27.04.1926
Neðri deild: 63. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (2004)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Tryggvi Þórhallsson:

Það eru aðeins örfá orð, sem jeg vil bæta við þær umræður, sem hjer eru orðnar, og jeg gleðst fyrirfram yfir væntanlegum úrslitum þessa máls, því nú tel jeg fullvist, hvernig hv. deild ætlar að afgreiða þetta frv. Jeg þarf aðeins að beina fáeinum orðum til háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) , og skal jeg ekki vera mjög harðleikinn við hann, því hann sagði margt gott og þarflegt í þessu máli, sem bætti mjög aðstöðu mína, og hann greiddi þannig fyrir æskilegustu afgreiðslu þessa máls. Þó að jeg þurfi að vísu að gera nokkrar athugasemdir við ræðu hans, skal jeg fara mjög vægilega í sakirnar.

Hv. þm. (MJ) sneiddi að stjórn Búnaðarfjelags Íslands fyrir afskifti hennar af þessu máli. Jeg hefi þegar skýrt frá, hvernig þessu er varið, og að jeg vilji, að ríkisstjórnin styrki Búnaðarfjelagið til að fá aftur þá aðstöðu, sem það hafði fyr. Þetta, að stjórn Búnaðarfjelags Íslands og Mjólkurfjelag Reykjavíkur hafi haft líka aðstöðu til að fylgjast með í málinu, um það vil jeg aðeins segja, að Mjólkurfjelagið gat vel hafa fengið ýms skeyti eða upplýsingar, sem mjer var ókunnugt um, vegna þess að jeg veit um fæst, sem Mjólkurfjelagið tekur sjer fyrir hendur, jeg er þar aðeins „passívur“ meðlimur.

Jeg ætla nú, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hjer fáein atriði upp úr gerðabók Búnaðarfjelags Íslands frá 15. des. 1925, níu mánuðum eftir að hv. þm. (MJ) segir, að jeg hafi átt að láta málið til mín taka. Þar stendur:

„5. Stjórn Mjólkurfjelags Reykjavíkur kom á fundinn með erindi þess efnis, að Búnaðarfjelag Íslands sæi um, að Mjólkurfjelag Reykjavíkur fái sem heppilegust kjör við innkaup á Noregssaltpjetri næsta ár, og býðst jafnframt til, að Búnaðarfjelag Íslands hafi eftirlit með sölu og verði áburðarins.“

Mjólkurfjelagið hefir samkvæmt þessu gengið út frá því sem gefnu, að Búnaðarfjelag Íslands hefði þessa aðstöðu. Ef hv. 4. þm. Reykv. (MJ) vill rengja þessa bókun, vil jeg benda honum á, að það er flokksmaður hans, Valtýr Stefánsson, sem hefir bókað þetta, og jeg vænti, að háttv. þm. (MJ) rengi ekki Valtý um þessa bókun.

Að öðru leyti skal jeg ekki orðlengja um þetta.

Um deilur þær, sem orðið hafa í flokki hv. þm. (MJ) út af þessu máli, viðvíkjandi stefnum í verslunarmálum, tala jeg ekki, því að mjer er ósárt um, þótt flokksmenn hans bitist. Hv. þm. las allharðar ávítur yfir flokksmönnum sínum, sem hann taldi hafa brugðist undan merkjum frjálsrar verslunar, og hann las, ef svo má segja, þessa bannfæringu fríverslunarmanna yfir hæstv. fjrh. (JÞ), þó ekki væri með hringdum klukkum og steyptum kertum, var formálinn eigi ósvipaður samt. Háttv. þm. taldist nú ekki finna nema fjóra sanntrúaða fríverslunarmenn í flokki sínum, og eftir því að dæma virðast þeir vera farnir að týna tölunni, því að öðruvísi ljet í þeim skjá á síðasta þingi, en þó lasta jeg það ekki, síður en svo, þó að veðrabrigði nokkur hafi orðið síðan í herbúðum hv. þm. (MJ). Það fundust þó, að jeg held, ca. 5 rjettlátir í Sódóma.