03.05.1926
Neðri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í C-deild Alþingistíðinda. (2648)

81. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Það mun vera rjettast, að jeg svari hv. þm. Str. (TrÞ) þegar í stað, viðvíkjandi þeirri spurningu, sem hann beindi til nefndarhlutanna um lánsfje til landbúnaðarins. Þetta atriði er svo sjerstakt, að jeg efast um, að rjett sje að blanda því hjer inn í umr. Að öðru leyti liggur það í hlutarins eðli, að slíkur banki, sem minni hl. fjhn. leggur til, að verði stofnaður, á ekki hægt um vik að hlaupa undir bagga með landbúnaðinum með almennum lánsviðskiftum, þar sem svo er til ætlast, að hann skifti eingöngu við aðra banka. Og jeg hefi enga heimild frá nefndinni til þess að heita neinum stuðning frá hálfu seðlabankans. En jeg hefi áður fyrir mína hönd slegið því fram hjer á þingi, að það gæti hugsast það fyrirkomulag á seðlatryggingu bankans, að það samrýmdist starfsemi hans að öðru leyti, en greiddi hinsvegar fyrir landbúnaðinum. Hugmyndin er sú, að hægt verði að tryggja einhvern hluta af seðlunum með fasteignaveði. Bankinn gæti þá haft sjerstaka fasteignalánadeild í sambandi við seðlalánin. Og ef ekki væri önnur trygging fyrir seðlunum en fasteign, þá gætu vextir af þessum lánum verið tiltölulega vægir.

Jeg skal benda á það, í sambandi við fyrirkomulagið á seðlatryggingunni, að slíkt er talsvert mismunandi, en þó aðallega með tvennu móti: að tryggja alla seðlana jafnt, en undir sjerstökum kringumstæðum sje þó leyft að hafa seinustu seðlana, sem út eru gefnir, ótrygða — eða hafa fyrstu seðlana algerlega ótrygða, sem svarar venjulegri viðskiftaþörf landsmanna, en tryggja með gulli það, sem þar fer framyfir, og heimta þá fyllri tryggingu og tryggja sumt að fullu. Jeg álít, að að komi vel til mála, að hafa í sambandi við bankann sjerstaka veðlánadeild, sem þá kæmi jarðeignunum einkum til góða.

Hæstv. fjrh. (JÞ) vjek til mín nokkurum orðum í fyrradag, og skildist mjer, að hann vildi leggja svo út fyrir minni hlutanum, að hann sækti þetta mál meir af kappi en með rökum, ef hann hjeldi því fram í fullri alvöru, að þýðingarlaus væri sú aðgreining á fjárhag deilda Landsbankans, sem ákveðin er í stjfrv. Okkar mótstaða er bygð á því, að skiftingin eftir stjfrv. sje þýðingarlaus til þess að bæta úr þeirri áhættu, sem bankinn tekur á sig með almennri lánastarfsemi. Jeg mótmæli því, að þetta sje framborið af nokkru kappi af hálfu minni hlutans. Og jeg mótmæli því fyrir mitt leyti, sjerstaklega í þeim skilningi, sem hæstv. fjrh. (JÞ) notaði þetta orð. Þetta er algerlega laust við það, að vera kappsmál fyrir mig. Það snertir mig ekki öðru vísi en það, að mjer sem þm. ber skylda til að leggja það til þessa máls, eins og allra annara mála, sem jeg veit rjettast vera; og það verð jeg að kalla rjettmætt kapp, sem bygt er á rökum. En jeg hefi ekki orðið var við, að hæstv. fjrh. (JÞ) hafi tekist að hrekja þau rök, sem jeg hefi fært hjer fram. Hann sagði, að þegar bankanum væri skift í deildir, eins og stjfrv. ætlast til, þá sje auðvelt að skilja bankann sundur þannig, að það persónusamband, sem til var ætlast í fyrstu, hætti. En þetta breytir engu. Það verður að teljast hættulegt að rekla seðlabanka með áhættulánastarfsemi. Þegar það svo kæmi í ljós, að of langt hefði verið gengið í þessari starfsemi, þá yrði að hætta og gera nýjar ráðstafanir um seðlaútgáfuna, en það væri þó um seinan, ef þegar væri búið að tefla fjárhag landsins í voða, eins og hjer hefir áður komið fyrir. En hinsvegar er ekki nokkur ástæða til, að það fari neitt betur, þó að fjárhagslegur aðskilnaður verði gerður milli deilda bankans, því að hin sameiginlega stjórn gerir þá aðgreiningu að engu. En það er of seint að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í. Og sje það rjett, að hættulegt sje að hafa þessa starfsemi samhliða, þá er sjálfsagt að taka heldur það fyrirkomulag, sem er laust við þessa hættu, sem hv. meiri hl. neitar ekki, að frv. beri með sjer.

