15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1594 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Sigurjón Jónsson:

Jeg vil taka undir það sama, sem raunar fleiri hafa drepið á, að með brtt. þeirri, sem fyrir liggur, er verið að blanda saman algerlega óskyldum málum. Hjer á að koma á banni á vörn í alt öðrum tilgangi en liggur fyrir í frv. Að vísu er þetta gamall kunningi hjer í hv. deild: það stakk upp höfði hjer í fyrra, en var þá kveðið niður. Nú hafa sömu höfundar vakið það upp að nýju ennþá magnaðra en áður, og ætlast víst til, að þessi skýrsla um rannsókn um notagildi á heyi eigi að vera rothögg á þá mótstöðu, sem þessu máli var veitt þá. Jeg skal játa það, að það; er gott að fá slíka skýrslu, en vona þá jafnframt fastlega, að hún verði gerð sem flestum kunn, svo af rannsókninni megi leiða það, að mönnum lærist að nota innlendu vöruna, en hætti að kaupa þá útlendu, þegar sýnt er, að hún er bæði dýrari og verri.

En jeg vil minna á það, að þegar hv. flm. fluttu þetta mál á síðasta þingi, þá lá engin skýrsla fyrir frá þeim um þetta efni, og gat því ekki till. þeirra bygst á hagsmunum þeirra þorpsbúa, sem kaupa verða útlent hey til bjargar skepnum sínum.

En undir það skal jeg taka með háttv. þm. Str., að það er ólag mikið á búnaðarháttum okkar að þurfa að flytja inn hey, enda ætti að vera hægt að koma í veg fyrir það, því að bændur eru vel samkepnisfærir. Jeg verð líka að segja, að bændum sje það lífsspursmál að verða það samkepnisfærir; að þeir geti ekki aðeins selt ódýrara hey, heldur líka betra hey heldur en það, sem flutt er inn í landið. Það liti heldur ekki vel út um afkomu landbúnaðarins, ef við gætum ekki í flestum árum selt hjer hey við lægra verði en kostaði að flytja það inn.

Jeg vil líka benda á orðalag brtt., eins og hæstv. atvrh. drap lítillega á: „ef veruleg hætta er á ferðum, þá má leyfa innflutning á heyi.“ Það er kaldranalega orðað þetta. Það er ekki nóg, að sá skortur sje á heyi, að ekki sje hægt að halda fje í holdum, heldur þarf líklega að vera horfellir fyrir dyrum.

Annars efast jeg ekki um, að brtt. sje fram borin í góðri meiningu og af velvilja og umhyggju fyrir þeim, sem framleiða heyið. En það er ekki leiðin að blanda saman tveimur óskyldum málum, og heldur ekki að setja algert bann við innflutningi á heyi, heldur er hitt leiðin, að framleiða betra hey í landinu og selja það ódýrara verði. Þá hverfur útlenda heyið af markaðinum og við búum að okkar eigin, eins og á að vera.