12.02.1926
Neðri deild: 5. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2109 í B-deild Alþingistíðinda. (1769)

15. mál, útsvör

Bernharð Stefánsson:

Eins og minst hefir verið á, samþykti þessi deild í fyrra að skipa milliþinganefnd til þess að undirbúa löggjöf um þetta efni og fleira. En þessu var breytt í hv. Ed. og stjórninni falið að undirbúa málið. Mun það hafa átt að vera sparnaðarráðstöfun. Jeg býst nú við, að undirbúningur stjórnarinnar og aðstoð sú, sem hún hefir fengið, muni hafa kostað eitthvað, og af byrjuninni hjer má ráða, að meðferðin í þinginu muni kosta eitthvað töluvert. Mjer sýnist útlit fyrir, að rætast muni það, sem jeg sagði um þetta efni í fyrra.

Jeg ætla ekki langt út í efni frv. við þessa 1. umr. Það eru aðeins tvö atriði, sem jeg vildi drepa á. Hið fyrra er það — og á það hefir ekki verið minst hjer — að frumvarpið gerir ráð fyrir, að reikningsár sveitarfjelaganna skuli vera almanaksárið, en ekki fardagaárið eins og verið hefir. Jeg mælist til þess, að nefnd sú, sem fær málið til meðferðar, athugi vandlega, hvort þessi breyting geti talist heppileg. Jeg get búist við, að heppilegt muni þykja, að reikningsár þeirra sveitarfjelaga, sem kauptún fylgja, sje almanaksárið, en í sveitum efast jeg um, að það gefist vel. Það er svo margt í sveitunum, sem miðað er við fardaga, og eftir minni reynslu tel jeg fardagaárið heppilegra þar. Það má benda á fátækraframfærslu, sem miðuð er við fardaga. Sama er að segja um fræðslukostnað. Hann verður til að vetrinum og er miðaður við veturinn, en ekki almanaksárið. Jeg óska, að nefndin athugi, hvort ekki geti komið til mála, að reikningsár þeirra hreppa, sem eru kauptún, sje almanaksárið, en í sveitahreppum gildi fardagaárið eins og verið hefir.

Þá er hitt atriðið, og hefir þegar verið á það minst. Jeg viðurkenni, að sú skifting útsvaranna milli heimilis- og atvinnusveitar, sem frv. gerir ráð fyrir, geti í fljótu bragði virst rjettmæt, en jeg er hræddur um, að þetta fyrirkomulag muni reynast ærið þungt í vöfum, og því fylgir talsverð skriffinska. Í sumum tilfellum getur þetta ef til vill orðið óframkvæmanlegt. Vona jeg, að hv. nefnd athugi þessi atriði vel. — Skal jeg svo ekki lengja umræður frekar að sinni.