Hæstv. fjrh. (JÞ) vildi neita því, að banki, sem ekki tæki innlánsfje, gæti verið seðlabanki, en játaði, að erlendir seðlabankar tæki alls ekki innlánsfje. Þessa neitun bygði hann á því, að seðlabankar erlendis taka vaxtalaust innlánsfje til geymslu. Og þó að þeir hafi oft mikið gagn af þessu fje, þá er þeim eftir sem áður bannað að taka fje gegn vöxtum, sökum þess, að taki þeir innlánsfje, kannske með hæstu vöxtum, þá eru þeir neyddir til að lána það út, og ef til vill setja það í hættu. Slík starfsemi er hjer sem annarsstaðar ósamrímanleg seðlabankastarfseminni.

Þá er á það að líta, hversu bankinn er staddur, ef hann fær ekki innlánsfje. Hvort það sje rjett hjá hæstv. fjrh. (JÞ), að hann geti ekki starfað sem seðlabanki, ef hann fær ekki innlánsfje. Jeg hefi nú haldið því fram, og leyft mjer að vitna til sænsku bankanefndarinnar frá 1917, að slíkur banki geti innlánsfjárlaust framkvæmt alt, sem af honum verður á annað borð krafist sem seðlabanka. Hv. frsm. meiri hl. (MJ) verður að koma með rök gegn þessari skoðun sænsku bankanefndarinnar, þar sem áttu sæti formaður sænska ríkisbankans, ásamt þessum margnefnda Cassel.

Hæstv. fjrh. (JÞ) reyndi að sanna, að seðlabanki yrði máttlaus, ef hann hefði ekki annað fje með höndum en seðlana, og gerði sem ætíð er rjett, að vísa til reynslunnar, og reynslan væri sú, að með því móti yrði hann ekki fær um að firra gengissveiflum. Slíkt væri margreynt og hefði reynst mjög örðugt og ókleift. En jeg veit ekki betur en hæstv. fjrh. hafi haldið því fram, að ókleift hafi orðið að varna þeirri gengissveiflu, sem hjer varð í fyrrahaust, og það væri algengt í sögu annara þjóða, að sveiflur yrðu á gengi. Hv. meiri hl. vitnar einnig óspart í forstjóra Noregsbanka, og hafa þó ekki orðið hvað minstar gengissveiflurnar hjá Norðmönnum. Þrátt fyrir alla hans útlánastarfsemi um gjörvalt landið, hefir Noregsbanka ekki tekist að forða gengissveiflum. Mjer virðist því, að hv. fjrh. (JÞ) og hv. 4. þm. Reykv. (MJ) vilji heimta af þessari máttlausu stofnun, er þeir svo kalla, það sem hvergi er annarsstaðar heimtað, enda ekki hægt að heimta af seðlabanka yfirleitt. Það er auðvitað, að seðlabanki verður að forðast sem mest sveiflur á verðgildi peninganna. Að mörgu leyti stendur hann betur að vígi, vegna þess, að banki, sem fæst við almenn lánsviðskifti, hleypir sjer oft og einatt út í ýmislegt, eins og samnefndarmaður minn, hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) tók fram, sem ekki miðar til þess að hækka eða viðhalda genginu. Hann getur átt svo mikið undir því, hvernig gengissveiflurnar eru, að hann freistast kannske til þess, síns eigin hags vegna, að láta þá sveiflu fara fram, sem annars þyrfti ekki að verða. Það var eins og hæstv. fjrh. (JÞ) hjeldi, að svona banki hefði ekkert annað að vinna með heldur en víxlakaup, en þetta er misskilningur. Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að ekki væri hægt að forða frá gengissveiflum með víxlakaupum, og það er rjett; hann getur keypt víxla og fengið þá borgaða með verðminni krónum en hann hefir látið úti. En hann getur líka neitað að kaupa víxlana, og það er þar, sem hans kraftur liggur, því að þar með á hann vald á því, hvað hinir bankarnir gera. En það er ekki eingöngu víxlakaup, sem hann á að fást við, hann á líka að fást við gjaldeyrisverslun. Og þegar hinir bankamir koma og vilja selja víxla, og ef hann álítur hættu á gjaldeyrisfalli, þá neitar hann að kaupa, en býður þeim að kaupa af þeim gjaldeyri, ef þeir hafa hann, og þannig getur hann fengið þá til að fá sjer erlend lán, sem hann svo selur þeim seðla fyrir.

