15.03.1926
Neðri deild: 31. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í C-deild Alþingistíðinda. (2428)

69. mál, friðun Þingvalla o. fl.

Jörundur Brynjólfsson:

Það er aðeins örstutt athugasemd. Það var ekki aðalatriðið hjá mjer, að girða ætti víst svæði. Það er atriði, sem jeg tel ekki miklu máli skifta. En á hinu er jeg, að eigi beri að leyfa sumarbústaði. Leyfist mönnum að byggja úti í skógi, eða yfir höfuð á milli Almannagjár og Hrafnagjár, fyrir utan nauðsynleg hús fyrir jarðirnar, sem eru í ábúðum, þá gæti jeg trúað því, að það yrði til þess, að spilla fegurð staðarins og gróðri hans. Jeg er þess vegna á því, að eigi megi heimila neinum að byggja sumarbústaði í skóginum. Enda er það svo, að vilji menn dvelja á Þingvöllum, þá kemur þar sjálfsagt gott gistihús, þar sem menn geta dvalið eftir vild, er þá ekki þörf á að byggja sumarbústaði. Það er því síður heppilegt, að menn fái leyfi til þess að byggja sumarbústaði, þar sem búist er við, að landið leggi mikið fje í gistihús. Er þá áreiðanlegt, að gisthúsið fer á mis við miklar tekjur, ef menn geta fengið sjer bústað annarsstaðar, og tel jeg frá því sjónarmiði eigi heppilegt, að menn fái leyfi til að byggja sumarbústaði.

Hæstv. forsrh. (JM) taldi, að byggingar hefðu verið á Þingvöllum til forna. Nefndi hann í því sambandi hinar fornu búðir. Er það að vísu rjett, en gæta ber þó þess, að byggingarnar voru íbúðir þeirra manna, sem sinna þurftu þar nauðsynlegum störfum og áttu ekkert annað húsaskjól.

Viðvíkjandi því, að ábúendurnir á Þingvöllum og jörðunum þar í kring, Hrauntúni og Skógarkoti, hefðu leyfi til að heimila byggingar, þá vona jeg, að svo sje ekki, og þykist nú reyndar vita, að bændunum leiki alls ekki hugur á því, svo að það sje ekki að óttast, en ef þeir hafa rjett til þess, þá er það að kenna óvarkárni fyrverandi stjórnar, þegar Þingvallaprestakall var veitt og Hrauntún var bygt. Í þál., sem samþ. var á þingi 1919, stendur í 1. lið, að ef jarðirnar, bæði Þingvellir og Hrauntún, losnuðu úr ábúð, þá skulu þær byggjast með sjerstöku skilyrði. En þessa skilyrðis var eigi gætt af fyrverandi stjórn, þegar þessar jarðir voru settar í ábúð áfram. En jeg vænti þess þó, þrátt fyrir þau mistök, sem orðið hafa á þessu, að hægt sje að meina ábúendum að gera miklar byggingar í landi sínu umfram það, sem þeir þurfa vegna búskapar síns.