10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

1. mál, fjárlög 1927

Björn Líndal:

Hv. frsm. fyrri kaflans (ÞórJ) gaf það í skyn við umr., að jeg mætti tala varlega um mikla eyðslusemi, þar sem jeg hefði sjálfur átt þátt í því að koma hjer inn með stórfeldan útgjaldaauka. Þessu vil jeg svara með því, að það má varla með rjettu kallast eyðsla, þótt fje sje varið til heilsuhælis Norðurlands. Þau útgjöld munu fljótt borga sig með betri heilsu og minni missi ungra og efnilegra manna. Og ennfremur er ekki rjett að telja þá fjárveitingu gerða sjerstaklega fyrir mitt kjördæmi. Heilsuhælið nyrðra er ekki fremur reist fyrir Akureyri en Vífilsstaðahælið fyrir Reykjavík. Það er reist fyrst og fremst fyrir alt Norðurland, en jafnframt einnig fyrir Suðurland að því leyti, sem það dregur úr aðsókninni þangað og gerir Sunnlendingum greiðara að fá þar vist og aðhlynningu.

Jeg á hjer 3 brtt. Ein er um lánsheimild úr viðlagasjóði. Af hinum er aðeins önnur fyrir mitt kjördæmi. Hin snertir alt landið. Fyrsta brtt. mín er á þskj. 297,41, um 1000 kr. fjárveitingu til Leikfjelags Akureyrar. Þetta leikfjelag er nú 10 ára gamalt, og þótt ekki sje það eldra, þá hefir það á þessum tíma færst furðumikið í fang, leikið bæði innlend og útlend leikrit, og að dómi manna, sem vit hafa á, hefir fjelagið leyst þetta ágætlega. af hendi, enda hefir það notið ágætra hæfileika a. m. k. þriggja leikenda. Jeg skal til fróðleiks nefna hjer nokkur leikrit, sem fjelagið hefir sýnt á þessum tíma. Af innlendum leikritum má nefna Fjalla-Eyvind, eftir Jóhann Sigurjónsson, Vjer morðingjar, eftir Guðmund Kamban, Ljenharð fógeta, eftir Einar Hjörleifsson, Dóma, eftir Andrjes G. Þormar. Af útlendum leikritum skal jeg nefna Kinnarhvolssystur, eftir C. Hauch, Tengdapabba, eftir Gejerstam, og Heimkomuna, eftir Sudermann. Alt eru þetta erfið leikrit og hafa mikið menningargildi í sjer fólgið. En þó leikfjelagið sje ekki eldra en það er, þá má í raun og veru skoða það sem áframhald af gömlum leikfjelagsskap, sem þrifist hefir á Akureyri marga áratugi. Enda hefir leiklistin náð þarna meiri þroska en von er til í þessum litla bæ. Og ef þessi fjárveiting fæst, svo fjelagið geti betur beitt sjer en áður, þá má ætla, að það hafi þýðingu ekki eingöngu fyrir Akureyri, heldur fyrir nærliggjandi sveitir, sem þangað geta sótt, — jafnvel fyrir Siglufjörð. Það er lítil upphæð, sem hjer er um að ræða, enda gert ráð fyrir því, að önnur upphæð jafnhá komi frá bæjarsjóði eða einstökum mönnum. Þegar Leikfjelag Reykjavíknr fær 4–6 þús. kr., þá vænti jeg, að hv. þingdeild þyki ekki rjett að neita um jafnlítinn styrk.

Hin brtt. mín var hjer einnig til 2. umræðu fjárl., en þá var farið fram á nokkru hærri upphæð. Hv. þdm. virtist þykja fullmikið að veita Kvenrjettindafjelaginu 1000 kr. En vonandi virðist þeim 800 kr. ekki óhæfilegt. Eins og kunnugt er, var slíkur styrkur veittur 1923 til landsfundar, er Kvenrjettindafjelagið hjelt hjer í Reykjavík. Og jeg skil ekki, að sanngjarnt geti verið eða rjett að neita konum á Akureyri um samskonar styrk og stallsystur þeirra í Reykjavík hafa fengið áður í sama augnamiði.

Þá kem jeg að síðustu brtt. minni, um lán úr viðlagasjóði til hafnarbóta á Akureyri. Það liggur fyrir áætlun um miklar hafnarbætur á Akureyri, sem hafa verið áætlaðar að kosta ca. 300 þús. kr. Mjer er engin launung á því, að mjer var falið að reyna að útvega 50 þús. kr. styrk til þessa verks úr ríkissjóði. Og það er mjer full alvara, að Akureyri hafi ekki síður siðferðilegan rjett til slíks styrks en aðrir kaupstaðir. Jeg skal nefna Ísafjörð. Hjer á Alþingi hefir verið samþykt heimild árið 1922 til þess að veita alt að 150 þús. kr. til hafnarbóta þar. Það virðist því ekki ósanngjarnt, þó Akureyri fengi 50 þús. kr. En nú blæs ekki svo byrlega fyrir sæmilega gætilegum fjárlögum, að á sje bætandi. Því hefi jeg, þvert ofan í vilja kjósenda minna, ekki farið fram á þetta. Jeg vænti því þess, að hv. þdm. verði með þessari sanngjörnu till. um lán.

