30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í C-deild Alþingistíðinda. (2365)

62. mál, slysatryggingar

Jón Baldvinsson:

Hæstv. atvrh. (MG) hefir nú gefið yfirlýsingu um þetta mál, og verð jeg að segja það, að mjer kom það nokkuð á óvart, hvernig hann tók í það. Lögin, sem samþ. voru í fyrra, gengu auðvitað í gegn um báðar deildir þingsins, en nú er það meiningin, að þessi eina deild skori á stjórnina að gera alvarlegar breytingar á þeim. Mjer finst, að það væri mikið í ráðist fyrir hæstv. stjórn að gera slíkar breytingar, eftir dagskrá, sem væri samþ. að eins hjer í þessari hv. deild. Um slíkar breytingar eiga að koma fram till. frá stjórn slysatryggingarinnar, að mínu áliti. Hæstv. ráðh. finst, ef til vill ekki, að hann varði neitt um þær till., sem stjórn slysatryggingarinnar kynni að gera, en mjer finst nú, að hún hljóti að hafa best vit á slíku. — Hæstv. ráðh. (MG) hefir lýst því yfir, að ef dagskráin verði samþ. nú, þá muni hann setja reglugerð um þetta samkv. henni. Hinsvegar er hann mótfallinn minni till. um að vísa málinu til stjórnarinnar. Það var þó talin einhver mesta virðing, sem mönnum var sýnd til forna, þegar þeim var selt sjálfdæmi um einhver mál. En það vill hæstv. atvrh. (MG) ekki aðhyllast, að honum sje selt sjálfdæmi í þessu máli. Hvað viðvíkur því, að undanþiggja þá, sem vinna að fiskvinnu utan þurkhúsa, þá finst mjer vafasamt, hvort hægt er að breyta því með dagskrá. Jeg hefi ekkert að athuga við það, að hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) vildi fá nafnakall um mína till. og vil meira að segja sjálfur leyfa mjer að æskja þess, Mjer þykir ótrúlegt, að hv. þdm. hafi nú breytt um skoðun frá í fyrra, með því að ekkert nýtt hefir komið fram í málinu síðan. Mjer finst það mjög varhugavert að fara nú að breyta því með rökstuddri dagskrá, sem í fyrra var samþ. sem lög. Og mér finst það varhugavert fyrir hæstv. stjórn að taka við málinu þannig. Eftir því, sem jeg skildi háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) í fyrra, vildi hann fá almennar slysatryggingar, en nú þegar hæstv. atvrh. (MG) vill ekki lofa því að flytja frv. á næsta þingi um þetta efni, þá hefir hæstv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) breytt um skoðun, svo alt falli í ljúfa löð með honum og hæstv. atvrh.

Jeg skal ekki orðlengja frekar um þetta að sinni, en finst það alls ekki viðeigandi að fara nú að breyta lögum þessum á þennan hátt. Hinsvegar finst mjer, að það gæti komið til mála að athuga þetta mál í samráði við slysatryggingarsjóðsstjórnina og koma þá síðar fram með till. um breytingar á lögunum, en ekki að gera það á þann hátt, sem hv. meiri hl. sjútvn. fer fram á.