Hæstv. ráðh. (JÞ) vísaði svo til þess, hvernig fór í síðastliðnum september, og spurði, fyrir hvað þessi máttlausi banki ætti að kaupa, þegar mikið bærist að af gjaldeyri. Fyrir hvað átti að kaupa erlendan gjaldeyri í september síðastliðnum? Fyrir íslenskar krónur, svo lengi sem þeir áttu þær til, en svo, þegar þær hrukku ekki til lengur, varð að kaupa fyrir seðla. Hversvegna fór seðlaútgáfan upp í 11 miljónir króna? Það var aðallega fyrir aukin gjaldeyriskaup. Sjóður Landsbankans gat ekki hrokkið til fyrir öllum þeim gjaldeyriskaupum, sem til þurfti. Jeg veit ekki betur en að hæstv. ráðh. (JÞ) hafi sagt, að Íslandsbanki hefði getað haldið áfram að kaupa gjaldeyri, en fyrir hvað átti hann að kaupa? Því er yfirlýst, að hann gat ekki keypt, nema með því að fá útgefna seðla. Hæstv. fjrh. (JÞ) segir það óforsvaranlegt, að gefa út seðla til þess að kaupa gjaldeyri fyrir, en jeg veit þá ekki, hvenær forsvaranlegt er að gefa út seðla, ef það er ekki til þess að kaupa gjaldeyri fyrir. Hv. frsm. meiri hl. (MJ) lagði hjer orð í belg, til þess að hjálpa hæstv. ráðh. (JÞ), og kom með það dæmi, að maður kæmi með 10 miljónir króna í erlendum gjaldeyri, sem hann vildi selja í einni svipan, og sagði, að það væri hastarlegt að gefa út 10 miljónir króna í seðlum. Já, jeg get trúað því, að það þætti hastarlegt. En ef hann kæmi nú með þessar 10 miljónir í einu, þá held jeg, að mörgum þætti ástæða til að fara að hækka krónuna, eða heldur ekki hv. frsm. (MJ), að það væri þá forsvaranlegt, að lyfta krónunni ofurlítið? Það gæti kannske verið, að hann hjeldi, að þetta væri „spekulation“? (TrÞ: Er þetta gengispólitík hv. minni hl. fjhn.?) Jeg er hjer að ræða við hv. frsm. meiri hl. (MJ), og hann er ekki frsm. minni hl. nefndarinnar í gengismálinu. — Ef slíkt tilfelli ætti sjer stað, gæfi það tilefni til sjerstakrar athugunar, og jeg held, að hæstv. fjrh. (JÞ) hafi sagt, að þá væri ekkert annað ráð en að hækka gengið. Jeg veit, að hæstv. ráðh. (JÞ) hefir ekki haft nein önnur svör við því, þegar hann hefir verið áfeldur fyrir það, að hafa ekki spornað við hækkun íslensku krónunnar síðastliðið haust, en að það hafi ekki verið hægt annað, vegna framboðs á erlendum gjaldeyri. (MJ: Jeg sagði, ef boðið væri fram á stuttum tíma). Hvað er það, sem hv. frsm. (MJ) kallar „á stuttum tíma?“ Og hversvegna selja menn erlendan gjaldeyri? Af því að þeir þurfa að nota hann í landinu sjálfu, þurfa að fá krónur. En ef það er gert til þess að láta andvirðið liggja í bankanum, þá er það „spekulation“, sem verður að gera sjerstakar ráðstafanir á móti, og þá er, að dómi hæstv. fjrh. (JÞ), ekkert annað að gera en að hækka gengið. En öllu eðlilegu framboði á erlendum gjaldeyri getur seðlabankinn mætt með því að afhenda seðla, og það er af því, að fyrir hvern seðil, sem hann lætur af hendi, fær hann fulla „valutu“, og því er ekkert óforsvaranlegt í þessu. Það er bara helber misskilningur hjá hv. frsm. (MJ) og hæstv. ráðh. (Fjrh. JÞ: Tölum gætilega). Það er hægt að tala gætilega, ef hægt er að innleysa hvern seðil, sem gefinn er út, fullu verði, hvenær sem krafist er, því að þá er alt víst. Ef hjer er um það að ræða að stofna banka, sem jafnóðum setti sinn erlenda gjaldeyri út í viðskiftalífið, eins og almennur viðskiftabanki ef til vill freistast til að gera, þá væri kannske nokkuð öðru máli að gegna, en ef seðlabanki, sem ekkert er viðriðinn almenn viðskifti í landinu, gefur út seðlana, þá er það fullforsvaranlegt, því að hann á ekki að ábyrgjast neitt, nema sína eigin seðla. (MJ: Hvert fara menn með seðlana?). Þeir fara kannske með þá í aðra banka, en hvort sem það er eða ekki, getur hann altaf innleyst þá, ef hann hefir fengið í hendur fulla „valutu“ fyrir þá. Bollaleggingar hæstv. fjrh. (JÞ) um það, að seðlabankinn þyrfti að knjekrjúpa öðrum banka, til þess að fá lán til að kaupa fyrir útlendan gjaldeyri, eru algerlega í lausu lofti og engin ástæða til að halda, að slíkt geti komið fyrir. Hæstv. fjrh. (JÞ) talaði um öfgar; það voru tvennskonar öfgar, sem hann bar okkur minni hl. mönnum á brýn, sem hann sagði, að væri svo mjög í mótsögn hvor við aðra, sagði, að það væri mótsögn, þegar menn óttuðust þá hættu, að of mikið vald sameinaðist á einn stað í peningamálunum, og að þetta væri hinsvegar mótsögn við það, þegar því væri haldið fram, að Landsbankinn, ef hann fengi seðlaútgáfuna, geti ekki afstýrt öllum sveiflum. Þetta kann að virðast vera mótsögn í sjálfu sjer, en það er það samt ekki. Bankinn getur fengið afarmikið vald yfir hag viðskiftanna í landinu, ef hann nær mikið til einveldi yfir allri bankastarfsemi landsins, eins og hann hlyti að gera, ef honum væri fengin seðlaútgáfan. En hann getur eftir sem áður verið máttlaus gegn umheiminum, og þegar gengissveiflur koma, þá er það aðallega utanaðkomandi kraftur, sem þar kemur til greina. Þetta er því fullkomlega rjett. Jeg hefi ekki talað svo mikið um þetta mikla vald, sem bankinn fengi, en hitt er mjer ljóst, að þetta vald getur verið afskaplega mikið, og er máske ástæða til að leggja meiri áherslu á það en gert hefir verið.

