05.05.1926
Neðri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2029 í B-deild Alþingistíðinda. (1686)

110. mál, sala á síld o. fl.

Frsm. (Björn Líndal):

Þess er ekki að vænta, að jafnstórt mál og þetta gangi orðalaust gegnum deildina, enda hefir nú verið allmikið um það rætt, og ekki enn sjeð fyrir endann á þeim umræðum. Býst jeg við að þurfa að tala nokkra stund. því að mörgu er að spara.

Fyrst mun jeg snúa mjer að brtt. þeim, sem fram eru komnar, og tek jeg fyrst þá, sem hendi er næst, brtt. hv. 2. þm. Reykv. (JBald) á þskj. 504. — Verð jeg að segja, að mjer þykir undarlegt, þegar ekki er farið fram á það í frv., að þeir, sem mest eiga á hættu, fái nokkru að ráða um fyrstu stjórn fjelagsins, að þá eigi verklýðssamband Norðurlands að ráða, hver verður einn fulltrúi í stjórninni. Fjöldi þeirra manna, sem í því sambandi eru, kemur aldrei nærri síldarvinnu, heldur stundar öll verk önnur. Það hefði ekki verið bein fjarstæða að stinga upp á því, að Sjómannafjelagið kysi einn fulltrúa, en hitt nær auðvitað engri átt, og það því síður, sem hvorki framleiðendur nje síldarkaupmenn eiga nokkru að ráða um fyrstu stjórnina.

