06.04.1926
Neðri deild: 46. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1640 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

33. mál, húsaleiga í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg get svarað hv. 4. þm. Reykv. og flm. frv. (MJ) því, að þó jeg hafi ef til vill ekki komið með neitt nýtt í þessu máli, hefir hann heldur ekki gert það sjálfur. Þessa er heldur ekki von; ástæðurnar bæði með og móti ganga ávalt aftur í þessum umræðum, og er þá ekki annað eftir en spádómarnir um, hvað við muni taka, er lögin verða afnumin, og deilt um það, hverjir hafi getað fært fram sennilegri líkur fyrir sínu máli. Jeg neita því ekki, að húsaleigulögin eru óvinsæl af mörgum húseigendum, en jeg veit líka, að mjög margir leigjendur telja sjer mikla vernd í lögunum, og óvinsæld húseigenda í garð laganna stafar ekki af því, að þeir telji sig ekki geta bygt vegna þeirra, því þeir þurfa þess ekki; en þeir vilja leigja eins og þeim sýnist. Og hinu vil jeg heldur ekki neita, að til kunni að vera leigjendur, sem eru óánægðir með húsaleigulögin, út af úlfúð, sem átt hefir sjer stað í húsunum (MJ: Er ekki þarna dálítil veila í röksemdafærslu hv. þm.?). Nei, það er engin veila í þessu; þetta eru frekar undantekningar. Eins og jeg hefi áður sagt, hamla húsaleigulögin ekki byggingum. Það er t. d. fjöldi leigjenda, sem vill byggja, en getur það ekki, vegna þess að viðunanleg lánskjör fást hvergi. En menn hafa þó þrátt fyrir lögin reynt að klífa þrítugan hamarinn til þess að koma sjer upp íbúðum, en lánskjörin hafa gert þetta mjög erfitt á síðari tímum, og það er nú alment viðurkent, og enda ekki skiftar skoðanir um það, að aðeins fjárhagslega vel stæðir menn geta bygt.

Hv. þm. (MJ) hafði eftir mjer nokkrar tölur, sem jeg hafði tekið eftir dönskum blöðum, úr lýsingum á húsnæðisvandræðunum í Danmörku. Jeg reiknaði hlutfallið út eftir mannfjölda þar og hjer og hefi ekki sagt neitt um, að þetta væri alveg eins hjer. — jeg veit, að hjer er ástandið mun verra. Jeg byggi þetta álit mitt á því, hve eftirspurnin er hjer mikil eftir húsnæðum; ekki af eftirspurn þeirra, sem eru í einhverjum íbúðum, heldur þeirra, sem hafa vegna húsnæðisleysis orðið að leysa upp heimili sín, tvístra fjölskyldunni sitt í hverja áttina eða verða að hafast við í einu herbergi með fjölda manna, vegna þess að hæfilegar íbúðir hafa ekki verið falar. Jeg veit um fjölmargar fjölskyldur, sem svo er ástatt fyrir.

Hv. þm. (MJ) spurði um. hvað yrði af þessum þúsund íbúðum, sem fólkið flytti úr, og hann svaraði því sjálfur, að það mundu aðeins aðrir flytja í þær, og að kveldi flutningsdags hefðu allir fengið húsaskjól. Þarna held jeg samt, að hv. þm. hafi misreiknast. Mörgum húseigendum er illa við lögin af þeim ástæðum, að þeir þykjast ekki geta bætt við sig eins miklu húsrúmi og þeir teljast þurfa. Jeg hygg því, að uppsögn á leiguíbúð þýði ekki alstaðar það, að aðrir komi í þær, heldur hitt, að húseigendur rýmki um sig til að geta sjálfir haft stærri og þægilegri íbúðir. Þetta er að vísu ekki óeðlileg krafa af hálfu húseigenda, en hitt er engu að síður ranglátt, að fleygja fjölda fjölskyldufólks út á götuna. Nei! Það er enginn efi á því, að fjöldinn af þeim íbúðum, sem losnar þannig, fæst ekki aftur á leigu. Þær fara aðeins til að auka við íbúðir einstakra manna, en húsnæðisvandræðin verða meiri eftir en áður. Þetta verður afleiðingin af því að afnema húsaleigulögin.

