06.05.1926
Neðri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í C-deild Alþingistíðinda. (2304)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg hefi heyrt á ýmsum hv. deildarmönnum, að þeir hafa búist við löngu og miklu máli frá mjer, þar sem jeg er flm. frv. Munu þeir og hafa dregið það af því, að jeg hefi oft komið að þessu máli í umræðum, og sýnt viðhorf þess frá ýmsum hliðum. Hefir ekki farið dult, að jeg hafi álitið það stærsta og langþýðingarmesta málið, sem nú er á dagskrá með þjóðinni. En þetta mun ei fara svo sem menn hafa búist við. Jeg skal játa það, að jeg er farinn að þreytast á þessum löngu fundum dag eftir dag. Virðist mjer að einnig megi sjá þreytumörk á öðrum hv. þm., þar sem nú er ekki viðstaddur nema helmingur hv. þdm. Veit jeg því, að ekki þýðir að lengja mikið umræðurnar. — Við þetta bætist og enn það, að ekki þarf að fara út í einstök atriði þessa máls, þar sem háttv. frsm. minni hl. fjhn. (ÁÁ) hefir gert það mjög vel og rækilega. — En jeg vil láta það koma fram, að hvenær sem jeg tala um þetta og hvernig sem jeg er fyrir kallaður, þá tala jeg út frá þeirri bjargföstu sannfæringu, að hjer sje bent á þá leið, sem happadrýgst verður fyrir alda og óborna og öllum landslýð til mestrar blessunar.

Vil jeg sem flm. byrja á því, að þakka hv. minni hl. fjhn. undirtektir og meðferð þessa máls. Hann hefir skilað rækilegu og vel sömdu áliti og tekið alveg sömu stefnu í málinu og jeg. Því miður get jeg ekki fært hv. meiri hl. jafnmiklar þakkir, því að bæði hefir staðið á nál. frá honum og auk þess er afgreiðsla hans öll losaralegri. — Jeg ætla ekki að víkja að einstökum atriðum í nál. hv. minni hl. eða brtt. hans. þær eru ekkert aðalatriði fyrir mjer, og munar því einu, að hv. minni hl. er nokkru djarfari en jeg var í frv. mínu, og álítur óhætt að stíga nokkru stærra spor.

Það varð svo við 2. umr. bankamálsins, að þá urðu nokkuð almennar umræður, enda þótt það sje ekki í fullu samræmi við þingsköp. Eins hlýtur nú að verða. Um hin sjerstöku atriði málsins get jeg vísað til hv. frsm. minni hl. (ÁÁ), enda hefir hann skýrt þau ljóslega. En mig langar til að sýna afstöðu þeirra, sem nú vilja stíga sporið, og hinna, sem halda vilja lausgenginu. Jeg vil bregða upp mynd af því, hvernig aðstaðan er á þessum alvarlegustu og erfiðustu tímum, sem nú virðast vera framundan fyrir atvinnuvegi vora. Jeg vil benda á, í stórum dráttum, hvernig tíðindi þau, sem gerast hjer heima, og þau, sem berast utan úr heimi, tala til okkar og skipa okkur að hefjast handa. En hinir hv. andstæðingar vilja ekkert gera og daufheyrast við öllu, sem fram fer í kringum þá. Þá brestur kjarkinn til að stíga það spor, sem hæstv. fjrh. (JÞ) vill ekki stíga. Hópurinn, sem stendur á móti okkur, er tvístraður og ekki sammála nema um það eitt: að gera ekkert. Og það hefir aldrei þótt giftusamlegt að fara að ráðum þeirra, sem ekkert vilja gera.

