25.03.1926
Neðri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (15)

1. mál, fjárlög 1927

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg bíð eftir því að fleiri rísi upp úr sætum sínum en hv. þm. Str. (TrÞ). Jeg lít svo á að stjórnin hafi ekki þá rjettu aðstöðu á svona degi, ef aðeins 1 maður er á móti henni og á við ofurefli að etja. Jeg játa mig eigi meiri harðýðgismann en það, að jeg kveinka mjer við að höggva hart í það hold, sem þegar er búið að tukta svo, sem mjer finst raun á orðin. En úr því að aðrir kveðja sjer ekki hljóðs, þá ætla jeg að svara með nokkrum orðum því, sem sjerstaklega hefir verið að mjer beint, og ætla jeg mjer að gera það eins hógværlega og frekast er unt.

Jeg skal þá játa það, að það mun hafa farið fram hjá mjer þetta þingskjal, sem fjallar um það, að jeg hafi gefið skakka skýrslu um tilfærslu á veðrjetti ríkissjóðs í togurum Kárafjelagsins. En hvað sem nú stendur í þessu þskj., þá hefi jeg alls ekki gefið skakka skýrslu. Jeg hefi áður lýst yfir því, að stjórnin hefði talið fært að færa veðrjett ríkissjóðs í togurunum aftur fyrir rekstrarlán, sem borgast átti af tekjum yfirstandandi vertíðar. En hjer var farið fram á eftirgjöf á veðrjetti ríkissjóðs fyrir föstu láni, og það gat stjórnin vitanlega ekki gert upp á sitt eindæmi, heldur beiddist heimildar Alþingis, og jeg vil taka það skýrt fram, að alt, sem við kemur þessu máli, er skrifað og skjallegt og hefir verið afhent fjhn. þessarar hv. deildar. Auðvitað stóð fleira í þeim brjefum en tekið var fram í umræðunum, og hafa hv. fjhn. beggja deilda haft tækifæri til að kynnast því, sem í þeim stendur. Verð jeg því að vísa til baka öllum ásökunum um það, að jeg hafi gefið skakka skýrslu.

Viðvíkjandi skipun Þórðar læknis Sveinssonar á Kleppi í gæslustjórastöðu ræktunarsjóðsins vil jeg taka það fram, að jeg hefi góða samvisku út af því, þar sem hann er landbúnaðarfróður maður, en jeg skal játa, að hann er ekki bankafróður og að það var ekki borið undir stjórnarnefnd Búnaðarfjelagsins að fá bankafróðan mann, enda var það ekki tilætlun form. Búnaðarfjelags Íslands, hv. þm. Str., að því er jeg best veit.

Jeg vil þó bæta því við, að á meðal þeirra, sem stjórn fjelagsins stakk upp á, var enginn annar maður starfandi að landbúnaðarmálum. (TrÞ: Ekki rjett). Ekki rjett, segir hv. þm., en jeg veit ekki, hver sá annar maður er. (TrÞ: Einar Helgason). Mjer er ókunnugt um, að hann reki búskap. (Atvrh. MG: Hann hefir 3 kýr. — TrÞ: Hann rekur kúabú). Mjer var ekki kunnugt um þessar kýr og get varla talið það búskap í þeim skilningi.

Við verðum seint sammála, jeg og hv. þm. Str., um gengismálið, þótt hann telji okkur báða lærisveina Cassels, með þeim mismun, að hann sje sjálfur sá rjetti lærisveinn, en jeg sje afdankaður. Jeg get sagt hv. þm., hvað á milli ber, og vil láta það koma skýrt fram í þessari hv. deild. Jeg hefi aðhylst það í kenningum Cassels, sem var búið að ná viðurkenningu þegar jeg reit bók mína, og voru það einkum hans skarplegu athuganir og skýringar á orsökum og afleiðingum lággengisins. Mjer var kunnugt, að Cassel var ákveðinn stýfingarmaður, hann vildi láta Dani stýfa, hann vildi láta Norðmenn og Svía stýfa, hann vildi yfirleitt láta alla stýfa gjaldeyri sinn, en það var einmitt það, sem jeg gat aldrei aðhylst, enda finst ekki neitt slíkt í bók minni, en gerði grein fyrir því í formálanum, hvað okkur bæri á milli. Cassel bar fyrst niður í Svíþjóð með kenningar sínar; hafði hann stjórn ríkisbankans sænska á móti sjer og yfirleitt alla. Hvers vegna? Vegna þess að Svíar höfðu stýft gjaldeyri sinn 1834 niður í 25–35% af nafnverði og supu síðan seyðið beyskt af afleiðingunum og hafa alls ekki gleymt þeim enn þann dag í dag. Þeir voru því ófúsir á að fara að ráðum Cassels í þessu efni, en notuðu hinsvegar hinar skarplegu skýringar hans til þess að koma gjaldeyri sínum í gullverð. Sama sagan er með Dani; þeir notfærðu sjer ekki tillögur hans að stýfa, en hafa nú ákveðið að koma krónu sinni í gullverð. En þar fyrir getur vel verið, að ekki sjeu öll ríki á móti tillögum hans. En vísindamaðurinn á þessu sviði, sá sem skýrir orsakir og afleiðingar gengisbreytinganna, þarf ekki endilega að vera kjörinn stjórnmálaleiðtogi. Og þar missýnist hv. þm. Str., ef hann heldur, að það sje alveg afgerandi, að vísa í prófessor í hagfræði. Það felst vissulega ekki alt í því, heldur í því að meta afleiðingar þessarar stefnu fyrir pólitískt líf í framtíðinni. Jeg hefi í þessu litla kveri, sem jeg hefi samið, haldið því fram, að svo virtist, sem erfiðleikarnir sjeu hjer á landi ekki eins miklir og víða annarsstaðar á því að koma gjaldeyrinum í gullgengi, af því að við erum ekki eins langt komnir í lánsfjárnotkun, eða skuldabúskap, eins og aðrar þjóðir. En það reynist einmitt versti þröskuldurinn fyrir hækkuninni. Að vísu eru ýmsir erfiðleikar samfara hækkuninni, svo sem vinnudeilur, sem hljótast af henni, þungbærir í svip, en alt slíkt jafnast á fáum árum, þegar menn fara að skilja, hvað gera verður í þessum efnum.