Það er vilji margra að byggja yfir sig og margir gera það líka, en þó er ekkert rýmra um fólk í bænum, þrátt fyrir það, sem hægt er, og ef miðað er við byggingar þær, sem komist hafa upp síðastl. tvö ár, þarf varla að vænta, að batni mikið húsnæðisleysið í bænum, enda þótt það verði kannske ekki verra. Jeg held því varla, að tími sje kominn ennþá til þess að afnema húsaleigulögin.

Hv. þm. (MJ) sagði að það væri óviðkunnanlegt og óviðfeldið að hafa lög sem mörgum væri illa við: hitt er þó enn verra, að hafa fjölda fólks á götunni, sem hvergi á höfði sínu skýli. Hann sagði og að það væri barnaskapur að þakka lögunum aukna skilvísi leigjenda; menn hefðu áður en þau voru sett getað sagt upp leigu á íbúðum af þeim ástæðum. Þetta er aðeins að sumu leyti rjett. Það mun sitthvað hafa átt sjer stað í þessa átt áður, en þá þurfti meira umstang til að koma þessu í framkvæmd en nú, eftir að húsaleigunefndin kom til skjalanna og ekki þurfti annað en segja henni til, ef ástæður voru til uppsagnar. Nei, jeg held, að húseigendur hafi síst verið grátt leiknir af þessum lögum, og eins og af er látið hafa þeir tekið óbilgjarna húsaleigu víðast hvar; og úrskurðir húsaleigunefndar hafa sjaldnast hallað á húseigendur: þeir hafa fengið fulla vexti af fje sínu, og meira til. Einstöku húseigendur hafa þó ekki notað sjer þetta til þess að hækka leiguna, en margir eru þó þeir, sem hafa sett sem skilyrði fyrir leigu á húsnæði gegn of hárri húsaleigu, að húsaleigunefnd yrði ekki sagt til um það, og fjöldinn allur hefir þannig neytt leigjendur til að ganga að alt of hárri leigu, því þeir vita, að margir eru svo gerðir að kæra ekki yfir þessu, vegna þess að þeir vilja skirrast við illdeilum í húsunum. En ef allir þeir, sem óánægðir eru með lögin, geta sagt upp íbúðunum. verður afleiðingin stórfeldari vandræði en orðið hafa hjer fram að þessu, og þá verður að gera einhverjar ráðstafanir til að útvega fólki húsnæði. Það versta við þetta verður, að það verður helst það fólk, sem síst má við því að verða húsnæðislaust, sem fer út. Þetta er augljóst af auglýsingum í blöðunum o. fl. Allir vilja helst aðeins leigja einhleypu fólki, þ. e. barnlausu; engir vilja hafa börn í sínum húsum, því menn kjósa heldur kyrlátari leigjendur en börnin. Ef til uppsagnar kemur, verða fyrst og fremst barnafjölskyldurnar á götunni. Þá verður óhjákvæmilegt, að hið opinbera geri stórfeldar ráðstafanir þessu fólki til bjargar; en það verður ekki gert á einum degi. Jeg hygg, ef sá andi ræður framvegis, sem þar hefir svifið yfir vötnunum í bæjarstjórn Reykjavíkur undanfarið, að dregið verði þar til í síðustu lög að gera nokkuð í húsnæðismálunum. Svo hefir venjan verið að ekkert hefir verið aðhafst fyr en neyð hefir verið fyrir dyrum. Jeg held því, að það sje mjög varhugavert að afnema þessi lög, og jeg veit að margir hv. þm. eru svo kunnugir hjer í bænum, að þeir vita, að stórvandræði muni leiða af því að afnema lögin. Það væri sök sjer, ef lögin frá 1921 fengju að standa, er vandanum verður öllum snúið á hendur bæjarstjórnarinnar. Því þó að brtt. allshn. verði samþ., verður fleira að gert hjer í bæ en að segja upp húsnæðunum. Víðast hvar verður leigan hækkuð að miklum mun, en það þýðir hið sama og að segja enn fleira fólki upp húsnæði.

Þetta bið jeg hv. þm. að athuga vel. Þetta verður að lagast og frv. að breyta, ef þeir vilja að lögin veiti leigjendum þá sömu vernd og áður til flutningsdags 1927.