15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1602 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Tryggvi Þórhallsson:

Háttv. þm. Borgf. (PO) hefir nú talað svo rækilega, að jeg þarf ekki miklu við að bæta. En þar sem þrír hv. þm. hafa talað á móti málinu, og góð vísa er aldrei of oft kveðin, vil jeg segja fáein orð.

Vil jeg þá fyrst víkja að mótmælum hæstv. atvrh. (MG). Hann lagðist ekki þunglega á móti málinu, en hjelt því aðallega fram, að hjer væri saman blandað tveim óskyldum atriðum. Þetta er rjett, ef aðeins er litið á formið. En hjer er þó aðeins um það að ræða, að bæta við lögin annari grein, hliðstæðri þeirri fyrstu. Og jeg fæ ekki sjeð, hvers vegna ekki má taka tillit til fleira en þess eins um þessa lagasetningu, hver sje mest hættan á, að sjúkdómar berist til landsins. Ef hæstv. atvrh. ætlaði t. d. að skreppa til Þingvalla að skoða þá, hví skyldi hann þá ekki mega litast um á Mosfellsheiði á leiðinni? Þetta formsatriði er því ósköp veigalítið. Hæstv. atvrh. sagði, að rannsóknin ætti að leiða til þess, að ef íslenskt hey reyndist hlutfallslega ódýrara, þá mundu menn heldur nota það. En það er útlitið á norska heyinu, sem blekkir menn. Það er fallegt og vel þurkað, og auk þess er það, eins og hv. þm. Borgf. sagði, að hugsunarháttur manna virðist vera alveg rangsnúinn. Auk þeirra dæma, er hann nefndi, skal jeg geta þess, að framkvæmdarstjórar S. Í. S. geta nú boðið mönnum ágætt hólmahey úr Skagafirði og Eyjafirði við vægara verði en hið norska, en menn vilja þó síður kaupa það! Jeg verð að segja um hæstv. atvrh., að hann virðis fara að hinu fræga dæmi: Mundus vult decipi, — ergo decipiatur. Jeg vil ekki breyta eftir þessu og álít, að oft sje rjett að hafa vit fyrir fólki. Hæstv. ráðh. nefndi Vestmannaeyjar. Jeg vil leyfa mjer að minna hann á það, að nú á að fara að rækta þær fyrir alvöru. Þessi hv. deild er þegar búin fyrir sitt leyti að samþykkja þó nokkra fjárhæð til að gera veg um Heimaey, en það er undirstaðan undir að hægt verði að rækta hana. Það er þetta, sem á að gera og jeg ljæ öruggur fylgi mitt til að gert verði. Það á að auka hina innlendu framleiðslu og ræktun landsins.

Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) rjeðst allþunglega á brtt. okkar hv. þm. Borgf. Hann sagði ósköp blíður og brosandi, að það væri varla umhyggjan fyrir kaupstaðarbúum, sem hefði fengið okkur til þess að bera fram þessa tillögu, heldur einhverjar hvatir aðrar. — Það er nú auðvitað rjett, að hver er sjálfum sjer næstur. En jeg veit ekki til, að hjer í hv. deild sje nema einn þm. búsettur í Reykjavík, sem á kýr, og hefir því aðstöðu til að geta þurft að kaupa hey. Og þessi þm. er sá hv. herra, þm. Str. (TrÞ). (Atvrh. MG: En hann á líka tún). Hann hefir aldrei selt hey, svo að ekki þarf hann að gæta þeirra hagsmuna. — Það er raunar rangt hjá mjer, að hann hafi aldrei selt hey, því að stundum hefir hann hjálpað grönnum sínum, ef þeir hafa verið heylausir á vorin. Því verð jeg að segja, að vel sje fyrir sjeð um flutning þessarar till., þegar sá eini þm., sem ætti að geta haft hagsmuna að gæta í innflutningi á erlendu heyi, er flm. þess að banna hann.

Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) vildi efast um, að þetta væri metnaðarmál fyrir landið og bændastjettina. Hann spurði í því sambandi, hvort við flm. vildum banna innflutning á öllu, sem hægt væri að framleiða í landinu sjálfu. Jeg get ekki svarað fyrir nema mig einan, og skal jeg segja það alveg ákveðið, að það vil jeg ekki. En það geta verið sjerstakar ástæðu, sem gera það nauðsynlegt. Hjer er það 1. metnaðarmál fyrir landið í heild og bændastjettina; 2. sjúkdómshættan; 3. er hjer um að ræða vöru, sem almenningur blekkist á. — Það er auðvitað til ein leið önnur en algert innflutningsbann. Það er sú leið að tolla norska heyið, t. d. með 12%, en það er sú tala, sem svarar til þess, hve mikill gæðamunurinn er. Vilji hv. 3. þm. Reykv. og aðrir hv. þdm. ganga inn á það, getur vel verið, að jeg fáist til að taka mína till. aftur.