Það gladdi mig að heyra yfirlýsingu hv. þm., þar sem hann viðurkennir, að enn sje ekki búið að baka landbúnaðinum stórtjón með gengishækkuninni. En hv. þm. er hræddur við yfirvofandi erfiðleika. Það er nú best að bíða og sjá hvað setur, meðan krónan er róleg. Það koma ekki neinir framtíðarerfiðleikar til greina meðan krónan er kyr.

Þá þótti hv. þm. Str. einkennilegt, að hækkun krónunnar skyldi ekki vera ákveðin með auglýsingu, heldur með kaupum og sölu gjaldeyris. Það er ómögulegt, að þetta sje vel íhugað hjá hv. þm., því að genginn verður aldrei haldið föstu með öðru en gjaldeyrisverslun. Það getur vel komið fyrir, þótt seðlar eigi að heita gulltrygðir, að þá verði þeir ekki seljanlegir fyrir gullverð. Enda hefir það komið fyrir, að mistekist hefir að halda genginu föstu, þótt seðlarnir hafi verið gerðir innleysanlegir í gulli. Þetta verða menn að gera sjer ljóst. Sjerstaklega var svo komið í haust, að ísl. krónunni varð ekki haldið niðri nema með því að kaupa erl. gjaldeyri háu verði. Þess vegna er ekki rjett að áfellast þann bankann, sem keypti fyrir meira en gullgengi, fyrir það, að krónan hækkaði, því að ef hann hefði ekki keypt erl. gjaldeyri á þessu verði, þá hefði krónan hækkað enn meira. Jeg vil því tala það fram, að allar ráðstafanir stjórnarinnar miðuðu að því að hindra hækkun krónunnar, hvort sem hún fær síðar lof eða last fyrir það. Jeg get eins vel búist við því, að eftirkomendur vorir álasi henni fyrir það, að hafa ekki notað góðu árin 1924 og '25 til meiri hækkunar í stað þess, sem gert var til þess að halda krónunni niðri.

Þá sagði hv. þm. Str., að jeg hefði neitað Íslandsbanka um stuðning þann, er jeg hefði lofað honum. Það er ekki satt, að jeg hafi neitað honum, en jeg hefi hinsvegar ekki boðið fram þá seðlafúlgu, sem þurft hefði til þess að halda sterlingspundinu í 26 kr.; til þess hefði þurft sannkallað seðlaflóð. Og hefir Íslandsbanki heldur ekki farið fram á það.

Jeg verð þess vegna fyrir mitt leyti að halda því fram, að það, sem á milli ber, er ekki þess eðlis, að hv. þm. geti með neinum rjetti fundið að ráðstöfunum stjórnarinnar. Ágreiningurinn stafar af því, að hann er á annari skoðun í málinu en stjórnin, en hann getur ekki búist við öðru en að stjórnin hagi sjer eftir meginstefnu sinni, eða geri annað en það, sem hún telur rjett. Undir þetta má telja afstöðu stjórnarinnar til kröfu þeirrar, er háttv. þm. kallar kröfu frá fulltrúum atvinnuveganna í gengisnefndinni, um aukaþing. Það má vel vera, að þessir tveir menn í gengisnefndinni sjeu þar sem fulltrúar atvinnuveganna. En verk þeirra í gengisnefndinni er þá að gera tillögur um ráðstafanir, er miði að því að hækka og festa verð hins íslenska gjaldeyris. En það er fyrir utan verksvið þeirra sem fulltrúa atvinnuveganna, enda hafa þeir ekki umboð til þess að koma fram með kröfu um aukaþing.

Háttv. þm. Str. virðist ákaflega sannfærður um ómöguleika þess að hækka íslenskan gjaldeyri. En jeg er nú ekki jafnsannfærður um þann ómöguleika, og kemur það af mismunandi skoðun okkar á þessum öðrum aðalatvinnuvegi þjóðarinnar. Mjer finst, að altaf þegar þessi háttv. þm. talar um landbúnaðinn, þá skoði hann hann sem örvasa vesaling, sem sje svo lasburða, að hann geti ekki hangið á hestbaki nema með eilífum stuðningi hins opinbera, og sje því aðeins byrði á þjóðfjelaginu. Þess vegna sje hjer ómögulegt að hækka gjaldeyri landsins. Þetta finst mjer vera grundvallarskoðun háttv. þm. Str. En jeg lít alt öðrum augum á landbúnaðinn. Jeg lít á hann sem frumvaxta ungling, sem vantar þroska. En hann hefir skilyrði til þroska og ber þjóðfjelaginu skylda til að hlynna að honum. Og eins og hann hefir lifað hingað til, og oft við mikla erfiðleika, þá hefi jeg þá trú, að hann muni enn lifa og þroskast, að hann fái enn sigrast á erfiðleikunum og stuðlað að því að leysa úr örðugum viðfangsefnum þjóðfjelagsins. Og jeg trúi því, að hann geti orðið oss stoð til þess að fullnægja þeirri sæmdarkröfu að koma gjaldeyri landsins í lögboðið verð.