20.03.1926
Efri deild: 33. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1583 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Frsm. (Eggert Pálsson):

Mjer finst, að frv. sje í raun og veru og í heild frv. til heimildarlaga, frekar en hitt. Því að enda þótt svo standi í 1. gr., að öllum sje bannað að flytja inn það, sem þar er talið, þá er þó strax svo að orði komist, að atvinnumálaráðherra veiti eða geti veitt undanþágur með ráði dýralæknis. Og það er þannig opinn vegur til þess að fá undanþágu um innflutning á þeim dýrum, sem þar eru nefnd, þegar engin sýkingarhætta getur stafað af innflutningi þeirra. En þegar á að dæma um, hvort slíkri sýkingarhættu sje til að dreifa, þá er ekki í annað hús að venda en að leita upplýsinga hjá dýralækni. Og við megum telja okkur hepna að eiga kost slíkra upplýsinga eða hafa tök á þeim manni, er þær geti gefið, því að ef hann væri ekki, þá gæti það komið fyrir, sem áður hefir skeð, að hingað berist næmir alidýrasjúkdómar, sem gert geti mesta óskunda.

Það er sjerstaka mál, er hv. 2. þm. S.-M. (IP) talaði um, um innflutning hreindýra. Jeg get sagt fyrir mig, að jeg hefi ekki sjeð umsókn þess efnis, en heyrt hefi jeg talað um hana. Þetta atriði kom líka til tals í landbn., er dýralæknir var á fundi með okkur. Dýralæknir leit svo á, að ef vilt hreindýr flyttust hingað og tímguðust, þá gæti það orðið til þess, að þau fáu dýr, sem hjer hafa lifað öll þessi ár við harðindi og erfiðleika, mistu þrótt og þol og yrðu veikbygðari við það að blandast þeim dýrum, er átt hafa að búa við miklu mildari kjör og meiri lífsþægindi. Afleiðingin yrði sú að afkvæmin mundu hrynja niður. Þetta kæmi vitanlega ekki til greina, ef hægt væri að hafa hin innfluttu hreindýr algerlega út af fyrir sig. En hvort það er hægt eða ekki, veit jeg ekki og skal ekki um segja. En það dylst ekki mjer frekar en öðrum, að ýmislegir sjúkdómar gætu og flust inn með dýrum þessum, eigi síður en öðrum spendýrum. Og ef svo tækist til, kynni það að verða ærið hættulegt dýrum okkar. Væri þá lítill fengur að þessum innflutningi, ef slíkt kynni að verða oss til ómetanlega tjóns á húsdýrum eða alidýrum þeim, sem fyrir eru. Verð jeg því að halda mjer við það, sem nefndin er einhuga um, að ráða hv. deild til að samþykkja frv., vitanlega með þessum tveim smávægilegu brtt., sem nefndin hefir gert á því.