29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í C-deild Alþingistíðinda. (2468)

63. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jón Baldvinsson:

Háttv. þm. Borgf. (PO) vjek til mín nokkrum orðum. Vildi væna mig um það, að jeg hefði verið tvíbentur í þessu máli. Jeg þykist hafa gert grein fyrir framkomu minni, og hún er algerlega hrein. Jeg var í vafa um, hvort jeg ætti að greiða atkv. á móti því, að skemtanaskatturinn færi til þjóðleikhúss, en gerði það ekki, því að jeg þóttist vita, að ekki yrði veitt á fjárlögum til þess að koma upp þessari stofnun. Það er satt, að mjer fanst órjettlátt að undanþiggja svo og svo mikinn hluta landsmanna frá þessum skemtanaskatti, eins og gert var 1923.

Hv. þm. vitnaði í mótmæli bæjarstjórnar Reykjavíkur, sem lögð voru fyrir Alþingi 1923, og vildi ganga út frá, að jeg hefði verið með að samþykkja þau. Jeg kom ekki á þennan fund. Jeg sat á þingfundi og mundi geta fengið um það skýrslu, ef hv. þm. Borgf. (PO) vill. Jeg mótmæli, að jeg hafi sýnt neinn yfirdrepsskap í þessu máli. Hitt hneykslaði marga, sem kom fram á þinginu 1923, þegar 1. þm. S.-M., sem þá var, og hv. þm. Borgf. (PO) þinglýstu hrossakaupum sínum um þetta mál, þannig, að ef Akranes væri undanþegið, þá skyldi þm. Borgf. fylgja 1. þm. S.-M. að máli.