Hingað til hafa verið tveir bankar í landinu, annar bankinn hefir aðallega verið viðskiftabanki og haft seðlaútgáfuna, hinn er Landsbankinn. Það er alveg rjett tekið fram hjá hv. frsm. meiri hl. (MJ), að Landsbankinn hefir haft einkennilega aðstöðu í viðskiftalífinu. Hann hefir, sem sagt, aldrei notað seðla, aldrei verið upp á Íslandsbanka kominn; Íslandsbanki hefir altaf verið miklu meira upp á hann kominn. Var það af því að Íslandsbanki hafði ekki ætlað sjer af, vegna sinna almennu viðskifta, og sannar það, hve hættulegt er að hafa seðlaútgáfu saman við almenna bankastarfsemi, og það er rjett hjá hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), að það var af því, að Landsbankinn hafði náð tökum á Íslandsbanka, einmitt vegna seðlaútgáfu hans. En hvernig verður það nú, ef Landsbankinn fær seðlaútgáfuna? Það verður þá svo, að hann hefir tökin á öllu, og getur hvenær sem er tekið fyrir kverkar Íslandsbanka, og stefnir það til þess, að Landsbankinn fær algert einveldi í peningamálum landsins. Það er alveg augljóst, að í innanlandspengingamálum er Landsbankanum fengið fullkomið einveldi með seðlaútgáfunni, en hann getur auðvitað verið algerlega máttlaus út á við fyrir því, en það fer alt eftir því, hvernig hann „disponerar“ út á við. Ef hann „disponerar“ illa, þá hefir hann ekkert vald á gengissveiflunum. Menn hafa verið að tala um, að það væri einokunarstefnan, þessi gamla og nýja einokunarstefna, sem væri að reka upp höfuðið hjer í þessu máli. Jeg hefi nú eiginlega aldrei gert mjer þá hugmynd um tildrög þessa máls, að það hafi verið ástæðan fyrir því, að það var borið fram, að átt hafi að einoka peningana, en hitt dylst mjer ekki, og mjer finst rjett og óhjákvæmilegt að benda sterklega á það, að það leiðir óumflýjanlega til fullkomins einveldis í peningamálum, ef Landsbankanum verður fengin í hendur seðlaútgáfan.