Nú vil jeg bregða upp myndum af ástandinu í öðrum löndum og hjer heima, til þess að skýra málið. Mun jeg þá fyrst benda á það, sem gerist úti í heimi og muninn á aðstöðu okkar verðfestingarmanna og þeirra, sem ekkert vilja gera. Við höfum okkur til stuðnings hina frægustu fræðimenn á Norðurlöndum og í hinum breska heimi. Við viljum fara að ráðum þessara manna, eins og sjúklingur, sem hlýðir lækni sinum. Við getum líka vitnað í það, að á alþjóðafundum fjármálafræðinga hafa verið samþyktar áskoranir til þjóðanna um að festa verðgildi peninga sinna sem fyrst. Við viljum fara eftir því, sem þessir menn kenna. Andstæðingar okkar vilja ekki hlusta á þá. — Þá er vert að líta á reynslu þjóðanna: 1. þeirra, sem fest hafa gjaldeyri sinn, 2. þeirra, sem hafa hækkað hann, og 3. þeirra, sem enn eru óráðnir. Í fyrsta flokki eru Þjóðverjar, Finnar og Tjekkar. Þeir áttu allir við mikla örðugleika að stríða vegna lausgengisins, en hefir tekist vel að festa gengið. Þetta er eftirtektarvert fyrir okkur. Úr því að þessum þjóðum, sem svo átakanlega voru þjakaðar af stríðinu, tókst að fara þessa leið, hví skyldi okkur þá ekki takast það líka? — Þá er annar flokkurinn, þeir, sem reynt hafa að þokast upp á við. En jeg vil benda mönnum á það, að enn hefir engum tekist að koma peningum sínum í gullverð, sem fallnir hafa verið eins djúpt og okkar. Danir og Bretar hafa tekið þá stefnu að festa peningana. Jeg mun tala fátt um Dani. Mönnum er kunnugt, hvílíkt atvinnuleysi er hjá þeim, hvernig iðnaðurinn á í vök að verjast og hve illa bændur eru stæðir. Auk þess hefi jeg það eftir mönnum, sem vel fylgjast með og þeim blöðum, sem jeg hefi sjeð að tala um þetta, að óvíst sje, hvort Dönum takist að halda gjaldeyri sínum í því verði, sem hann er nú. — En sjest það nokkursstaðar betur en í Englandi, hvílíkar afleiðingar hækkunarstefnan getur haft? Það er nú orðið alllangt síðan pundið komst í gullverð, og nokkuð síðan það var gert innleysanlegt. En þetta hefir haft þær afleiðingar, að ríkissjóður hefir orðið að standa straum af kolanámunum með stórkostlegum fjárframlögum. 1. maí nú síðast gáfust menn loks upp við þetta skipulag. 5 miljónir manna eru atvinnulausar og ástandið alvarlegra en það hefir verið í margar aldir, þannig að sjálft breska hermsveldið riðar vegna gengishækkunarinnar. Þó liggur í augum uppi, hve mikið auðugri þjóð Englendingar eru heldur en við, og hve mikið færari þeir hefðu átt að vera um það, að stíga þetta spor. Keynes, hinn stórfrægi fjármálafræðingur, segir, að afleiðingarnar af þessu standi í 12 ár. — þessi eru nú tíðindin úr þeim löndum, sem valið hafa þá leið, að hækka peninga sína, og í þeim, sem fest hafa. Hrópa þau ekki til okkar, og benda okkur, hvaða leið skuli farin? Hvernig geta andstæðingar okkar skelt skollaeyrunum við öllu þessu. Þrjú lönd hafa þegar fest peninga sína, og líklegt er, að Noregur geri það líka, svo að það yrði ekki eins dæmi, þótt við færum þá leið. — En þótt þeir menn, sem ekkert vilja aðhafast, sjeu daufir og sljóir, ætti þó ástandið í Englandi að hafa áhrif á þá. Þar vofir nú borgarastyrjöldin yfir, og þetta stafar af engu öðru en því, að þeir hafa hækkað peninga sína.

