22.02.1926
Neðri deild: 12. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1630 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

33. mál, húsaleiga í Reykjavík

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg gat því miður ekki verið við umr. um stund, því að jeg þurfti að taka þátt í umr. í Ed., en mjer hefir verið sagt, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hafi spurt, hvers vegna stjórnin hefði ekki afnumið húsaleigulögin með konunglegri tilskipun. (JBald: Jeg spurði um ástæðurnar til þess, að stjórnin gerði þetta ekki). Það er það sama; jeg finn engan mun á þessu orðalagi. En jeg hjelt, að hv. þm. þyrfti ekki að vera óánægður við stjórnina fyrir þessar sakir, úr því að hann hefir nú lýst því hjer, að hann vill ekki láta hrófla neitt við lögunum. Jeg skal nú segja honum ástæðuna fyrir því, að stjórnin gerði þetta ekki. Það var af því, að það hefði aðeins orðið hálfverk eitt úr því að afnema lögin frá 1917; lögin frá 1921 hafði hún enga heimild til að afnema. Þá var og önnur og aðalástæðan sú, að stjórnin var í vafa um, hvort hún hefði heimild til að afnema lögin frá 1917, þar sem það stendur í lögunum frá 1921, að lögin frá 1917 falli úr gildi þegar eftir að reglugerð hefir verið sett samkvæmt lögunum frá 1921. Í þessu virðist jafnvel liggja, að lögin frá 1917 eigi að gilda þar til reglugerð sje sett, en það hefir ekki verið gert hingað til, eins og kunnugt er.

Annað held jeg, að hv. 2. þm. Reykv. hafi ekki spurt um, og hefi jeg því ekki fleira að athuga að sinni.