Þá eru brtt. á þskj. 505, frá þeim hv. 3. þm. Reykv. (JakM) og hv. 2. þm. Eyf. (BSt). Hinni fyrstu þeirra er jeg í raun rjettri búinn að svara við 2. umr. þessa máls. Till. vill sem sagt breyta 20 í helming allra, er í fyrra ljetu salta síld eða krydda eða gerðu út skip á síldveiðar, eða ætla að stunda slíka atvinnu á yfirstandandi ári. Það er sem sagt ómögulegt að vita, hverja á að taka með og hverja ekki, og enn síður unt að safna þeim saman. Þeir eru úti um alt, utan lands og innan. Auk þess getur fjöldi manna ekki sagt neitt ákveðið um það ennþá, hvort þeir muni stunda þessa atvinnugrein í sumar eða ekki. Auk þess eru margir, sem ekkert ákveðið geta um þetta sagt fyr en sjeð er, hvernig fer um þetta frv. Jeg held, að samþykt þessa frv. sje skilyrði fyrir því, að þeim mönnum geti fjölgað, sem við síldarverkun og síldarsölu fást. Ástandið, sem nú er, er ískyggilegt; líkur eru nú fyrir því, að mikið af síldveiðaflotanum standi, uppi í sumar, ef ekkert er að gert. Jeg tel því þessa till. bein fjörráð við frv. Það er alveg ómögulegt að fullnægja skilyrðum hennar svo snemma, að hægt verði að stofna fjelagið á þessu ári. Fjelagið þarf að stofna sem allra fyrst, en það tæki tíma, þótt framkvæmanlegt væri, að safna saman helmingi þeirra, sem söltuðu o. s. frv. síðasta sumar og ætla að gera það nú. 2. brtt. á þessu þingskjali skiftir engu máli fyrir mig, ef hún ætti ekki að koma í stað 3. gr. Mjer virðist það auðsætt, er 1. gr. er athuguð, að allir þeir, sem rjett hafa til að stofna fjelagið, hafi einnig rjett til að vera fjelagsmenn. Lít jeg því svo á, að brtt. sje algerlega óþörf. En hún má alls ekki koma í stað 3. gr. Jeg álít, að hver maður, sem felur fjelaginu síld til útflutnings, eigi að vera fjelagsmaður. Þeir menn eiga meiri hagsmuna að gæta en útgerðarmenn, sem aðeins veiða síldina, en eiga ekkert við sölu hennar nje hafa af henni nokkra áhættu. Jeg verð að segja, að jeg get ekki sjeð í fljótu bragði, að rjett sje að láta menn, sem aldrei koma nálægt síldarverslun, hafa atkvæðisrjett um hana. — Þá eru 3. og 4. brtt. Jeg bjóst altaf við, að þær mundu koma fram, en því er fljótsvarað, af hverju jeg valdi heldur Akureyri. Af því að síldin er nær eingöngu veidd fyrir Norðurlandi, virðist sjálfsagt að hafa aðsetur fjelagsins þar. En það virðist heppilegra að hafa það á Akureyri en Siglufirði af ýmsum rökum. Í fyrsta lagi eru þaðan greiðari samgöngur og betra símasamband um landið. Í öðru lagi eru bankar á Akureyri, og skiftir það mjög miklu máli. Í þriðja lagi er hægara að fá gott húsnæði fyrir skrifstofur á Akureyri, þótt það megi að vísu frekar teljast aukaatriði. Loks hygg jeg, að ljettara verði að fá þar vel hæfa, menn til starfsins. Jeg hygg, að vandfengnir verði vel hæfir menn í stjórnina, en að Siglfirðingum alveg ólöstuðum, hygg jeg, að betra mannval sje á Akureyri og ljettara verði að fá þangað góða menn. — Jeg geri ráð fyrir, að fjelagsstjórnin hagi framkvæmdum sínum sem haganlegast fyrir alt fjelagið, en á Siglufirði eru dýrari lóðir og minna pláss, svo að leggja verður áherslu á að senda síldina sem fyrst frá Siglufirði, en láta Eyjafjarðarsíldina mæta afgangi. Eyjafjarðarsíldin verður því sennilega lengst geymd og þarf því mests eftirlits við af stjórnarinnar hálfu. Þá er og hægara að koma við þar og annarsstaðar við Eyjafjörð tilraunum um nýjar verkunaraðferðir, en það er einmitt takmark fjelagsins að stuðla að þeim. — Þá er 5. brtt. á þessu þskj., um að bæta við þá, sem atkvæðisrjett hafa á aðalfundi, þeim, sem hafa veitt sem svarar 200 tunnum saltaðrar síldar. Það er það sama á móti þessari brtt. og þeirri við 3. gr. Eiga þeir menn, sem hvorki koma nærri síldarverkun nje síldarverslun, að hafa atkvæði í fjelaginu, ef þeir aðeins hafa einhvernveginn veitt 200 tn. af síld og selt þær til skepnufóðurs eða í verksmiðjur? Að mínu viti hafa þeir enga sanngirniskröfu til slíks. Er jeg því á móti þessari brtt.

Þá þykir mjer rjett að fara fám orðum um þau andmæli, sem fram hafa komið gegn frv. í heild sinni, og þær aths., sem gerðar hafa verið við það. — Hv. 3. þm. Reykv. hefi jeg engu sjerstöku að svara. Honum svara jeg um leið og jeg svara hv. 2. þm. Eyf. Hann sagði, að undirbúningur undir frv. væri í engu lagi og að við gætum ekki sagt, að þeir útgerðarmenn, sem andmælt hafa frv., hefðu annara hagsmuna að gæta en íslenskra. Þeir, sem hann virðist taka mest tillit til, eru 3 útgerðarmenn á Siglufirði, sem sent hafa skeyti um málið. Mjer er nú sönn ánægja að kryfja þetta skeyti til mergjar. Í fyrsta lagi stendur aðeins undir skeytinu „Í stjórn útgerðarmanna í Siglufirði.“ En þeir koma ekki fram fyrir hönd fjelagsins, eins og m. a. má marka af því, hvernig þeir byrja skeytið: „Undirritaðir útgerðmenn í Siglufirði.“ Hvergi er heldur talað um neina atkvgr. eða umboð. Og hverjir eru þessir menn, sem skrifað hafa undir? Sá fyrsti er norskur konsúll á Siglufirði, annar er verslunarstjóri fyrir útlenda selstöðuverslun og sá þriðji er skrifstofumaður hjá norskum kaupmanni. Það virðist því ekki ofmælt, þótt sagt sje, að þessir herrar hafi fleiri hagsmuna að gæta en íslenskra. Tveir þessara manna hafa aldrei nálægt útgerð komið, svo jeg viti. Með leyfi hæstv. forseta vildi jeg mega lesa upp þetta ágæta Siglufjarðarskeyti. Þar stendur í upphafi:

