11.05.1926
Efri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1485 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

99. mál, vörutollur

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Það var a. m. k. villandi, sem hv. þm. Vestm. (JJós) sagði um tilorðningu þessa frv., er hann sagði, að það væri eins mikið að þakka andstæðingum stjórnarinnar eins og fylgismönnum hennar. Þetta er rang, og það sjest á þskj. 434, að tveir úr hv. fjhn. Nd., báðir stjórnarandstæðingar, voru á móti tveim verulegum liðum frv., og endirinn varð sá, að þeir greiddu báðir atkv. móti frv. út úr deildinni. Það voru ennfremur þeir, sem komu fram með till. um lækkun á tolli á korni, til þess að vega á móti alt of einhliða afgreiðslu frv., svo sem stjórnarflokkurinn ætlaði. Hv. þm. (JJós) flaskar á því, að svo er kallað, að hv. fjhn. hafi borið málið fram. En sannleikurinn er sá, að það var borið fram í Nd. með kappi af flokksbræðrum hv. þm. (JJós) og á ýmsan hátt reynt að leita samkomulags við þá, sem voru mótfallnir því, að málið yrði afareitt jafnhliða og til var stofnað, meðal annars með því að fallast á lækkunina á korntollinum, sem bætt var inn í frv. í deildinni. Það er því alveg augjóst, að þetta frv. er flokksfrv., og flokkstefna, sem kemur fram í því, og er ekkert við því að segja. En það er ekki karlmannlegt að játa það ekki hreinskilnislega, að þetta frv. er borið fram af eiginhagsmunahvöt, sem auðvitað er er ekkert undarlegt, þar sem íhaldsflokkur á í hlut. Jeg vísa um þetta í grein eftir þann heimspeking, sem fyrst hefir orðað skýrt og greinilega aðaluppistöðuna í stjórnmálastarfi íhaldsins, og jeg býst við því, að hann sje svo stefnufastur, að hann fari ekki að afneita kenningum sínum um þetta, þó nú sje hann sjálfur formaður Íhaldsflokksins.

Hv. þm. Vestm. gat þess, að það þætti nokkuð lang gengið með afnámi korntollsins. Má vera, að hann hafi þar átt við aðra flokksmenn sína og hann reikni sig þar ekki með. En fram hjá því er ekki hægt að komast, að það er dálítil óánægja í Íhaldsflokknum yfir þessari breytingu, enda er hún frá stjórnarandstæðingum runnin.

Hv. þm. (JJós) gerði mikið úr því, að lækkunin á kolatollinum kæmi öllum almenningi til góða, sem kol brúkar. En nú vil jeg spyrja háttv. þm., — mundi hann og flokkarnir hans leggja svo mikla áherslu á þetta atriði, ef togararnir hjer brúkuðu í steinolíu í stað kola? Jeg held, að kolin mundu ekki verða undanþegin tolli vegna þess, að þau eru notuð við matseld á heimilunum. Þau eru tekin hjer vegna þess, að þau eru stór liður í útgerð togaraflotans. En það sýnir karlmensku og hreinskilni þeirra, sem að málinu standa, að þeir skuli vera að skjóta húsakolunum fram fyrir sig, enda þótt frv. beri það ljóslega með sjer, að það er fram borið vegna útgerðarmanna. Yfirleitt er hjer flestu skotið undan tolli, sem einkum heyrir útgerðinni til, nema veiðarfærum; jafnvel gjörðum og tunnubotnum er ekki gleymt, hvað þá öðru. Um síldartunnutollinn varð allmikil senna í hv. Nd. og kom það þar nokkuð greinilega í ljós, að hagsmunir síldarmanna eru allmjög tengdir við einn flokk, sem allir munu fara nærri um, hver er. Tollhækkunin nemur 100 þús. kr. á þeim lið einum. Nú er það vitanlegt, að meiri hl. fjhn. Nd. samþ. frv., að undanteknum einum manni, sem greiddi atkv. á móti frv. bæði af því að hann var mótfallinn svona einhliða tolllækkun og ennfremur vegna þess, að þó hann væri í andstöðuflokki stjórnarinnar, þá áleit hann samt ekki forsvaranlegt að rýja ríkissjóð um hálfa miljón kr. Og satt að segja, þá er það í meira lagi undarlegt, að hæstv. fjrh. skyldi geta gengið inn á slíkt, því það hlýtur að koma honum í koll, ef hann verður fjrh. áfram, þar sem hann gengur nú manna frekast að því að koma þessu í gegn nú. Og í fyrra var það hann, sem barðist mest fyrir því að koma í gegn hinni miklu lækkun á tekjuskatti togarafjelaganna. Hann hefir því sannarlega sýnt hlutdrægni í vil stórútgerðinni, bæði nú og þá.