Jeg hefi látið mig litlu skifta brtt. fjvn. og einstakra þm. og mundi ekki hafa haft orð á þeim, ef ekki hefði verið ein brtt., sem mjer kemur æðikynlega fyrir sjónir, og það því fremur, sem háttv. frsm. (TrÞ) hefir mælt eindregið fram með henni. Hún er þess efnis að flytja íþróttakennara nokkurn norður í Þingeyjarsýslu og borga honum 6 þús. kr. fyrir að kenna þar íþróttir. Nú er það fyrst og fremst um þetta að segja, að þó íþróttir sjeu gagnlegar, þá á það einkum við í kaupstöðum, þar sem menn hafa kyrsetur miklar og reyna lítið á líkama sinn. En slíkt á ekki við um sveitamenn, og allra síst Þingeyinga. Þeir reyna á sig allan ársins hring manna mest og hafa því litla þörf á því að stæla líkama sinn með íþróttum. Og ef þessi maður á að kenna þær íþróttir, sem sveitamenn verða sífelt að nota, t. d. skíðaferðir, þá er hægt að læra slíkt á ódýrari hátt, og ekki einungis í Þingeyjarsýslu, heldur í öllum sveitum landsins, nema ef til vill Vestmannaeyjum. Jeg skil því ekki, að menn fari að fara langar leiðir í skóla í þeim erindum að nema slíkt.

Jeg mundi nú samt hafa látið það vera að minnast á þetta, þrátt fyrir alt, ef ekki hefði því skotið upp hjá hv. frsm. (TrÞ), að þessi íþróttaskóli ætti að starfa í sambandi við Laugaskóla. Og það gefur mjer ástæðu til að minnast dálítið á þann skóla, og þá einkum fjármál hans. Það er þá skemst á það að minnast, að í fjárl. 1924 veitti þingið til byggingar þessum skóla alt að 35 þús. kr., gegn 3/5 kostnaðar annarsstaðar frá. Þetta fje var greitt úr ríkissjóði. En jeg fullyrði, að annarsstaðar frá hafi ekki komið meira fje en ca. 27 þús. kr., og er þó sú upphæð ekki að fullu borguð. En hefði hjer verið fullnægt settum skilyrðum, þá áttu að koma móti styrk ríkisins 52500 kr. í beinum framlögum. Jeg kalla, að skilyrðum hafi ekki verið fullnægt, þó að lán hafi verið tekið til byggingarinnar. En nú var einmitt þannig að farið, enda stendur skólinn nú í 27 þús. kr. skuld, eða þó líklega nokkru meira, og þess var nýlega krafist af sýslusjóði, að hann ábyrgðist þetta lán. Nú stendur sýslan í ábyrgð fyrir skólann á þessum 27 þús. kr. og bak við sýsluna standa svo 20 ábyrgðarmenn. En þeir ábyrgjast ekki lengur en næstu 15 ár, að sýslan verði ekki fyrir halla af láni þessu, svo að hún kemur að vísu ekki til með að greiða vexti nje afborganir af því fyr en sá tími er liðinn og þeir lausir úr ábyrgðinni, sem bak við standa. En svo er annað atriði, sem jeg vildi vekja athygli hæstv. landsstjórnar á, að það veit enginn, hver á þennan skóla. Jeg get nefnt sem dæmi þessu til sönnunar, að sumir hafa talið, að sýslubúar ættu skólann, eða sýslusjóður. Samband þingeyskra ungmennafjelaga hefir talið sig eiga hann og líka talað um það að afhenda skólann sýslunni, og auk heldur gert það, án þess þó, að við honum væri tekið á formlegan hátt. Mjer þætti gott, ef einhver vildi fræða stjórnina og mig á því, hver á þennan skóla, því þegar menn standa í margföldum ábyrgðum, þá vilja menn gjarnan vita, fyrir hverja menn ábyrgjast. Hv. frsm. (TrÞ) gat þess, að þessi leikfimiskennari vildi skuldbinda sig til þess að koma upp leikfimishúsi án styrks úr ríkissjóði. Sú skuldbinding er auðvitað góðra gjalda verð, og jeg efast ekki um það, að maðurinn standi við þetta, ef hann getur. En ekki er alt fengið, þó að hann geri þetta án framlags úr ríkissjóði. Jeg tel sveitar- og sýslusjóði Þingeyjarsýslu koma hjer meir við en svo, að mjer standi á sama, hvað háa víxla menn draga á þá. Mjer finst því engin ástæða til þess, að menn sjeu mjög ginkeyptir fyrir slíku loforði sem þessu, svo þeir tapi dómgreind sinni af tómri þakklátssemi. Hvaðan á þessum íþróttaskóla að koma rekstrarfje? Jeg þykist mega fullyrða, að það verði fyrst og fremst heimtað úr sýslusjóði Suður-Þingeyjarsýslu og ríkissjóði. Vil jeg brýna fyrir hæstv. stjórn, að hún gæti þess betur eftirleiðis, hver eigi og beri ábyrgð á slíkum stofnunum sem þessari, er jeg nú hefi minst á. Og eins hitt, að þess sje gætt, að lagt sje fram eins og tilskilið er, þegar ríkið veitir styrk til stofnana að einhverjum ákveðnum hluta, gegn framlagi frá öðrum.