12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í C-deild Alþingistíðinda. (2106)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Þórarinn Jónsson):

Jeg get sagt í örfáum orðum það, sem jeg þarf að segja. Háttv. forsrh. (JM) hefir nú svarað háttv. frsm. minni hl. (BSt) svo rækilega, að jeg get að mestu komist hjá að minnast á ræðu hans.

Háttv. frsm. minni hl. (BSt) játaði, að kvennaskólinn á Blönduósi hefði á sjer öll sjereinkenni kvennaskóla, og gæti hann því frekar aðhylst hann. En ekki væri hægt að segja hið sama um kvennaskólann í Reykjavík. Jeg gat þess áður, að jeg væri ekki alveg ánægður með fyrirkomulag Reykjavíkurskólans. En þrátt fyrir það get jeg ekki fallist á, að hann sje ekki sjerskóli, þar sem í honum er kent annað og meira en í almennum skóla. En eins og jeg tók fram í fyrri ræðu minni, er það á valdi þingsins, þegar skólinn er orðinn ríkisskóli, hvort það vill gera hann að húsmæðraskóla eða ekki. Og hann mundi fyr komast í rjett horf, ef ríkið hefði umráð yfir honum, en ella. Hefir það líka orðið til þess, að frv. fylgdust að.

Þá mintist hv. frsm. minni hl. (BSt) á kostnaðinn við húsabyggingu, sem mundi leiða af þessu frv. Þm. hafa þó venjulega ekki vílað það fyrir sjer að greiða unglingaskólum kostnað við byggingar, er bygðar voru áður en ákvæði þingsins voru gerð. Þetta yrði því aðeins sanngirniskrafa Blönduósskólans á hendur þingsins, þar sem hann hefir engan byggingarstyrk fengið nema litla upphæð nú á fjárl. En ef Reykjavíkurskólinn væri tekinn á ríkissjóð, sem kostar hann nú að öllu leyti, væri það auðvitað á valdi þingsins að ákveða, hvenær það byggir, og eins hvort það breytir honum frekar í húsmæðraskóla en nú er.

Hv. þm. (BSt) mintist líka á kostnaðinn í sambandi við fjárlögin. En þó að frv. þetta yrði samþ., er engin hætta á því, að farið yrði að gera nokkuð árið 1927, sem aukið gæti kostnaðinn við skólana. Býst jeg heldur ekki við, að stjórnin mundi leggja til, að nokkuð verði gert á næstu fjárlögum. það er því alveg óþarfi að vera að tala um þetta í sambandi við fjárlögin.

Hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) þarf jeg lítið að svara. Jeg er honum þakklátur fyrir ummæli hans um Blönduósskólann. En aðaldeiluatriðið er, hvort kvennaskólinn í Reykjavík sje sjerskóli fyrir konur eða ekki. Tel jeg hann hiklaust vera það, enda hefir hann sjerkenni slíkra skóla og kennir það, sem ekki er kent í almennum unglingaskólum. Má þar nefna t. d. útsaum, ljereftasaum, fatasnið, prjón og baldýringu. Er kanske álitamál, hvort þetta geti ekki verið enn fullkomnara en það nú er. En alt stendur það til breytinga. þá eru kend ýms innanhússtörf, þvottur o. fl. En alt þetta lýtur að sjerstöðu konunnar í þjóðfjelaginu.

Annars finst mjer ekki ástæða til að ræða þetta frekar, enda hefir hæstv. forsrh. (JM) rakið það allnákvæmlega, og ætla jeg því ekki að endurtaka það eða lengja umr. meira.