12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1884 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það eru aðeins fá orð. Það vorn 700 þús., sem jeg sagði að fjelagið hefði notað. (SvÓ: Jæja, það er nokkuð sama). Nei, það er ekki sama, því þegar búið er að leggja svona mikið fje í fyrirtækið, leiðir það af sjálfu sjer, að meiri hvöt er til þess að koma málinu áleiðis. Jeg held, að hjer sje verið að reyna að búa til nýjan þröskuld, og jeg veit, að hv. þm. (SvÓ) ber þetta fram í því skyni að leggja hindrun á leið fjelagsins, hvað sem hann segir um það. Hann talar um, að þetta sje gert til að fyrirbyggja svik. Till. ræðir ekkert um það. Ef hún væri til að fyrirbyggja svik, gæti jeg verið með henni, en hjer er bara verið að lýsa því yfir, að þingið beri ekki meira traust til þessa fyrirtækis en svo, að heimta verði fje af mönnum þeim, sem fyrir því standa, ef því verði ekki komið fram á tilsettum tíma. Það liggur í þessu sá andi, að verið sje að gera þetta fyrir mennina, sem að því standa. Jeg lít svo á, að við sjeum að gera þetta fyrir okkur sjálfa. Þó þessir „útlendu fjepúkar“ kynnu að hagnast eitthvað, sæi jeg ekkert eftir því, ef við nytum líka góðs af. Gott er gott, hvaðan sem það kemur.