14.04.1926
Neðri deild: 53. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1890 í B-deild Alþingistíðinda. (1608)

31. mál, happdrætti fyrir Ísland

Frsm. minni hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Því er þannig farið, að minni hluti nefndarinnar hefir ekki komið fram með neitt álit, og veit jeg ekki einu sinni, hvort hann muni vera óskiftur, en jeg get þá verið frsm. sjálfs mín.

Fyrir tveimur þingum var jeg flutningsmaður að slíku frv. sem þessu. Og ástæðan til þess, að jeg bar það þá fram, var sú, hvílík vandræði voru þá að fá fje til verklegra framkvæmda, landhelgisvarna og ræktunarmála.

Nú er útlitið dálítið annað, en það veldur þó ekki mestu um skoðanaskifti mín, heldur hitt, að hugmyndin er sú, að stofnað sje til happdrættis og ætlast til, að mikið af happdrættisseðlum verði selt erlendis, en jafnframt á að banna sölu erlendra happdrættirmiða hjer á landi. Í þessu er mótsögn. Höfuðástæða mín er sú, að nota megi happdrættismöguleikann á annan veg heppilegri en hjer er ráð fyrir gert, eða sem svipaðast happadrættum Svía, sem jeg hefi kynt mjer nokkuð. Það eru „obligations“-happdrætti; hefir verið gert ráð fyrir slíku happdrætti í lögum um ríkisveðbanka. Með því móti má vinna að því, að vextir af löngum lánum lækkuðu í landinu. Ríkið hefir ekki mörg meðul til að lækka vexti af ræktunar- eða fasteignalánum, og hygg jeg þennan einna líklegastan til lækkunar svo um muni, og er þá ekki rjett að taka hann úr því sambandi. Ef frv. verður felt, þá mun jeg koma fram með till. um það, að „obligations“-happdrætti verði sett á í sambandi við ræktunarsjóðinn, því að þar eru vextir alt of háir.

Hefi jeg þá skýrt frá minni skoðun á málinu og mun greiða atkv. á móti frv.