15.03.1926
Neðri deild: 31. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í C-deild Alþingistíðinda. (2495)

49. mál, afnám laga um bráðabirgðaverðtoll

Flm. (Jón Baldvinsson):

Það er nokkuð svipað um þetta mál og hið fyrra.

Það, sem fyrir mjer vakir með flutningi þessa máls, er að ljetta nú af almenningi þeim afar þungu sköttum, sem á voru lagðir á þinginu 1924. Þá voru menn ákaflega hræddir um, að fjárhagur ríkisins mundi verða svo, að óhjákvæmilegt yrði að leggja á þessa skatta. En þessir skattar hafa nú gert það að verkum, að nú stendur ríkissjóður sig þannig, að það sýnist vera alveg óhætt að afnema þá. Það hefir að vísu komið fram till. um það, að breyta þessum lögum nokkuð, en það helst þó enn mjög þungur skattur á ýmsum nauðsynjavörum. Þessi skattur mun hafa fært ríkissjóði nálægt 2 miljónir í tekjur, en það er þó greinilegt, að það getur varla verið um svo mikla fjárhæð að ræða, ef tekin eru fleiri ár í röð, því að eins og bert varð í umr. um fyrra málið, þá má ekki búast við þeim tekjum, ef hann stendur lengi. Hins vegar hefir skatturinn lækkað nokkuð, og tekjurnar, sem gert er ráð fyrir, að verði af honum á næsta ári, eru, að mig minnir 800.000 kr. En menn mega ekki eingöngu hugsa um það að skófla í ríkissjóðinn, það verður líka að taka tillit til þess; hvort almenningur geti borið þessa skatta. Nú heyrast kveinstafir hvaðanæfa frá atvinnurekendum um það, hvað útlitið sje afskaplegt, og má vel vera, að það sje rjett. En það er einnig ískyggilegt fyrir verkalýðinn, útlit fyrir mikið atvinnuleysi, svo að það verður einnig að líta á það, að gera almenningi ekki of erfitt fyrir með álögum, því að auk þess sem þessi skattur heldur við dýrtíðinni í landinu, gerir hann það að verkum, að allir starfskraftar, sem vinnuveitendur tala svo mikið um, verða dýrari. Það er líka tekið fyrir að innheimta þessa skatta, svo að það verður miklu hærri fjárhæð, sem almenningur borgar, en það, sem inn kemur í ríkissjóð. Það sem jeg fer fram á, er að þessir skattur falli niður frá 1. júlí næstk. jeg setti mig náttúrlega ekki svo mikið á móti því, þó að þessi lög yrðu látin vera í gildi eitthvað fram á næsta ár, en verð þó að halda því fast fram, að það verði að ljetta þessum tveim sköttum af almenningi. Jeg álít, að þetta þing megi ekki skiljast svo við, að það ljetti ekki af þessum sköttum.