26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

99. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Í þessu frv. er farið fram á það að lækka vörutoll á nokkrum nauðsynjavörum, sem mest eru notaðar við framleiðsluna í þessu landi, svo ætla má, að nemi 430 þús. kr. á ári. Jeg get ímyndað mjer, að ýmsum mundi finnast það ólíklegt, að jeg skuli ekki mæla á móti slíkri till., eftir því sem nú horfist á um afgreiðslu fjárlaga 1927 á þessu þingi. Að vísu er ekki sjeð fyrir um endanlega útkomu þeirra. En í meðferð þingsins hafa útgjöld ríkisins vaxið um yfir 600 þús. kr. til þessa, og má frekar búast við, að þau ennþá vaxi heldur en minki. En þegar jeg samt lýsi því nú yfir, að jeg yfirleitt er ekki mótfallinn þeirri tekjulækkun, sem hjer er farið fram á, þá er það af þeirri sjerstöku ástæðu, að jeg viðurkenni, að það sje sjerstök ástæða til þess að lækka gjöldin, sem hvíla á þeim vörum, sem nauðsynlegastar eru til rekstrar atvinnuveganna, og þá einkum sjávarútvegsins. Sá vörutollur, sem á þessum nauðsynjavörum hvílir, er óeðlilega hár, einkum hvað snertir kol, þegar miðað er við núverandi kolaverð. Það má vera, að hlutfallið milli tollsins og verðs kolanna hafi upphaflega verið viðunandi eins og þá stóð. Sem stendur á þessi atvinnuvegur örðugt uppdráttar, vegna mjög fallins verðs á afurðunum. Og svo má ekki gleyma því, að þessi atvinnuvegur ber mestan þunga af gengishækkun ísl. krónunnar. Það er því mjög eðlilegt, að gerð verði nokkur ljetting á skattalögunum vegna þessarar atvinnugreinar. Um hitt, hversu ríkissjóður muni þola þá tekjurýrnun, sem af breytingunni leiðir, verður enn ekki sagt. Það er svo skamt komið þessu ári, að ekki er enn hægt að gera sjer verulega grein fyrir því, hvernig afkoman muni verða. En þetta frv. snertir að því leyti afkomu ársins 1926, að það á að ganga í gildi 1. júlí þ. á. En jeg held nú samt, að eftir því sem næst verður komist, þá muni ríkissjóður þola að missa þessar tekjur á yfirstandandi ári. Hitt er annað mál, hvort árið 1927 leyfir það, en þess ber að gæta, að þing mun koma saman í febrúar l927 og starfa þá næstu mánuðina. Og ef það kemur þá í ljós, að ríkissjóður megi ekki missa þessar tekjur 1927, þá er það á valdi þess þings að bæta úr því með tekjuauka. Jeg tel því, að eftir ástæðum sje það rjettmætt að veita svipaða lækkun á vörutolli sem hjer er farið fram á, enda þótt það kunni að kosta það að leggja á nýjar álögur handa ríkissjóði á næsta ári. Því ekki mun stoða að vega aftur í hinn sama knjerunn, heldur auka álögurnar á öðrum ónauðsynlegri vörutegundum, eða þar sem minna mein er að fyrir þjóðfjelagið. Með þessu fororði get jeg fallist á frv. En engum má það á óvart koma, þó fram komi á næsta þingi till. um að bæta ríkissjóði á einhvern hátt þennan tekjumissi, svo framarlega sem þá verður sýnilegt, að hann megi ekki við honum á árinu 1927.

Um einstök atriði frv. og kornvörutollinn mun jeg geyma að tala þangað til við 2. umr.