27.03.1926
Neðri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (1913)

52. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg vil segja hv. þm. N-Ísf. (JAJ), að þótt þetta frv. verði ekki samþ., verður það ekki til neins ljettis fyrir útgerðina, því að hún verður að borga þessi gjöld hvort sem er. — Hv. þm. sagði, að eftir því, sem lögveðum fjölgaði, yrðu skipin óveðhæfari. Það er auðvitað rjett, en hjer er um sáralitlar fjárhæðir að ræða, að eins nokkra tugi króna, sem varla geta spilt fyrir veðhæfinu. En það, sem mest eykur óvissuna í þessum efnum og gerir það að verkum, að nær ómögulegt er að fá lán gegn veði í mótorbátum, er það, að á hvaða tíma sem er getur komið fram krafa frá sjómönnum á skipinu, jafnhá eða hærri en skipið er vert. — En það gæti komið sjer mjög illa fyrir skipin, ef Reykjavíkurhöfn gerði það, sem hún hefir rjett til, og gengi hart eftir, því að eftir gildandi lögum hefir hún haldsrjett í skipunum. Er það því alveg eins þeim til ljettis eins og byrðar, að láta lögveð í skipunum.

Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) sagði, að það gæti vel komið fyrir, að aðrir kaupstaðir kæmu á eftir og heimtuðu þessi sömu rjettindi, en það er alls ekki sambærilegt, þegar það er athugað, hve mikið fje hefir verið lagt í höfnina hjerna og hve hún er mikið fullkomnari en allar aðrar.