15.03.1926
Neðri deild: 31. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í C-deild Alþingistíðinda. (2489)

64. mál, gengisviðauki

Klemens Jónsson:

Það er í raun og veru óþarfi að vera að karpa um þetta atriði, en jeg verð aðeins að svara hv. 2. þm. Reykv. (JBald) nokkrum orðum. Hv. þm. (JBald) hjelt því fram, að hann ætti ekki sæti í fjhn. og gæti því ekki vitað, hvað þar gerðist. En eitt gat hv. þm. (JBald) þó gert, spurt, hvað þessu máli liði og hve langt þess væri að bíða. Hefði hv. þm. (JBald) gert það, hefði hann vafalaust fengið svar í þá átt, að það hefði sennilega orðið hv. þm. (JBald) fullnægjandi til þess að hætta við þetta frv. Hv. þm. sagði, að jeg hefði hlaupið á hálfgerðu hundavaði í þessu máli. Jeg held, að það væri rjettara að snúa því upp á hv. þm. (JBald) sjálfan. Það lítur nefnilega út fyrir, að hv. þm. (JBald) vilji ekki vera að hafa fyrir því að athuga málið, heldur láta sjer nægja að sletta einhverju fram um það, En þetta er vandskoðað mál, og verður því að athugast vel. Það er ekki aðeins að ræða um tekjur ríkissjós, heldur líka getu landsmanna til þess að þola skattana. Það hefir nú sýnt sig, að afkoman er orðin betri en útlit var fyrir, og þessvegna verður að einhverju leyti að ljetta af sköttunum, en samt verður að taka tillit til framtíðarinnar, því að ekki er hægt að segja, hvernig afkoma ríkissjóðs verður á næstu árum. Þessvegna sá fjhn. það, að það varð að minsta kosti að bíða eftir því, að fjárlögin kæmu úr hreinsunareldi Nd., áður en tekin væri ákvörðun um þetta efni. Samt virtist okkur, að hægt mundi verða að lækka eitthvað gengisaukann, og það nú þegar. Og það var alls ekki af því, að frv. hv. þm. (JBald) kom fram, að frumvarp nefndarinnar er komið. Jeg get sagt hv. þm. það með vissu, að það hafði verið ákveðið nokkru áður. En prentun á því drógst, vegna þess að nefndin vildi athuga, hvort ekki væri hægt að ganga lengra. Hún hafði aðrar vörutegundir í huga, en treysti sjer ekki til þess að segja neitt ákveðið þá. En hitt fanst henni, að hún yrði að halda því fram, að gengisviðaukanum á vörutollinum yrði þegar ljett af. Þessi tollur var síðast liðið ár 412000 kr., svo að hjer er alls ekki um svo litla upphæð að ræða, en það dugir ekki að hlaupa á hundavaði til þess að afnema alt án þess að athuga, hvernig fjárhag ríkisins er farið. Jeg geri ráð fyrir, að þessu frv., ásamt því, sem á eftir fer, verði vísað til fjhn., og þá mun nefndin auðvitað taka málið til athugunar, að svo miklu leyti sem hún ekki þegar hefir gert það.