10.03.1926
Efri deild: 24. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í C-deild Alþingistíðinda. (2053)

59. mál, gróðaskattur

Flm. (Jónas Jónsson):

Það þarf ekki langt mál til þess að svara ræðu hæstv. fjrh. (JÞ). Hann lýsti yfir þeirri persónulegu skoðun sinni, að það ætti ekki að leggja nú á aukna skatta. Jeg tók það fram áður, þótt það hafi farið fram hjá hæstv. fjrh. (JÞ), að þó þetta frv. yrði samþykt, þá getur ekki komið til mála, að neinn maður, sem er lítið fjáður, borgi þennan skatt. Hann fellur ekki á aðra en þá, sem breitt bak hafa fjárhagslega. Jeg tek það svo, er hæstv. fjrh. (JÞ) gengur út og vill ekki heyra svar mitt, að hann viðurkenni, að hann telji ekki málstað sinn neitt bættan með frekari umræðu um málið. En jeg vil benda á það, að hæstv. fjrh. (JÞ) var með því að leggja á þjóðina þunga skatta 1924, þó þá væri hið ískyggilegasta útlit, og fylgdu honum flokksmenn hans þá. Þetta sama þing hefir því átt þátt í því að leggja þungan skatt á efnalitla gjaldendur, þegar þess þurfti. En sá skattur, sem hjer ræðir um, kemur niður æðimikið betur en hinir fyrri skattar, sem þetta þing hefir samþykt. Jeg vil enn fremur benda á það, að líkur eru til, að hæstv. fjrh. (JÞ), eða einhver af hans hvötum, leggi fyrir þingið frv. um járnbrautarlagningu austur í sveitir. Jeg get vissulega ekki annað en lýst ánægju minni yfir þessu, og ef hæstv. fjrh. (JÞ) væri hjer viðstaddur, mundi jeg lýsa samúð minni með þessari viðleitni að bæta samgöngur við austursveitirnar. En ef hæstv. fjrh. (JÞ) þorir að leggja fje ríkisins í það að leggja járnbraut austur á suðurláglendið, en er hinsvegar á móti því, að býlum sje fjölgað í sveitunum, þá er það ljóst, að hann botnar í raun og veru ekkert í járnbrautarmálinu. því það er áreiðanlegt, að við höfum ekki ráð á að leggja járnbraut handa þeim einum, sem nú búa á suðurláglendinu. En við, sem trúum á breytingu á því ástandi, sem nú er, getum af þeirri ástæðu ekki annað en litið járnbrautarhugmyndina sem einn lið í þeirri þróun búnaðarins í þessum sveitum, sem við trúum, að geti orðið í nálægri framtíð, ef rjett er að farið. En á undan járnbrautinni þarf að koma fjölgun fólks á þessum stöðvum, en til þess þarf aukna ræktun og bygging landsins. Jeg get ekki annað en látið í ljósi mína djúpu hrygð yfir því, að hæstv. fjrh. (JÞ) skuli ekki skilja aðallínurnar í þýðingarmesta umbótamáli samtíðarinnar.