08.03.1926
Neðri deild: 25. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

56. mál, vélgæsla á gufuskipum

Frsm. (Sigurjón Jónsson):

Eins og getið er um í greinargerð fyrir þessu frv., þá er það flutt af sjútvn. eftir tilmælum hæstv. atvrh. (MG). En ástæðan fyrir því, að frv. er fram komið, er sú, að okkur vantar tilfinnanlega menn, sem fullnægja skilyrðum til þess að geta orðið vjelstjórar samkv. lögum frá 1915. Í þeim lögum er stjórninni gert heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum laganna. Vissum skilyrðum verður auðvitað að fullnægja, en stjórnin getur veitt undanþágu undan sumum og gefið bráðabirgðaskírteini til eins árs í senn. En þessi heimild var tímatakmörkuð og er nú útrunnin, að nokkru fyrir 4–5 árum, en að fullu 1925.

Árið 1915 er það auðsjáanlegt, að þingið hefir ætlast til þess, að þegar komið væri fram á árið 1925, myndi vera nóg af vjelstjórum til í landinu. Þess vegna voru lögin þannig útbúin, að heimildin gilti ekki lengur. En raunin er önnur, því að það vantar líklega nú sem stendur um 1/3 þeirra vjelstjóra, sem við þurfum að nota fyrir flotann, ef við ættum að fylgja strangt fram þeim skilyrðum fyrir vjelstjóraskírteinum og rjettindum vjelstjóra.

Mjer hefir talist svo til, að það væru til unt 80 gufuskip hjer á landi. Að vísu munu þau ekki vera öll í gangi, en þegar þau eru sem flest í gangi, þá verðum við annaðhvort að fá menn að, sem svipaða kunnáttu hafa og okkar vjelstjórar, eða veita okkar mönnum, sem til þessa starfs virðast hæfir, undanþágu. Eftir því, sem vjelstjórar hafa sagt mjer, þá eru það tiltölulega fá skip af fiskiflotanum, sem ekki hafa menn innanborðs með einhverja undanþágu. Þetta eru auðvitað ástæðurnar til þess, að hæstv. atvrh. hefir farið fram á, að ráðuneytinu sje áfram veitt heimild að veita mönnum undanþágu frá lögunum frá 1915. Fjölgun vjelstjóra hjá okkur nú um nokkur ár er alls ekki svo lítil. Árlega hafa bæst við í hópinn 8–10 manna. En flotinn okkar hefir aukist örar en sem því svarar, svo að það virðist altaf meiri og meiri hörgull á vjelstjórum.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið að þessu sinni, og sje ekki heldur ástæðu til, að málinu verði vísað í nefnd. En jeg mun biðja sjútvn. að athuga þetta mál til 2. umr., því að jeg er hræddur um, að undanþágurnar sjeu ekki nógu víðtækar, þurfi að vera víðtækari vegna þess, að vjelarnar í togurunum eru stærri nú síðusu árin.

Jeg leyfi mjer svo að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr.