06.04.1926
Neðri deild: 46. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

33. mál, húsaleiga í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Það hefir orðið mitt hlutverk á hverju þinginu eftir annað að standa upp til þess að andmæla þeim tilraunum, sem gerðar eru til þess að nema úr gildi núverandi húsaleigulög. Jeg fæ ekki sjeð enn, að ástæður sjeu svo breyttar, að rjett sje að afnema þessi lög. Hið eina, sem breyst hefir, er það, að meiri hl. bæjarstjórnar hefir samþ. áskorun til stjórnarinnar um að nema lögin úr gildi. En á það má líta, að þetta var samþ. aðeins með eins atkvæðis mun. Borgarstjóri lítur einnig svo á, að þetta sje hæpin ráðstöfun, og greiddi ekki atkvæði.

Það má vel vera, að þessi lög hafi verið neyðarráðstöfun, en til þess sama ráðs varð að grípa í mörgum löndum, og það er enginn vafi á því, að ef þessi lög verða numin úr gildi nú, verður stofnað til mestu vandræða. Reynslan í nágrannalöndunum sýnir þetta ljóst. Í Danmörku t. d. voru húsaleigulögin afnumin í öðrum bæjum en höfuðstaðnum. Afleiðingin varð sú, að húsnæðisuppsagnir streymdu inn. Í Álaborg t. d. fengu 1400 fjölskyldur uppsögn og á annað hundrað urðu að leita til borgarstjóra, af því að þær fengu ekki húsnæði. Eftir sama hlutfalli ættu 700 fjölskyldur hjer að fá uppsögn, og það er áreiðanlegt, að margar þeirra ættu hvergi höfði sínu að að halla.

Hver eru svo úrræði bæjanna, þegar svona fer? Jú, þeir eiga yfir ýmiskonar húsnæði að ráða, skólum o. fl. Þessi hús eru tekin handa húsnæðislausu fjölskyldunum. Hvernig ætti nú að fara að hjer? Ætti að taka þennan eina barnaskóla, sem bærinn á? — Jeg er hræddur um, að einhver myndi kalla: Blessaðir, komið þið með húsaleigulögin aftur. Líkar afleiðingar hefir afnám laganna haft í Árósum. Þar var sagt upp 2900 fjölskyldum og 500 urðu húsnæðislausar. Þar var gripið til sömu ráða, teknir barnaskólar og hermannaskálar handa húsnæðislausu fólki. Svona urðu afleiðingarnar í þessum dönsku bæjum. En að því leyti stöndum við ver að vígi hjer, að húsnæðisvandræði eru mikil fyrir og húsaleiga hærri en í Danmörku. Jeg þekki nokkra íslenska iðnaðarmenn þar, sem leigja þriggja-fjögurra herbergja íbúðir fyrir 70 kr. á mánuði. Hjer munu slíkar íbúðir kosta 150 krónur. Líka eru meiri kröfur gerðar til húsnæðis þar. Hjer hafa allar ákvarðanir, sem heilbrigðisstjórnin hefir samþykt, orðið að falla niður, af því að ekki hefir verið kleift að láta fólk fara úr óforsvaranlegum íbúðum.

Það er vikið að því í nál. minni hl., að ekki sjeu líkur til, að byggingar aukist að mun, ef löginn standa. Það kann að þykja óviðfeldið að hafa þessi höft, en það eru til svo margskonar höft, sem ekki verður komist hjá. Það hefir verið bygt hjer mikið undir húsaleigulögunum, þó ekki hafi það orðið nægilegt, og mikill fjöldi manna vill byggja. Það eru ekki húsaleigulögin, sem hindra byggingarnar, þó e. t. v. megi finna einstök dæmi þess, heldur er það skortur á lánsfje. Fáir eru svo efnum búnir, að þeir geti lagt fram alt fjeð, sem til þarf, sjálfir. Þeir hafa því orðið að fá lán, fyrst í veðdeild, ef þess hefir verið kostur, þá víxillán, og síðast hafa þeir e. t. v. orðið að leita til þeirra, sem gera sjer það að atvinnu að lána út fje með háum vöxtum. Jeg hygg, að flestir hafi orðið að borga upp undir 10% af lánum sínum.

Mjer skildist á hv. frsm. meiri hl. (JK), að hann fallast á, að ekki yrði miklu meira bygt, þó að lögin yrðu afnumin. Hann byggir alla von sína á veðdeildarfrv. En má ekki búast við, að lánskjörin verði þar eitthvað svipuð og verið hefir? Enginn veit, hvernig tekst að selja brjefin, og það má búast við talsverðum afföllum. Og þó að menn geti fengið veðdeildarlán, eru fáir svo efnum búnir, að þeir geti lagt fram það, sem á vantar. Það þarf ekki að afnema húsaleigulögin til þess að bygt verði. Það vantar bara peninga til að byggja fyrir. Þetta held jeg, að sje hv. frsm. meiri hl. nokkurnveginn ljóst, eftir því sem honum fórust orð.

Þá eru það brtt., sem hv. meiri hl. vill gera við frv. Jeg skal játa, að það mun í góðu skyni gert að lengja uppsagnarfrestinn til vors 1927. En sá galli er á, að þótt það ákvæði standi, er opin leið fyrir húseigendur að hækka leiguna eftir vild, þegar öll lögin eru afnumin, að undanskildu þessu eina ákvæði. Ef tryggja á það, að ekki verði sagt upp með því að hækka leigu, verður að setja um það sjerstök ákvæði.

Þessi tillaga kemur því alls ekki að tilætluðu gagni, þar sem það er skýrt tekið fram í frv., að öll 3 lögin (líka lögin frá 1917 og 1921) skuli úr gildi numin, og þó að það standi eitt eftir í þessu frv., að ekki megi segja upp til brottflutnings fyr en að vori 1927, hamlar það ekki húseigendum frá því að hækka leiguna, sem er hjer um bil alveg það sama og að reka fólkið úr íbúðunum. Þetta veit jeg, að hv. frsm. meiri hl. skilur mjög vel, hann ætti því að taka þetta til nánari íhugunar.

Þá er enn ein leið eftir, sem hugsanlegt er, að reynist fær, þ. e. að lofa lögunum frá 1921 að vera áfram í gildi, en fella aðeins niður lögin frá 1917, — að láta bæjarstjórn Reykjavíkur hafa allan veg og vanda af þessu máli, er hún hjeldi eftir heimild þeirri, er lögin 1921 veita henni til að gera samþyktir um þessi mál. Þetta væri sök sjer, ef frv. færi ekki lengra. Bæjarstjórnin gæti þá, þegar flutningsaldan og húsnæðisvandræðin koma yfir, tekið til sinna ráða samkvæmt þessum lagaheimildum. Eitt er og að vísu vegur fyrir bæjarfjelagið, þegar lögin eru numin úr gildi. Það er að byggja nógu margar íbúðir, en jeg tel þó efasamt, að það ráð verði tekið. Það hefir jafnan verið skelt skolleyrunum við því í bæjarstjórninni, er byggingar hafa verið nefndar þar á nafn, og húseigendur, sem munu standa að þessu frv., mundu heldur ekki líta til þess hýru auga, ef bærinn færi að byggja. Þetta hefir oft staðið til, að yrði gert, en það þarf sjálfsagt eitthvað að ske áður en bæjarfjelagið ræðst í byggingar, eins og stjórn þess er nú skipuð. Og þótt ráðist yrði í einhverjar byggingar, þá má búast við eftir reynslunni, að það yrði ekki gert fyr en síðla sumars, og þá gæti svo farið, að fjöldi fólks lenti í húsnæðishrakningum um langan tíma, jafnvel fram á miðjan vetur, því byggingar þurfa langan tíma til þess að verða fullgerðar og íbúðarhæfar. Bæjarstjórnin hefir venjulega dregið þessi mál of lengi og loks hefir hún látið hrúga upp ljelegum skúrum og þvílíkum hreysum, sem alls ekki hafa verið hæf til íbúðar, og það eru ekki þessháttar byggingar, sem jeg óska eftir, heldur góðar og varanlegar íbúðir til frambúðar fyrir fólkið.

Jeg vildi helst, að frv. yrði nú þegar felt við þessa umræðu, en ef það lifir til 3. umr., sje jeg ekki annað en að óhjákvæmilegt sje að gera á því frekari breytingar en þetta, ef því er ætlað lengra líf og vænst er eftir, að það nái tilgangi sínum.