Jeg heyrði því miður ekki upphafið á ræðu hv. frsm. meiri hl. (MJ). Hann var að tala um ráðleggingar hinna erlendu sjerfræðinga, þegar jeg kom að. Hv. frsm. (MJ) benti á, að það væri eftirtektarvert, að einmitt sá erlendi bankastjórinn, sem þekti minst til hjá okkur, þ. e. a. s. bankastjóri Finnlandsbanka, hann væri einna mest hikandi í því að ráðleggja að sameina sparisjóðsstarfsemina og seðlaútgáfuna, já, sagði, að sá, sem þekti hjer minst til, væri mest hikandi. En jeg held, satt að segja, að þeir þekki nokkurnveginn jafnlítið til, allir saman, bankastjóri Noregsbanka, forseti Ríkisbankans sænska og bankastjóri Finnlandsbanka; hvort þjóðbankastjórnin danska þekkir til hinna almennu bankaviðskifta hjer, skal jeg ekkert um segja, en það er þó ekki ólíklegt, að hún sje einna kunnugust þeim hnútum. En jeg vil minna hv. frsm. meiri hl. (MJ) á það, að hún taldi okkur fullkomlega örugt og við okkar hæfi, að hafa seðlaútgáfuna í Íslandsbanka, en menn hafa ekki leyfi til að segja, að þetta sje forsvaranlegra heldur en hitt, og álítur þá hv. frsm. (MJ), að það sje forsvaranlegt eða heppilegt að setja seðlaútgáfuna í banka, sem á að reka almenna, áhættusama viðskiftastarfsemi, og hvað segir þá reynslan? Reynslan segir, að bankinn keyrði sig fastan. Það er ekkert leyndarmál, því að það er alkunna, að svo hefir farið. Mjer skildist hv. frsm. (MJ) segja, að jeg hefði bent á það úrræði, að hafa seðlaútgáfuna í Íslandsbanka áfram, en það er rangt; jeg benti aldrei á þá leið, og mjer fanst hann líka telja það fjarstæðu, en þjóðbankastjórnin danska áleit, að það væri forsvaranlegt. (MJ: Hún áleit, að það væri ekki um annað að gera). Já, það er einmitt það, sem jeg ætlaði að komast að, hún áleit, að það væri ekki um annað að gera. Og hvernig fór nú, þegar málið var á ný lagt fyrir sjerfræðingana? Var það ekki einmitt þetta sama, að þeir álitu, að ekki væri um annað að gera en að láta Landsbankann taka við. Hv. frsm. meiri hl. (MJ) las upp nokkur orð. Jeg held, að það hafi verið úr áliti forseta Ríkisbankans sænska. Þau voru eitthvað á þá leið, að óálitlegt væri að fela seðlaútgáfuna stofnun, sem einkum hefði seðlaafhendinguna á hendi. Hvernig stendur á því, að forseti bankastjórnarinnar sænsku er hjer annarsvegar að tala um þann möguleika, að Landsbankinn fari með seðlana, en hinsvegar stofnun, sem ekki hafi annað á hendi en að „afhenda“ seðlana. (MJ: Hann lítur svo á seðlabankann). Nei, alls ekki. Þetta kemur til af því, að það var ákveðið frv., sem lagt var fyrir þennan bankastjóra, sem fór ekki fram á annað en að stofnunin ætti að hafa á hendi afhendingu seðlanna, — og þegar um það er að ræða, stofnun, sem ekki á að hafa annað á hendi en afhendingu seðlanna, og svo Landsbankann, þá er eðlilegt, að hann segi: Nei, þá skuluð þið heldur reyna hitt, því að þessi stofnun getur aldrei haft hemil á fjármálum ykkar. En þarna kemur það einmitt; málið er lagt þannig fyrir þessa útlendu sjerfræðinga, að annarsvegar sje um það að ræða að afhenda Landsbankanum seðlaútgáfuna, en hinsvegar að hafa seðlaútgáfuna í lausu lofti, hjá stofnun, sem ekkert sje annað en kassi, sem bankarnir geti gengið í og tekið seðlana út úr. En minni hl. milliþingan. og minni hl. fjárhagsnefndarinnar eru ekki að leggja til, að slík stofnun sje sett upp, heldur að það sje settur á stofn seðlabanki, sem hafi alla þá aðstöðu, sem þessi forseti Ríkisbankans sænska segir, að seðlabanki þurfi að hafa, til þess að geta int hlutverk sitt af hendi, sbr. álit meiri hl. bankanefndarinnar sænsku.