Hv. þm. Vestm. vildi álíta, að jeg væri að gera þetta mál frá minni hálfu að ófriðarefni milli stjetta. En jeg vil spyrja, — ef ein stjett þykist hafa rjett til þess að losa sig við gjöld í ríkissjóð, meðan þung gjöld hvíla á öðrum, er þá nokkur ástæða til að kvarta, þótt bent sje á það, að hjer sjeu menn að svíkjast undan rjettmætum skyldum? Menn eru hjer að koma upp með þá lífsskoðun, að þegar þeir svíkja sjálfir, þá sje það alveg rjett og saklaust, en svo megi ekki einu sinni ympra á því, hvað sje að gerast. Í líkingu við það ættu þeir, sem svíkja landið, að vera góðir, en hinir stórsekir, sem dirfast að benda á það. — Nei, ef þetta frv. hjer ásamt tekjuskattfrv. fræga verður til þess að kæla á milli stjetta, þá á sá að bera ábyrgð á því, sem upptökin á. Jeg hefi engan hlut að þessu átt, nema hvað jeg hefi haft ástæðu til að láta í ljós álit mitt um undanþágupólitík stjórnarinnar hjer í þinginu.

Jeg var stundum viðstaddur umr. um fjárlögin í hv. Nd. og tók þá eftir því, að hæstv. fjrh. greiddi atkvæði móti hjer um bil öllum hækkunartill. Það má vera, að hann hafi skoðað það sem einskonar embættisskyldu. En nú ætti að mega líta svo á að það væri ekki síður embættisskylda að gæta þess, að ekki verði kastað tekjum burt úr ríkissjóði og þar með spilt afkomu hans. Slíkt hlýtur að gera hæpna aðstöðuna gagnvart andófsflokknum, sem eins og kunnugt er hefir lagt fram sína hjálp til þess að útvega ýmsa tekjustofna til viðreisnar fjárhag ríkisins. Það er því í sannleika sagt mjög hart gagnvart þeim, sem hafa hjálpað stjórninni til þess að hægt væri að losa ríkið við hinar mjög aðþrengjandi skuldir, að þá skuli hún, þegar því er lokið, tína út úr ýmsa gjaldþegna landsins og ljetta af þeim gjöldunum, meðan hinir fá enga linkind. Í fyrra bar þessi hv. deild gæfu til þess að bjarga miklum tekjum fyrir ríkið. En jeg býst við, að það takist ekki nú. Hv. stjórnarflokksmenn þessarar deildar þykjast víst þurfa að koma með einhverja fjöður í hattinum á fund kjósenda sinna, eða a. m. k. til þeirra, sem leggja í blöð íhaldsmanna, enda ekki vanþörf, því að það lítur sannarlega ekki út fyrir, að sjerlegur ljómi verði yfir þessu fyrsta þingi, sem háð er afdráttarlaust á ábyrgð stjórnarflokksins, sem hefir því að rjettu veg og vanda af öllum vinnubrögðunum. Nú vil jeg spyrja hæstv. fjrh., hvort honum finnist ekki heldur skaplegri aðferð, ef lækka á skatta á annað borð, að gera það þannig, að það kæmi rjettlátlega niður. T. d. yrði sykurtollurinn lækkaður, eða verðtollurinn lækkaður nokkru meira en gert hefir verið, t. d. á fataefnum, sem flest heimili kaupa.

Hæstv. fjrh. sagði, að það yrði að sýna nokkra línkind þeim, sem þessi skattur hvílir mest á, en það eru atvinnurekendur. Hjer hefir nú hæstv. stjórn og flokkur hennar greitt atkvæði á móti því, að bygt yrði strandferðaskip, sem ekki mundi kosta meira en svarar þessum skatti á einu ári. og þetta skip mundi geta hjálpað framleiðslunni miklu meira en svarar því, sem skattgjöfin ljettir á. Til þess að gefa mönnum ofurlitla hugmynd um þetta, skal jeg nefna dæmi. Nú er íshús á Hvammstanga, sem stendur autt alt sumarið. Ágætar laxár eru báðummegin við Hvammstanga. Allan þennan lax, um 30 tonn, mætti setja í þetta frystihús, ef skipið væri til þess að koma honum áleiðis á markað. En hæstv. fjrh. hefir barist móti því með hnúum og hnefum ásamt sínum flokksmönnum. Er þetta að vera með framleiðslunni og bera hennar heill fyrir brjósti?

Það voru í raun og veru allar hafnir frá Djúpavogi að Borgarnesi, norðan um land, sem hefðu meira eða minna gott af því að fá þetta skip, og aðeins eitt einasta ár hefði þessi tollur þurft að standa til að borga stofnkostnað þess. Jeg álít, að eins og þetta mál er fram komið og eins og það er flutt og greidd atkv. um það, hafi ekki annað að þýða en að þeir menn, sem eru á móti því, sýni, að þeir viti það, sem allir menn þykjast vita, að stjórnin er hjer að stinga þessum tolli í vasa sinna manna, en það er að minsta kosti ekki hægt fyrir háttv. þm. Vestm. að koma neinu af skömminni yfir á stjórnarandstæðingana hjer í deildinni.