31.03.1926
Neðri deild: 45. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (1920)

52. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Pjetur Ottesen:

Jeg get að miklu leyti skírskotað til orða hæstv. atvrh. (MG). Meirihl. allshn. er á móti frv., eins og nál. ber með sjer. Frv. hefir að vísu breytst dálítið, en þó stendur enn það ákvæði, sem margir nefndarmenn voru sjerstaklega á móti að yrði samþykt. Það hefir verið bent á, að sjálfsögð afleiðing af, að Reykjavík fengi þessa heimild, yrði sú, að aðrir kaupstaðir vildu fá hana líka, og eins og hæstv. atvrh. (MG) tók fram, yrði þetta til þess, að bankarnir vildu síður lána út á skip. Kaupstaðirnir mundu ekki vera eins á verði með að innheimta gjöldin, og þau mundu safnast saman. Mín aðstaða í málinu er því óbreytt eftir sem áður.