12.04.1926
Efri deild: 48. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í C-deild Alþingistíðinda. (2078)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Jónas Jónsson:

Það mun vera nóg að gera aðeins stutta athugasemd, þar sem stjórnarherinn virðist nú með öllu fallinn í valinn. Og „Generalarnir“ urðu fyrstir í gröfina.

Mjer finst, að jafnlærður maður og hæstv. núverandi forsrh. (JM) er ætti að vita, að á heimspekinni velta framkvæmdirnar. Ef þess vegna einhver flokkur hefir komist í mótsögn við þá heimspeki eða lífsskoðun, sem hann byggir á, er ekki gott í efni.

Jeg vil nú benda hæstv. forsrh. (JM) á það, að frv. þetta er einmitt borið fram um leið og formaður stjórnarflokksins mótmælir í einu af tímaritum landsins því, sem háttv. 1. landsk. (SE) kallar hinn mjúka kodda landssjóðs. Hæstv. ráðherra (JM) getur því ekki samrýmt þetta við lífsskoðun flokksins, og vill hann því hraða málinu óeðlilega gegn um þingið og alls ekki athuga það í nefnd.

Það er alveg óhugsandi, að hæstv. forsrh. (JM) sje svo blindaður, að hann sjái ekki, að með frv. þessu er opnuð leið fyrir alla hjeraðsskólana inn í ríkissjóðinn. Og þegar þess er ennfremur gætt, að fyrst og fremst hann, hæstv. forsrh. (JM), þm. Seyðf. (JóhJóh) og hv. 4. landsk. (IHB) hafa öll snúist við gagnvart Blönduósskólanum, frá því í fyrra, þá er það vitanlega af því, að þau sjá, að það verður að taka fleiri skóla yfir á ríkið, ef Reykjavíkurskólinn verður tekinn. Út frá þessu er það ofurvel skiljanlegt, að þessir háttv. þm. vilja flaustra málinu gegnum þingið, án þess að það verði athugað. En hæstv. ráðherra flýtti sjer ekki svo mjög að leggja málið fyrir þingið, að það hafi ástæðu til að flýta sjer mjög með afgreiðslu þess.

Þá hefir hæstv. ráðherra (JM) loks svarað þeirri fyrirspurn minni, hvort hann ætli að taka fleiri skóla yfir á ríkissjóðinn. Í svari hans kemur glögglega fram, að hann er ekki betur sjáandi í því máli nú en hann var gagnvart Blönduósskólanum í fyrra. Jeg var einmitt að halda, að hann sæi, að betra væri fyrir hann að taka alla unglingaskólana í einu heldur en einn og einn í senn. Með því snerist hann einn snúning fyrir marga. En annars þarf hann kannske að snúast einn snúning á ári, t. d. næsta ár vegna Borgarfjarðarskólans.

Ákvæði frumvarpsins um launakjör kennaranna eru alveg óverjandi, þar sem helmings munur er gerður á launakjörum kennaranna hjer og á Blönduósi. Hefir kannske sýslumaður, læknir eða prestur á Blönduósi minni laun en stjettarbræður þeirra annarsstaðar? Jeg held ekki. Væri því æskilegt, ef hæstv. ráðherra vildi útskýra, af hvaða ástæðum hann gerir þennan mikla mun á launum kennaranna við þessa skóla, þegar læknir og prestur hafa sömu laun á báðum stöðunum. Veit hæstv. ráðherra (JM) nokkurt fordæmi fyrir slíku? — Þetta, meðal annars, sýnir, hver þörf er á að rannsaka málið í nefnd.

Það gleður mig, að háttv. 4. landsk. (IHB) hefir nú tekið þann kostinn, sem henni var bestur, að gefast upp, og játa þar með sinn ranga málstað. (IHB: Jeg vil helst geta sannfært hv. 3. landsk.). Í nefndinni. — En jeg vil benda á, að það er venja, að fjhn. hafi öll launalög til meðferðar, og hjer er um að ræða að stofna 8 ný embætti. Þá þætti mjer vel hlýða, að hún fengi að fjalla um málið eftir að mentamálanefnd hefir haft það til athugunar.