17.03.1926
Neðri deild: 33. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2155 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

15. mál, útsvör

Bernharð Stefánsson:

Jeg skal ekki tefja tímann lengi, enda tel jeg ekki þörf á að tala mikið um einstakar greinar frv. Aftur á móti hefði jeg ýmislegt að segja um málið alment, en það á ekki við við þessa umræðu. Þó að jeg hafi ýmislegt við frv. að athuga, hefi jeg ekki borið fram neinar brtt., en vel má vera, að jeg geri það við 3. umr.

Í nál. allshn. á þskj. 124 eru taldir í 4 liðum helstu gallar, sem nefndin telur vera á núverandi útsvarslöggjöf. Um 1. liðinn er jeg samþykkur nefndinni og viðurkenni, að nauðsyn sje á að fá ein lög um þetta efni fyrir alt, og að frv. fullnægir þessu, tel jeg þess helsta kost, því að þannig er bætt úr ósamræmi, sem verið hefir á þessari lögggjöf. Um hina liðina getur frekar orkað tvímælis, hvort eins mikil þörf er þar á breytingum og haldið hefir verið fram.

Í 2. gr. frv. er ákveðið, að reikningsár sveita skuli vera almanaksárið. Jeg drap á þetta atriði við 1. umr. og ljet í ljós það álit, að þó að jeg gæti fallist á, að þetta væri hagkvæmt fyrir hreppa, sem eru kauptún, þá efaði jeg, að það væri heppilegt til sveita. Nefndin hefir nú samt sem áður öll fallist á að halda þessu ákvæði, enda hefði þurft að umsteypa frv. töluvert, ef þessu hefði verið breytt. Jeg verð samt að segja, að hvorki ræður hv. frsm. nje annara hafa sannfært mig um nauðsyn þessa ákvæðis. En jeg kannast við, að hjer er ekki um svo þýðingarmikið atriði að ræða, að ástæða sje til þess að gera veður út af því, og þó að telja verði þetta sveitunum frekar til óþæginda, býst jeg ekki við að af því hljótist nein veruleg vandræði, og mætti því sætta sig við það, ef aðrar rjettarbætur fylgdu, sem gerðu meira en vega móti þessum galla; en jeg er því miður ekki viss um, að þær sjeu til í frv.

Nefndin telur einn af göllum núgildandi löggjafar þann, að heimildin til þess að leggja á menn útsvar utan heimilissveitar sje orðin alt of víðtæk. Úr þessu á frumvarpið að bæta, og hefir nefndin fallist á þá stefnu. Jeg get fallist á að takmörkun í þessu efni hafi verið nauðsynleg, en jeg verð að segja, að mjer finst frv. sjálft og tillögur nefndarinnar, einkum meiri hluta hennar, ganga of langt í þessu efni. Sjerstaklega er það athugavert, að það er ekki aðeins dregið úr rjetti atvinnusveitar til útsvara, heldur fylgja þessum litla rjetti, sem atvinnusveitin hefir eftir, mjög mikil óþægindi.

Jeg á við skiftingu útsvaranna eftir 9. gr. Jeg held, að af þessari skiftingu leiði óþolandi vafstur og skriffinsku, sem hægt hefði verið að komast hjá. Mjer hefði fundist rjettara, að atvinnusveitin, að svo miklu leyti sem hún hefir rjett til útsvara, legði þau á sjálf. Það hefði átt að færa öll ákvæði 9. gr. undir 8. gr. Mjer finst þetta fyrirkomulag, eins og gert er ráð fyrir því, muni vera nær því óframkvæmanlegt. Hæstv. atvrh. telur þetta fyrirkomulag gott og heldur, að mönnum þyki það betra en hitt, þegar þeir fara að venjast því. Hann segir, að svipað fyrirkomulag muni vera í Danmörku og Noregi. Jeg er því ekki vel kunnugur, en jeg held, að í Noregi sje skattur til sveitarfjelaga lagður á með líku móti og tekju og eignarskattur, það er að segja, ekki með handahófsálagningu, heldur hundraðsgjaldi af tekjum og eignum, og er þá miklu hægara að fást við þetta heldur en hjer, þar sem um niðurjöfnun er að ræða eftir efnum og ástæðum. Þó að þetta gangi sæmilega í Noregi, er ósannað, að það gangi vel hjer, þar sem um öðruvísi niðurjöfnun er að ræða. Að því leyti, sem tillögur hv. þm. Mýr. (PÞ) ganga í þá átt að fella niður þessa skiftingu, þannig, að atvinnusveitin leggi á alt það útsvar, sem henni ber að fá, þá tel jeg þær til bóta og mun greiða þeim atkvæði. Jeg tel það fyrirkomulag ganga skemmra í að skerða rjett atvinnusveitarinnar. Þó þykir mjer lágmarkið sett og hátt. Mjer þætti hæfilegt lágmark 1000 kr., og kem líklega með brtt. í þá átt við 3. umr.

Þó að frv. og till. meiri hl. nefndarinnar gangi yfirleitt í þá átt að draga úr rjetti atvinnusveitarinnar til útsvara, hefir einum nefndarmanni þó ekki þótt nógu langt gengið og flutt tillögu um að undanþiggja skip greiðslu af upplögðum afla.

Hæstv. atvrh. hefir lagt á móti þessar till. og bent á, að Siglufjörður t. d. yrði hart úti, ef þessi till. næði samþykki. Jeg er hæstv. atvrh. þakklátur fyrir þetta Það er svo um Siglufjörð og aðra staði þar sem líkt er ástatt, að þeir mynu verða mjög hart úti, ef þetta yrði samþykt. Jeg álít því tillöguna hættulega. Af henni mundi leiða svo stórfeldan tekju missi fyrir sum sveitarfjelög, að miklum vandkvæðum yrði bundið að breyta niðurjöfnun útsvara svo, að þær tekjur næðust upp á öðrum sviðum. Undanfarið hefir viðleitnin altaf stefnt að því að auka rjett atvinnusveitar. Tel jeg því ekki rjett að snúa við blaðinu eins greinilega og hjer er gert. Það er síður en svo, að atvinnusveitin eigi engar kröfur á hendur aðkomufólks og atvinnurekstrar utan sveitarmanna, sem þar fer fram. Það má benda á margskonar kostnað, sem leggja verður í og aðkomufólk nýtur engu síður en íbúar sveitarinnar, t. d. vegi, vatnsleiðslu, götulýsingu o. fl. Á Siglufirði bætist einn liður við að mestu leyti vegna aðkomufólks, og hann nokkuð hár. Það er kostnaður við löggæslu.

Mjer finst ekki fult samræmi í tillögum þeim, sem hv. þm. Borgf. (PO) hefir gert með samnefndarmönnum sínum um ýmsar gjaldakvaðir, og þessari undanþágutill. sama hv. þingmanns. Hann telur t. d. rjett, að útsvar sje goldið af laxveiði í atvinnusveit. Jeg held þó, að oft megi telja laxveiðina einskonar leik, og varla getur þar verið um mikinn atvinnurekstur að ræða. Mjer finst, að atvinnusveitin ætti ekki að vera rjetthærri gagnvart laxveiði en upplagningu á afla skipa.

Þar sem jeg á sjálfur enga brtt. við frv., sje jeg ekki ástæðu til að fara frekar út í það að þessu sinni, en mun leggja fleira til við 8. umr. Það er þessi till. hv. þm. Borgf., sem jeg vil sjerstaklega mótmæla, þar sem hún mundi m. a. koma mjög hart niður á mínu kjördæmi, ef hún yrði samþykt.