16.03.1926
Neðri deild: 32. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2138 í B-deild Alþingistíðinda. (1773)

15. mál, útsvör

Jón Baldvinsson:

Það er mjög eðlilegt, að það sjeu skiftar skoðanir um þetta mál og furða, að allshn. skuli hafa komist með álit sitt á einu skjali, eins mikið og deilt hefir verið um þetta á undanförnum þingum. Mjer finst það höfuðkostur þessa frv. samræmingin og takmörkun á þeim eltingaleik um útsvör á einstaka menn, sem átt hefir sjer stað á síðustu árum. Þess hefir verið getið hjer, að menn hafa þóst kenna þessa eltingaleiks síðan samþykt var lagaheimild fyrir Reykjavík til þess að leggja útsvör á menn, sem lögskráðir eru á skipin. En með því var ekki annað gert en það að veita Reykjavík jafnrjetti við aðrar sveitir landsins, þótt það væri öðruvísi orðað, og var það ekki nema sjálfsagt og eðlilegt. En þetta á að hverfa eftir frv., og tel jeg það rjett eins og högum er háttað hjer á landi, að þeir, sem stunda atvinnu utan heimilis síns, sjeu útsvarsfrjálsir.

Áður en jeg vík að mínum brtt., skal jeg geta þess að jeg er ekki sammála meiri hluta allshn. um tvær brtt., er hann flytur á þskj. 124. En það er 2. og 3. brtt. Það er vikið að þessu í nál. og þess getið, að nefndin sje ekki sammála um þetta. Jeg vildi fylgja stefnu frv. um það að láta sem minst leggja á einstaka menn utan heimilissveitar þeirra. En annars er það eðlilegt í umræðum um svona mál sem þessi, að það komi fram sín skoðunin fyrir hvert kjördæmi. Það eru fá mál, sem eru eins undirorpin hreppapólitík sem útsvarsmálin. Það á sitt við á hverjum stað, og svo verður togstreita um það.

Þá skal jeg leyfa mjer að víkja að brtt. mínum á þskj. 134, en þær eru hvorki margar nje flóknar. Þess er getið í 3. gr. frv., ef sveitarstjórn þyki sýnt, að innheimtar tekjur hrökkvi ekki til greiðslu gjalda, þá geti hún ákveðið framhaldsniðurjöfnun til greiðslu þess, sem á vantar, þannig, að því verði bætt við útsvar hvers einstaks gjaldanda eftir ákveðnu hundraðshlutfalli. Mjer þykir þetta óþarflega langt gengið og vil undanþiggja þá fátækustu frá þessu viðbótarútsvari. Það mun vera svo um þessi lægri útsvör, að þar er farið svo langt, sem álitið er, að menn þessir geti borið. Það er eignalaust fólk sem ekki er fært um að bera hærra útsvar. Auk þess mundi það oft og einatt ekki svara kostnaði að innheimta þessa viðbótarálagningu á þessum lágu útsvörum, sem mundi kannske ekki nema nema nokkrum aurum eða fáum krónum. Því hefir mjer fundist rjett og lagt svo til, að ekki skuli leggja þetta viðbótarútsvar á 80 króna útsvar eða lægra í kaupstöðum eða kauptúnum og 40 króna útsvar eða lægra annarsstaðar.

Önnur brtt. mín er við 6. gr. II. 1. Þar segir, að ekki megi leggja bæði á fjelag og fjelagsmann vegna eignar hana í fjelagi o. s. frv. Þetta legg jeg til, að verði felt niður. Þessi heimild virðist að vísu vera sanngjörn, þegar fljótt er á litið, en er mjög varhugaverð. Það getur vel verið, að sinni reglunni sje fylgt í hverju sveitarfjelagi, og svo ef til vil1 sinni reglunni hvert árið. Svo getur þetta líka orðið til þess að skaða sveitarfjelögin. Í skattalögunum er gert ráð fyrir því, að hlutafjelög greiði hærri skatt en einstakir menn. Ef sá siður yrði upp tekinn að leggja eingöngu á mennina en sleppa fjelögunum, þá gæti það orðið til þess, að sveitarfjelögin töpuðu miklu fje. Þessi fjelög eru vitanlega ekkert annað en samsafn af eign einstakra manna. Jeg sje ekki annað en það sje rjett hjer að leyfa niðurjöfnunarnefndum að leggja hjer á eftir efnum og ástæðum eins og áður, og gera ekki þá undantekningu, sem felst í þessu ákvæði.

Þriðja brtt. mín er við 17. gr. og er þess, efnis að fella burt, að konur geti skorast undan að vera í kjöri til niðurjöfnunarnefndar. Hjer finst engin ástæða til þess, að þeim sje leyft að skorast undan þessum starfa frekar en karlmönnum. Ef menn vilja kjósa þær, þá verða þær að sætta sig við það, enda hygg jeg, að konur hirði ekki um að fá þetta ákvæði inn.

