07.04.1926
Neðri deild: 47. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1711 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

26. mál, ritsíma og talsímakerfi

Frsm. (Klemens Jónsson):

Á öndverðu þingi bar hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) fram frv. á þskj. 29, um nýja símalínu í Vestur-Húnavatnssýslu, frá Hvammstanga, um Stóra-Ós, Lækjamót, Breiðabólsstað, Ós og Tjörn, að Illugastöðum, með hliðarlínu að Víðidalstungu, og um aðra línu frá Melstað að Núpdalstungu, og var frumvarpi þessu vísað til samgöngumálanefndar. Hún hefir nú haft það til umræðu og athugunar og meðal annars átt tal um það við landssímastjóra, sem er því meðmæltur, að frv. verði samþykt, eins og líka sjest á greinargerð þeirri, sem því fylgir. Samgmn. er honum sammála og leggur til, að frv. verði samþykt.

Þá hafa nefndinni borist tvö erindi um nýjar símalínur, og er annað þeirra frá háttv. þm. A,-Húnv. (GuðmÓ), um línu frá Hnausum, um Hnjúk og Eyjólfsstaði, að Ási í Vatnsdal. Er sú vegalengd um 19 km. og kostnaður við að leggja þessa línu áætlaður 12 þús. kr. með núgildandi verðlagi. Einnig þessi lína telur landssímastjóri rjett, að verði lögð með tíð og tíma og er því meðmæltur, að hún sje tekin upp í símalögin, og sama er um nefndina að segja.

Þá er hitt erindið frá sjálfum mjer, um nýja símalínu í kjördæmi mínu, Rangárvallasýslu. Er ætlast til, að sú lína liggi frá Efra-Hvoli, um Hof og Kirkjubæ, að Geldingalæk. Í nál. á þskj. 210 er sagt, að sú vegalengd muni vera um 17 km., en nú hefi jeg fengið vissu fyrir því, að hún sje ekki nema 15 km. Stafar þetta af því, að í óstaðfestu eftirriti af umsögn landssímastjóra hafði verið skrifað 17 km. ofan í 15 km., og áleit jeg það því rjettara, en það er svo ekki, vegalengdin er 15 km., og er þessi skekkja hjer með leiðrjett.

Jeg vona, að háttv. deild taki mjer það ekki illa upp, þó að jeg fjölyrði dálítið um þessa fyrirhuguðu símalínu og minnist þá um leið á ýmislegt fleira í því sambandi.

Eins og kunnugt er hefir Rangárvallasýsla orðið talsvert útundan með síma. Að vísu liggur símalína í gegnum þvera sýsluna, en það er lína sú, sem liggur hjeðan og austur í Skaftafellssýslu, altsvo aðallína, og svo lína frá henni út í Vestmannaeyjar. Einstakar hliðarlínur út frá þessari aðallínu hafa enn ekki verið lagðar nema til Hallgeirseyjar og á einum stað undir Eyjafjöllum, en þann spotta hafa einstakir menn kostað. Það símasamband, sem Rangárvallasýsla hefir orðið við að búa, er því alveg ófullnægjandi; einkum er það miklum erfiðismunum bundið fyrir afskektu sveitirnar að notfæra sjer þetta símasamband, sem nú er eins og t. d. Landsveit. En um það ætla jeg ekki að ræða, því lína upp á Land er komin inn í símalögin, og vonandi rekur að því áður en langt um líður, að hún verði lögð. En þegar þessari Landlínu sleppir, liggur mest á að leggja línu upp um Rangárvelli, og er jeg þá kominn að þessu erindi mínu, sem hjer er borið fram á þskj. 210, um nýja símalínu frá Efra-Hvoli, um Hof, Kirkjubæ og með endastöð á Geldingalæk. Og þar sem ætla má, að kostnaður við hana fari aldrei fram úr 12 þús. kr., þá vænti jeg, að hv. þdm. telji það enga óhæfu, þó að hún sje tekin upp í símalögin.

Annars skal jeg taka það fram, bæði um þessa og hinar aðrar nýjar símalínur, sem farið er fram á að sjeu teknar upp í lögin, að það er ekki meiningin, að þær á nokkurn hátt eigi að tefja fyrir lagningu þeirra símalína, sem þegar eru komnar inn í lögin. Allar eldri línur ganga að öllu jöfnu fyrir þeim, sem á eftir koma, svo með því að samþykkja brtt. okkar er alls ekki ætlast til að grípa fram fyrir hendur landssímastjóra eða laganna í þessu efni.

Nefndin mælir því eindregið með því, að frv. á þskj. 29, að viðbættum þeim breytingum, sem nefndar eru í nál. á þskj. 210. verði samþykt.

Hv. flm. (ÞórJ) hefir kallað frv. sitt breytingu á lögum nr. 52, 28. nóv. 1919. En það eru til yngri lög, nr. 26 frá 20. júní 1923, um símalínu frá Þórshöfn til Skála, og ennfremur lína til Gunnólfsvíkur. Nú hefir nefndinni þótt rjett, til þess að allar nýjar símalínur sjeu í sömu lögunum, að taka upp í þetta frv. línuna frá Þórshöfn til Skála, auk Gunnólfsvíkurlínunnar, og nema þar með lögin frá 1923 úr gildi. En verði frv. og brtt. nefndarinnar ekki samþykt, standa þessar línur vitanlega eftir sem áður.

Um allar þessar línur er það sama að segja, að landssímastjórinn miðar kostnaðaráætlun sína við það, að hlutaðeigandi sveitir verði að taka þátt í flutningakostnaði o. fl. og leggja fram hæfilegt tillag.

Þá hafa hjer komið fram viðaukatillögur frá einstökum hv. þm. á 4 þingskjölum. En þar sem það er venja, að frsm. nefndar minnist ekki á brtt. einstakra þm. fyr en flm. hafa talað fyrir þeim, þá geymi jeg mjer að ræða um þær að svo stöddu. Þó get jeg ekki stilt mig um, í sambandi við þennan urmul af brtt., að minna á, hve hjer er líkt ástatt og um vegalagabreytingarnar, sem drífa að úr öllum áttum undir eins og leiðin er opnuð en enda að lokum flestar í einni og sömu gröfinni. Þó að mjer sje málið skylt og jeg beri hjer fram brtt. í þessu efni, af því að brýn nauðsyn mælir með því, þá er ekki þar með sagt, að allar þessar línur sjeu nauðsynlegar, eða jafnnauðsynlegar.

En við bíðum og sjáum, hvað setur, enda býst jeg við, að þeir hv. flm., sem viðaukatillögur hafa borið fram, komi með ástæður sínar og geri grein fyrir þeim. Að lokum skal jeg geta þess, að um þrjár af brtt. þessum hafa skjöl legið fyrir nefndinni. En um brtt. á þskj. 272 hefir nefndinni ekkert borist, og veit hún því ekkert, hvernig það mál horfir við.