Þegar það er athugað, hvernig þetta mál var lagt fyrir hina útlendu sjerfræðinga, sem verið er að vitna í, þá fer að verða skiljanlegt, af hverju svör þeirra eru stíluð eins og þau eru stíluð. Málið var nefnilega lagt þannig fyrir þá, að við hefðum ekki efni á að hafa sjerstakan seðlabanka. Það voru því ekki þeir sjálfir, sem fundu það upp, enda höfðu þeir ekki kunnugleik til þess.

Undirstaðan undir áliti þeirra er því sú, að við höfum ekki efni á að kosta sjerstakan seðlabanka. Og það er fullkomin ástæða til að skilja ummæli þeirra svo, að þeir telji, að stofnun þessi muni verða máttlaus, af því að undirstöðuatriðið er, að vextir seðlastofnunarinnar eigi að fara eftir vöxtum bankanna. Það er því fyrirskipað, að viðskiftabankarnir eigi að ráða vöxtum seðlabankans. En það er sá stóri munur frá því, að hann ákveði sjálfur vextina. Með þessu fyrirkomulagi er því seðlabankinn gerður máttlaus. Og þó sjerfræðingarnir felli þennan dóm, þá er hann engin sönnun. Hann á aðeins við þessa máttlausu stofnun.

Annars verð jeg að segja, að mjer þykir merkilegt, að málið skyldi vera lagt svona fyrir sjerfræðingana. Það gerir það að verkum, að það er ekki hálft gagn að umsögn þeirra.

Það var stungið upp á því áður, bæði af mjer og fleirum, að fela sjerstakri stofnun, Ríkisveðbankanum, seðlaútgáfuna. Um þetta veit jeg ekki til að hafi verið getið við hina útlendu sjerfræðinga. Jeg get því ekki fyrir mitt leyti á nokkurn hátt afsakað það, að slegið skyldi vera striki yfir þennan mögulegleika. Jeg er þó ekki að halda því fram, að nefndin hafi gert þetta af ásettu ráði, til þess að fá þessi ákveðnu svör. En henni hefir orðið stórkostlega á að þessu leyti.

Þegar maður nú skoðar umsagnir hinna erlendu bankastjóra í þessu ljósi, að við höfum ekki efni á, að hafa sjerstakan seðlabanka, þá eru orð þeirra vel skiljanleg. Allar umsagnir þeirra ganga út á að afsaka. Þeir benda á þessar og þessar hættur, en segja þó, að þetta ætti að vera tiltölulega hættulítið hjá okkur, vegna fábreyttra viðskifta.

Í þessu sambandi má líka bera saman, hve miklu Landsbankinn er sterkari en sjerstakur seðlabanki, ef litið er eingöngu á seðladeildina fráskilda, eins og hæstv. stjórn og meiri hl. fjhn. vill.

Hugsi maður sjer þessar tvær deildir óháðar hverja annari, er styrkleikamunurinn á sjerstökum seðlabanka og seðladeild Landsbankans ekki mikill.

Landsbankinn hefir ekki annað fje en það, sem ríkissjóður leggur honum til. Hæstv. fjrh. benti á þann mögulegleika, að leggja innlánsfjeð að nokkru leyti, þ. e. föstu innlánin, til hans. En jeg sje engin rök fyrir því, að skilja á milli innlánsfjár og sparisjóðsfjár. Þar að auki hefir hann að vísu enska lánið, sem hann verður að borga af 6% vexti. Af því fær hann nokkurt peningalegt vald í landinu, en ekki styrkleika til þess að standast töp, sem stafa af því að hafa hemil á genginu. Svo eru hlaupareikningar. Um það getur verið álitamál, hvort ekki eigi að leyfa seðlabanka að hafa þá að einhverju leyti. Og höfum við í minni hl. fjhn. fallist á, að það gæti komið til mála, t. d. í sambandi við kaup á erlendum gjaldeyri, en vextirnir yrðu að miðast við það, sem bankinn fengi af hinum erlenda gjaldeyri, sem hann keypti.