Fjórða, fimta og sjötta brtt. mín hljóða um það sama, að fella niður ákvæði frv., er lúta að því, að atvinnumálaráðuneytið hafi fullnaðarúrskurð um útsvarsupphæð. Jeg get tekið undir með hv. frsm. (PO), að mjer hefði fundist eðlilegast, að gamla reglan hefði haldist, að sýslunefndir og bæjarstjórnir hefðu haft æðsta úrskurðarvald um útsvarskærur eins og tíðkast hefir. En í stað þess hefir það verið sett inn í frv., að yfirskattanefnd skuli úrskurða um þessi mál. Þetta hefir verið sett líklega vegna þess, að mönnum hafa fundist sumar bæjarstjórnir ekki fara vel með þetta vald sitt, og því viljað fá rjettlátari aðilja. En jeg hygg nú, að úrskurðir bæjarstjórna og sýslunefnda hafi oftast verið nærri lagi. Þó jeg sje þeirrar skoðunar, að gamla reglan hefði vel getað gilt, þá hefi jeg ekki haft á móti því að yfirskattanefndirnar úrskurði um útsvarskærurnar, úr því það er nú einu sinni komið á, því jeg býst varla við, að hægt sje að færa það aftur í gamla horfið, sem jeg þó hefði frekar kosið. En hitt finst mjer alveg ótækt, að hægt sje að skjóta úrskurði þeirra til atvinnumálaráðuneytisins. Ráðuneytin eru pólitískustu stofnanirnar, sem til eru í landinu, og treysti jeg þeim alls ekki til þess að fella rjettlátan dóm um þessi efni. Það finst mjer betra, að yfirskattanefndirnar hafi fullnaðarúrskurðarvald, og sje alls ekki hægt að fara með það lengra. Mjer skilst líka, að það geti ekki verið neitt aðalatriði fyrir stjórnina að halda í þetta ákvæði. Gjaldendum ætti að geta verið sæmilega borgið, þótt málin yrðu ekki rekin lengra en til yfirskattanefndar.

Jeg hefi nú hraðað orðum mínum til þess að vera búinn að ljúka máli mínu áður en fundartími væri á enda. En jeg hefði þó gjarnan viljað víkja að einstöku tillögum, sem fram eru komnar.

Vil jeg þá fyrst víkja að brtt á þskj. 125, frá hv. þm. Borgf. (PO). Það er að vísu rjett hjá hv. þm. Borgf., að útsvarsálagning á atvinnurekstur er nokkuð miklu þrengri en í núgildandi lögum. Í fyrstu var ákveðið, að ekki skyldi leggja á báta, sem stunduðu veiði við sama fjörð og heimilissveit lá við; svo var þetta rýmkað og sett: við sama fjörð og flóa. En það hefir á undanförnum árum verið hringlað mikið í þessu og svo langt gengið, að fram komu tillögur, sem breyttu nöfnum á stöðum frá því sem stendur í landafræðinni. En verði nú þessi ákvæði öll feld niður, þá fæ jeg ekki betur sjeð en að aum sveitarfjelög verði allhart úti, t. d. Reykjavík og Siglufjörður. Það verður áreiðanlega talsverður skaði fyrir þessa staði. En hitt skal jeg játa, sem háttv. þm. Borgf. vjek að, að þau kjör, sem útgerðarmenn verða að sæta í sumum útgerðarplássum, eru afarhörð. Hjer var samþ. till. á þingi í fyrra, að stjórnin skyldi rannsaka, hvaða kjörum útvegsmenn yrðu að sæta í verstöðvum umhverfis land. Það getur verið, að stjórnin hafi nú fengið þessar upplýsingar og geti skýrt frá þeim nú. En jeg álít, að það sje ekki rjetta leiðin að fella niður útsvarsskylduna í þessu tilfelli, heldur setja takmörk fyrir því, hversu mjög megi íþyngja mönnum með útsvörum í slíkum uppsátursstöðum. En rjett er, að þessir staðir hafi einhverjar tekjur af útveginum, og því má þessi till. engan veginn ná samþykki.

Jeg skal nú víkja örfáum orðum að brtt. hv. minni hl. nefndarinnar, hv. þm. Mýr. (PÞ). Þær eru margar, sem von er, því hann fer fram á svo gagngerða breytingu á frv., að hann vill algerlega breyta reglunum um álagningu útsvara. Jeg vil ekki segja, að sú tilhögun, er háttv. þm. Mýr. hugsar sjer, sje mjög miklu ósanngjarnari en hin. En jeg er hræddur um, að hún verði erfið í framkvæmd, eins og nú stendur. Annars verð jeg að telja það galla á till. hv. þm. Mýr., að ef ekki er hægt að koma þeim að öllum, þá er enga þeirra hægt að samþykkja, vegna þess, hvernig þær eru upp settar, enda þótt hægt væri að fallast á eitthvað af þeim út af fyrir sig. Það gerir sá grundvöllur, sem þær yfirleitt byggja á.

Lýk jeg svo máli mínu með þeirri ósk, að hv. þd. fallist á till. mínar. Og svo vil jeg sjerstaklega taka það fram, að 2. og 3. till. nefndarinnar eru ekki í samræmi við stefnu frv., og má því ekki samþykkja þær.