03.03.1926
Neðri deild: 19. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í C-deild Alþingistíðinda. (1933)

27. mál, verslunarbækur

Frsm. (Árni Jónsson):

Nefndin hefir athugað frv. þetta, og eins og nál. ber með sjer, hefir meiri hl. hennar komist að þeirri niðurstöðu, að það sje fremur til bóta, að það fái fram að ganga. Í sjálfu sjer er þetta smámál og því litlu við það að bæta, sem um það er sagt í greinargerð frv. og nál.

Eins og kunnugt er, þá eru viðskifti manna út um land að mestu reikningsviðskifti. Þessvegna er það nauðsynlegt, að þeim sje hagað á þann hátt, að viðskiftamennirnir geti með hægu móti haft eftirlit með þeim og sjeð sem oftast, hvernig þau standa. En á þessu hefir tíðum orðið misbrestur; frumbókarafritin, sem viðskiftamennirnir fá, vilja stundum glatast eða velkjast svo, að þau verða ólæsileg með öllu. Aftur á móti hafa hinar svonefndu „kontrabækur“ sífelt tíðkast, en enginn lagastafur fyrir því, að þær hafi sama rjett og frumbókarafritin. Víðast hvar hefir engin tregða verið á því, að verslanir tækju upp þessar „kontrabækur“, þegar viðskiftamenn óskuðu þess, án þess þó að þeir ættu heimting á því. En verði frv. þetta að lögum, þá eiga viðskiftamennirnir heimting á því. Að vísu skal það játað, að þetta fyrirkomulag hefir aukið starf í för með sjer fyrir verslanirnar, en ætlast er til, að á móti því komi sú trygging viðskiftamönnunum til handa, sem frv. gerir ráð fyrir.

Einn nefndarmaður, hv. þm. V.-Sk. (JK), hefir ekki getað orðið okkur hinum samferða, og mun hann gera grein fyrir sinni afstöðu til málsins.