20.02.1926
Neðri deild: 11. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1791 í B-deild Alþingistíðinda. (1526)

29. mál, almannafriður á helgidögum

Flm. (Magnús Jónsson):

Jeg býst ekki við, að um frv. þetta þurfi að verða langar umræður að svo stöddu. Það er fram komið vegna þess, að vöknuð er nokkuð sterk hreyfing bæði hjer og víðar í þá átt að stemma stigu fyrir því, sem virðist fara mjög í vöxt, að menn geri sjer lítinn dagamun að því er ýmsa vinnu snertir. Þessi hreyfing leiddi til fundahalda hjer í haust. Á fjölmennum fundi, sem haldinn var í fríkirkjunni í október síðastl., var kosin 5 manna nefnd til þess að undirbúa helgidagalöggjöfina og breyta henni í betra horf, og hefir sú nefnd samið frv. það, er hjer liggur fyrir.

Við flm. flytjum frv. orðrjett eins og nefndin gekk frá því, en áskiljum okkur samkvæmt greinargerðinni rjett til þess að víkja frá því í einstökum atriðum. Sjerstaklega þykir okkur ekki heppilegt, að sá tími helgidaga, sem alfriðaður á að vera, sje mismunandi langur og á mismunandi tímum, eins og gert er ráð fyrir í frv. Við teljum heppilegra, ef einhver tími er alfriðaður, þá sje það jafnan sami tími dagsins, og þá einnig rjettast að hafa þann tíma fremur stuttan, en veita svo engar undanþágur nema í lífsnauðsyn.

Fyrir mjer er aðalatriðið í þessu máli hið þjóðhagslega. Það er gömul reynsla, að sá, sem vinnur vel sex daga vikunnar, þarfnast hvíldar þann sjöunda. Það er víst, að þeim þjóðum hefir ekki farnast ver en öðrum, sem gert hafa sjöunda daginn að hvíldardegi. Eru engin undur eða kraftaverk þessu samfara, heldur er þetta almenn reynsla. Það er eins um þetta og stytting daglegs vinnutíma. Reynslan sýnir, að menn koma eins miklu í verk, þó skemur sje unnið. Einkum er það nauðsynlegt að friða einn dag vikunnar vegna þeirra, sem vinna utan heimilis síns og gætu að öðrum kosti aldrei verið í næði á heimilum sínum með konu og börnum, sem margra hluta vegna er óheppilegt.

Þá er friðunin nauðsynleg vegna þeirra, sem vilja halda hvíldardaginn heilagan. Auðvitað er slark og óregla á sunnudögum engu betri en vinna, en frv. miðar að því, að þeir, sem vilja sækja kirkjur sínar, geti fengið að vera í friði fyrir hinum. Sum ákvæðin ganga beinlínis út á að hanna hávaðasöm störf, svo sem sölu á götum úti og annað, sem truflun veldur.

Jeg skal ekki orðlengja þetta frekar, en vona, að hv. deild vilji meta hvorttveggja í senn, málefnið sjálft og að á bak við það stendur talsvert sterk hreyfing. Vænti jeg þess, að málið fái að ganga greiðlega í gegnum deildina og leyfi mjer að leggja til, að því verði vísað til allshn., að lokinni þessari umræðu: