09.03.1925
Neðri deild: 29. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1750 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

23. mál, atvinna við siglingar

Atvinnumálaráðherra (MG):

Frv. þetta er flutt af stjórninni í hv. Ed. og hefir því gengið gegnum hana. Eins og það var flutt af henni náði það einungis til stýrimanna á 12–30 rúmlesta bátum, en eftir meðferð hv. Ed. má segja, að það sje orðið alt annað. Hefir fyrst og fremst verið aukið við það nýrri 1. gr., um smáskipapróf. Áður var próf þetta háð í kaupstöðum landsins, en með lögum frá 1922 er svo ákveðið, að það skuli einungis háð hjer í Reykjavík. Út af þessari breytingu kom strax fram óánægja og jafnframt óskir um að breyta því í gamla horfið. Hefir sjútvn. því tekið þessar óskir til greina, því að oft getur verið erfitt fyrir hlutaðeigendur að komast til Reykjavíkur á þeim tíma, sem þeir helst þurfa að komast, auk þess sem það hefir altaf töluverðan kostnað í för með sjer.

Ástæðan fyrir breytingunni, sem gerð var 1922, var sú, að ekki þótti næg trygging fyrir því, að prófin væru jafnþung, ef þau færu fram á mörgum stöðum. Til þess að ráða bót á þessu hefir það ákvæði verið sett í frv., að forstöðumaður stýrimannaskólans í Reykjavík skuli tiltaka öll verkefnin. Þá hefir það ákvæði verið tekið upp í frv. þetta, að stjórninni skuli heimilt að veita þeim skipstjórum, er verið hafa skipstjórar á fiskiskipum 25–60 rúmlesta í full 6 ár, rjett til skipstjórnar á fiskiskipum alt að 150 rúmlesta stærð, ef þeir hafa áður kynt sig mjög vel sem skipstjórar, að dómi þar til hæfra manna.

umr. lokinni óska jeg málinu vísað til sjútvn.