23.03.1926
Neðri deild: 38. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í C-deild Alþingistíðinda. (2137)

30. mál, vegalög

Bernharð Stefánsson:

Jeg hefi í rauninni ekki miklu að bæta við það, sem hv. 2. þm. Rang. (KlJ) nú hefir sagt. Jeg undraðist stórum, þegar jeg fyrst sá nál., og að meiri hl. hv. nefndar lagði til að fella þetta frv. mitt. Frá mínu sjónarmiði er þetta svo sjálfsagt sanngirnismál, að mjer datt alls ekki í hug, að nokkur færi að leggja stein í götu þess.

Hv. meiri hl. byggir álit sitt á tillögum vegamálastjóra. En mjer finst samt ástæður hans, eins og þær koma fram í nál., harla veigalitlar. Þar er því haldið fram, að umferð um veginn aukist ekki við það, að heilsuhælið komi í Kristnesi. En hv. 2. þm. Rang. (KlJ) hefir nú sýnt fram á, að umferðin hlýtur að aukast að stórum mun. Þá má og geta þess, að heilsuhælið er áætlað fyrir alt Norðurland, en ekki Eyfirðinga eina, og er því vegurinn þangað fyrir alla þá, sem hælið nota. En þetta skiftir auðvitað minstu máli. En hvað sem aukinni umferð annars viðvíkur, er það minna um vert í sjálfu sjer en hitt, að þarna verður heilsuhæli, sem ríkissjóður rekur, og verður þá að vera hægt að komast þangað frá Akureyri. Það er alls eigi trygt, að veginum verði haldið svo við, að hann verði ávalt fær fyrir bifreiðar, nema að ríkissjóður taki hann að sjer, Jeg er alls ekki að spá því, að Eyjafjarðarsýsla vilji ekki halda veginum við, en ríkið hefir þó ekki fulla tryggingu fyrir því, og Alþingi hefir ekki, að jeg fæ sjeð, vald til að krefjast þess af sýslunni.

Hv. meiri hl. leggur til, ef frv. verður felt, að veittar verði 10 þús. kr. til heilsuhælisins til vegagerðar. Fyrir þetta, út af fyrir sig, er jeg þakklátur hv. meiri hl., en formið á þessu þykir mjer all-undarlegt. Þetta atriði kemur ekki til atkvgr. að þessu sinni, en má jeg þá skilja það svo, sem það sje loforð um, ef frv. fellur, að hv. meiri hl. beri fram brtt. við fjárlögin, um að þessi upphæð verði veitt? En þó að þetta verði veitt á fjárlögum, þá er með því ekkert ákveðið um viðhald á þessum vegarspotta af veginum og heim að Kristnesi, sem mjer skilst þó, að háttv. meiri hl. ætlist til að hvíli á ríkissjóði. Þessvegna hefði hv. meiri hl. átt að bera fram brtt. við frv. um upptöku þessa vegarspotta í tölu þjóðvega. Ef samræmi á að vera í tillögum hv. meiri hl., sje jeg ekki annað en háttv. meiri hl. verði að óska þess, að frv. gangi til 3. umr., svo hann geti komið með þessa brtt.

Ein af ástæðum þeim, sem hafðar eru móti þessu máli, er sú, að hjer sje um innanhjeraðsveg að ræða. Um það atriði var talsvert rætt á síðasta og næstsíðasta þingi, þegar vegalögin voru hjer til umræðu, og jeg hefi bent á, að þetta er ekki fremur innanhjeraðsvegur en ýmsir aðrir, sem taldir eru í þjóðvegatölu. Hefi jeg sannað þetta oftar en einu sinni. (JAJ: Hverjir?). Jeg get nefnt t. d. Hvammstangaveginn og Biskupstungnaveginn. Fleiri svipuð dæmi mætti nefna.

Jeg skal ekki fjölyrða meira um þetta, en mælast til, að hæstv. forseti láti fara fram nafnakall um frv., svo það sjáist, hverjir vilja styðja þetta sjálfsagða sanngirnismál.