„Undirritaðir útgerðarmenn í Siglufirði telja frumvarp það til einkasölu á síld, er fram er komið á Alþingi, stefna síldarsölumálum Íslendinga yfir höfuð mjög í tvísýnu meðan ekki er ráðin betri bót á landhelgisgæslu fyrir Norðurlandi um síldveiðitímann, bæði að því er snertir veiðina sjálfa og þó einkum verkun á afla útlendra skipa innan landhelgi.“ — Menn athugi þetta „meðan ekki er ráðin betri bót en nú er“ o. s. frv. Rökrjett hugsun skeytisins er sú, að þegar búið er að ráða betri bót á landhelgisgæslunni fyrir Norðurlandi, sje síldarsölumálum Íslendinga ekki stefnt í tvísýnu. Síðan heldur skeytið áfram: „Einnig fyrirbyggir frv. ýmiskonar nýjar verkunartilraunir á síld, sem nú er í aðsigi hjá ýmsum síldarframleiðendum. bæði ýmiskonar kryddun, flatningu o. fl. Af þessum ástæðum meðal annars leyfum vjer oss að skora á Alþingi að samþykkja ekki framannefnt frumvarp.“

Ef þetta er borið saman við frv. það, sem hjer er til umræðu, mega menn sjá það glögt, að hjer er um beina rangfærslu að ræða, því að alvarlegar og margvíslegar tilraunir til nýrrar verkunar er einmitt einn aðaltilgangur frv. Ef á að fara að gera mikið úr svona skeyti, þá held jeg, að bjóða megi Nd. Alþingis flest. Þá heldur skeytið áfram: „Aftur á móti teljum vjer nauðsynlegt, að unnið sje að því að útvega markað fyrir síld utan Svíþjóðar“ — einmitt það, sem frv. fer fram á — „sömuleiðis að hindra síldarsöltun til útflutnings fyrir 20. júlí“ — mjög svipað fer frv. fram á — „og að skerpa eftirlitið með ólöglegri síldveiði og síldarverkun útlendinga“, — það vakir einmitt fyrir okkur flm. með frv. — „ennfremur að útflutningsgjald á síld verði lækkað að miklum mun og Íslendingar með því gerðir samkepnisfærari en nú er við útlendinga, er fiska utan landhelgi. Teljum þessar ráðstafanir til stórra bóta og skorum á Alþingi að vinna að þeim.“

Svo mörg eru þessi orð, og vona jeg, að hv. þdm. sjái, að þetta er allmerkilegt skjal. Alt þetta vakir fyrir okkur flutningsmönnum frv. og er tilgangur þess, enda felst flest af því beinlínis í orðum frv., nema lækkun á útflutningstolli, sem vitanlega á ekki heima í þessu frv. Aftur á móti er nú verið að afnema tunnutollinn með vörutollslagabreytingunni. Ástæður þessara manna til að vera á móti frv. eru því á engum rökum bygðar.