Hjer á landi hafa einnig gerst stórtíðindi, ef hitt er ekki nægilegt til að sannfæra þessa menn. Öllum er í fersku minni, hve ákaflega atvinnuvegirnir voru skattlagðir í haust, með hinni miklu gengishækkun. Því eiga þeir nú erfitt með að taka á sig ný áföll. — Nú er nýútkomin hjer í bæ fróðleg bók, skrá yfir útsvör manna. Á sumum helstu útgerðarfjelögunum er nú tífalt lægra útsvar en í fyrra. Sýnir þetta ekki greinilega afkomuna? — Og hvað er nú fram undan? Jeg veit, að á landbúnaðarafurðum stendur fyrir dyrum mikið verðfall á þessu ári. Þarf jeg ekki að nefna neinar tölur um það. Hitt vita allir, hve lágt verð er á sjávarafurðum, Hið þriðja er það, að sá tími, sem mestu ræður um afkomu sjávarútvegsins er nú nær um garð genginn, og er verri en menn muna dæmi til. Eftir því, sem allra kunnugustu menn segja, má búast við, að öllum togaraflotanum verði lagt í höfn eftir nokkrar vikur. Í öllu þessu á hækkunin sinn drjúga þátt. Þá skal jeg bregða upp annari mynd af ástandinu. Í haust sem leið var áætlað, að íslenskir bankar mundu eiga ca. 200 þús. sterlpd. inneign erlendis um þetta leyti. En ástandið er það, að þeir skulda nú ca. 180 þús. sterlpd. Og nú má búast við því, að á morgun eða hinn daginn verði hjer samþ. óbreytt fjárlög, sem enginn getur sagt, að afsakanlegt sje að samþykkja, nema verðgildi krónunnar sje fest.

Þetta er það, sem nú blasir við, það er þetta, sem hrópar til okkar og segir, hver leið skuli farin. Og með þetta fyrir augum verða hv, þm. að taka ákvörðun sina. Jeg vil spyrja háttv. meiri hl. fjhn.: Hvar sjáið þið vonirnar um, að hægt verði að halda krónunni í stað, hvað þá hækka hana? Það má furðu gegna, ef menn gera sjer vonir um slíkt,

Allir vilja ná því marki, að verðfesta peningana, en sú leið, er við viljum fara, er öruggust.

Jeg er ókvíðinn um dóm framtíðarinnar um afstöðu þá, er við höfum tekið til þessa máls. En jeg öfunda ekki háttv. meiri hl. af eftirmælum þeim, er þeir munu hljóta fyrir samþykt sína í þessu máli, að gera ekkert.

Jeg skal nú eigi tala mikið lengur, nje fara út í einstök atriði. Geri það ef til vill síðar.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) vildi vefengja þau ummæli mín, að ungir bændur gæfust upp við búskapinn sökum gengishækkunarinnar. En jeg hefi þar fyrir mjer sögn sjálfra þeirra. Má hann og vita, að ekki er heiglum hent á þessum tímum að reisa bú með skuldum.

Hv. þm. (JBald) sagði, að jeg vildi ekki láta krónuna hrapa. Hann segir það, jeg hefi ekki sagt það. Mjer gengur það eitt til, að jeg vil festa verðgildi hennar, þar sem það er nú, raunverulega. En hann vill ekkert aðhafast, og í því felst hættan, að krónan falli þá og þegar. Og ef hann bæri hagsmuni verkamanna eins fyrir brjósti og vera ætti, ætti hann á hverri nóttu að dreyma vonda drauma um afdrif krónunnar.

Hv. þm. (JBald) kvaðst vilja festa krónuna, ef hægt væri, en áleit hinsvegar, að það mundi ekki takast. Jeg hefi við fáa menn talað, sem efast um, að hægra sje að festa hana nálægt raunverulegu gildi, heldur en fara fyrst upp í gullgengi. Enginn óvitlaus maður getur haldið því fram.

Fyrir verkamenn mun stefna hv. þm. (JBald), að gera ekkert, skammgóður vermir og auka á hættuna, sem þeim stafar af hruni atvinnuvega og atvinnuleysi, og hætt er við, að hv. þm. verði skammgóður vermir hið óbifanlega traust, er hann hefir á hæstv. fjrh. (JÞ) í þessu máli.