnaskólann í Króksfjarðarnesi, sem svari einum þriðja kostnaðar, eða alt að 3000 kr. Hefi jeg flutt þessa brtt. samkvæmt till. og tilmælum fræðslumálastjóra, sem hlutaðeigendur höfðu beðið um að taka málið að sjer gagnvart hæstv. stjórn og fjvn. En nú hefir hv. fjvn. ekki sjeð sjer fært að sinna málinu, og því er það nú komið í mínar hendur.

Samkv. kostnaðaráætlun, sem fræðslumálastjóri hefir látið gera, kostar væntanleg bygging ca. 9000 kr. Er það því í samræmi við aðrar viðlíka styrkveitingar hins háa Alþingis að undanförnu, að hjer er farið fram á einn þriðja kostnaðar, eða alt að 3000 kr. Verði því kostnaðurinn minni en áætlað er, — en það má gera ráð fyrir að svo verði, þar sem áætlunin er miðuð við verðlag í Reykjavík, — þá minkar ríkissjóðsstyrkurinn auðvitað hlutfallslega. Skólahús er þarna á staðnum, en kenslu hefir orðið að fella niður sökum skorts á heimavist, að því er fræðslumálastjóri skrifar í brjefi dagsettu 6. þ. m. Verður óhjákvæmilegt, að heimavist verði bygð þarna, því að ef börnin eiga að ganga að heiman frá sjer í skólann, þá er það þriggja tíma vegur frá sumum bæjunum, og geta allir sjeð, að ekki verður ætlast til, að börnin fari þá leið daglega. Hinsvegar er erfiðleikum bundið að koma þeim fyrir á nærliggjandi bæjum. Segir fræðslumálastjóri líka svo í þessu brjefi, sem jeg hefi við hendina, að ekki sje fyrirsjáanlegt, að kensla verði tekin upp þarna aftur nema heimavist komist upp.

Annars finn jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar; er enda efni till. þannig vaxið, að hv. þm. geta auðveldlega glöggvað sig á því sjálfir, og eins mun þeim ljúft að sjá, hve hjer er í hóf stilt um kröfurnar. — Þess skal getið, að hjerað þetta hefir áður fengið 600 kr. styrk úr ríkissjóði til skólahalds.

Jeg vil ekki verða til að tefja fyrir því, að þessari umr. fjárlagafrv. geti orðið lokið á þessum degi, og fer jeg því ekki neitt út í aðrar brtt. En mjer þykir ilt, að hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) skuli ekki vera hjer staddur. Jeg skildi ummæli hans við umr. um fyrri kafla fjárlagafrv. svo, að mjer væri best að koma ekki fram með brtt. Hafði jeg haldið, að það væri ekki siður að setja þm. takmörk um það. Jeg myndi ekki ámæla hv. þm. (ÁÁ), þó að hann greiddi atkv. móti minni brtt. Verður það að velta á sannfæringu hvers eins, hvernig þeir bregðast við í hverju máli. Og yfirleitt er það engin sönnun fyrir ágæti eða ómöguleik mála, hvort þau ná að ganga fram eða ekki.

Hvað snertir útreikning hv. þm. (ÁÁ) á því, hvað ræður mínar kostuðu ríkið, þá vil jeg ekki fara neitt út í það. Mun líkt farið þar um okkur báða, að hvor hefir sína skoðun á hinum í því efni.