Hv. 2. þm. Eyf. gat um það, að ekki lægju fyrir nein meðmæli með þessu frv. frá neinum, sem hlut ættu að máli. Jeg hefi víst þegar tekið fram, að ef ekki koma mótmæli, þá áliti jeg, að það megi telja sama sem meðmæli. En nú get jeg upplýst það, að svo að segja allir útgerðarmenn í Reykjavík eru þessu máli fylgjandi og fjelag íslenskra botnvörpuskipaeigenda hefir jafnvel gert samþykt um það. Ef hv. 2. þm. Eyf. er svo vantrúaður, að hann trúir ekki fyr en hann tekur á, get jeg útvegað honum skrifleg gögn um þetta. (BSt: Jeg sagði aðeins, að jeg hefði ekki sjeð nein meðmæli með frv.). Annars vil jeg leyfa mjer að vekja athygli á því, að það var ekki jeg, sem byrjaði að nota orðið „leppar.“ En sjeu til hjer á landi menn, sem eiga slíkt nafn skilið, þá eru þeir einkum á Siglufirði. Og jeg held, að háttv. 2. þm. Eyf. (BSt) geti ekki kvartað undan meðferðinni á Siglfirðingum, þótt ekkert tillit sje tekið til skeytis þessa. Ef allir hefðu skrifað undir það, bæði þeir sem eiga skip og gera út, og hinir, sem versla með síld, þá væri alt öðru máli að gegna.

Þá kem jeg að ræðu hv. þm. V.-Sk. (JK). Við hana hefi jeg svo margt að athuga, að jeg treysti mjer til þess að halda klukkutíma svarræðu. En það ætla jeg þó ekki að gera nú, því að búast má við, að tækifæri gefist til þess síðar. En það vil jeg segja hv. þm., að það er mikill munur á ríkiseinkasölu og lögvernduðum sölufjelagsskap eins og hjer ræðir um. Og þótt jeg viðurkenni, að einkasala sje óheppilegt spor, þá er þó engin regla án undantekningar. Þetta þekkir hv. sessunautur minn.

Um kjöttollinn er erfitt að tala í heyranda hljóði hjer á hinu háa Alþingi, því að það mál snertir of mikið viðskifti okkar við eina sjerstaka þjóð, en ef hv. þm. (JK) vildi leita álits þeirra manna vestan og norðan, sem við þessa atvinnugrein hafa fengist, þá er jeg sannfærður um, að það verður einróma á þá leið, sem jeg hefi lýst.

Þá sagði háttv. þm., að tilganginum með frv. mundi ekki náð. Það má vel vera, að hann náist ekki allur, en þótt hann næðist ekki nema að hálfu leyti, tel jeg ekki áhorfsmál að samþykkja frv.

Þá sagði hv. þm., að of þröngur markaður bagaði framkvæmdir fjelagsins. En þess ber að gæta, að markaðurinn er þröngur einmitt vegna þess, að við höfum ekki lært að verka síldina eins og óskað er. Þetta hefi jeg áður tekið fram og skal ekki fjölyrða meira um það.

Þá var hv. þm. að tala um, að ekki væri einkasala á kjöti. Jú, það er að vísu rjett, að svo er ekki, en það stappar þó mjög nærri því. Nú á að kaupa sjerstakt skip til flutninga á kældu kjöti, og jeg veit ekki betur en að S. Í. S. eigi að hafa allan veg og vanda af þeirri kjötsölu og að ríkissjóður hafi lagt fram fje til skipskaupanna. Við erum ekki að biðja um neitt tillag frá ríkissjóði, því að það væri tilgangslaust. Við viljum aðeins reyna að draga örlítið úr útgjöldum okkar og reyna að fá betri markað fyrir síldina. Það er ekki von, að þessi atvinnuvegur geti blessast, þegar síldin er seld ár eftir ár langt undir framleiðsluverði. Og þar að auki ber að gæta þess, að ríkissjóður tekur stundum 15%–20% af söluverði síldarinnar, svo að hann mundi missa spón úr askinum sínum, ef atvinnuvegurinn færi í kaldakol. Nei, við erum ekki að biðja um neinn styrk, heldur ofurlitla lagavernd fyrir atvinnuveg okkar.

Að endingu vil jeg benda hv. þm. (JK) á það, að jeg hefi reynt að gera mjer það að reglu síðan jeg eignaðist sæti hjer á hinu háa Alþingi, að leggja ekki mikið til þeirra mála, sem jeg verð að viðurkenna, að jeg ber lítið skyn á, og jeg vil gefa honum það heilræeði, að fylgja mínu fordæmi í þessu efni.