Nei, jeg sje, að styrkleikamunur sjerstaks seðlabanka og seðladeildar Landsbankans liggur ekki í öðru en því, að Landsbankinn getur haft sparisjóðsdeildina eða fje hennar, til þess að blanda saman við seðlabankastarfsemina. En það er einmitt það, sem hæstv. stjórn er að reyna að forðast með fjárhagsaðskilnaðinum. Eða til hvers ætti hann annars að vera?

Háttv. frsm. meiri hl. (MJ) talaði enn um þróun bankamálanna hjer á landi, og misskildi mig að nokkru leyti þar. Jeg hjelt því fram, að þróunin hjer hefði stefnt í sömu átt og erlendis. Að reynslan hefði kent okkur, að það væri hættulegt að hafa seðlaútgáfu í sambandi við aðra bankastarfsemi, og að hún hefði leitt til takmörkunar á því sviði.

Ef það væri ekki hættulegt, þá mætti eins halda áfram að láta Íslandsbanka hafa seðlaútgáfuna. En jeg sagði, að það væri vitleysa. Og það væri líka vitleysa, að flytja hana yfir í annan banka, sem hefði sömu starfsemi.

Þetta kemur líka heim við álit hinna erlendu sjerfræðinga; þeir telja, að þróun bankamálanna hafi leitt til þess, að hafa sjerstaka seðlabanka. Og má í því sambandi vísa til álits sænsku bankamálanefndarinnar. Hún tekur ekki það ráð, að láta ríkisbankann taka upp almenna útlána- og innlánastarfsemi, af því að það stríddi á móti þeirri reynslu, sem var fengin.

Þá hafði háttv. frsm. (MJ) það eftir bankastjóra Noregsbanka, að hann teldi seðlabankana einangraða, af því að þeir hefðu ekki tök á fjármálum landanna eða gengi peninga þeirra. — Hjer rekur maður sig aftur á álit sænsku bankanefndarinnar frá 1917. Hún segir, að seðlabankarnir geti haft tök á þessu öllu saman með seðlaútgáfunni einni, og nægir þar að benda til reynslunnar, því jeg veit ekki betur en ríkisbankinn sænski hafi náð fullum tökum á viðskiftalífinu þar. Og sömuleiðis þjóðbankinn danski, þegar hann bara vildi það. (TrÞ: Það er ekki sjeð fyrir endann á því). Jú, reynslan sýnir þetta, og við höfum ekki annað að byggja á. Þá sagði háttv. frsm. meiri hl. (MJ), að það væri ekki tilgangurinn, að taka upp gamalt fyrirkomulag á seðlaútgáfunni. Það er rjett. En það er verið að halda því gamla fyrirkomulagi, sem er, og það er orðið úrelt. Og þegar litið er til annara landa, þá er það gamalt.

Minni hl. er ekkert að tala um að stofna hjer seðlabanka með t. d. 30 milj. kr. Það hefir engum dottið í hug að fara í kapphlaup um það við aðrar þjóðir. En eins og við höfum komið okkur upp gufuskipum til flutninga, að dæmi annara þjóða, en haft stærð þeirra við okkar hæfi og ekki látið okkur detta í hug, að af því að við tókum gufuskip, þá sje sjálfsagt að hafa þau eins stór og þau gerast stærst, eins eigum við að fara að dæmi annara þjóða í bankamálunum, og hafa sjerstakan seðlabanka við okkar hæfi. Seðlabanki okkar með 3 milj. kr. stofnfje yrði fullkomlega samsvarandi seðlabönkum ýmsra annara þjóða, miðað við stærð almennu viðskiftabankanna. — Eftir kenningu hv. 4. þm. Reykv. (MJ) ættum við að nota seglskip til flutninga, af því að við höfum ekkert að gera með stór gufuskip og engin efni á að eignast þau.

Jeg hygg þá, að jeg hafi tekið til athugunar nokkurn veginn höfuðatriðin í ræðum hv. andmælenda minna, er talað hafa síðan jeg flutti síðustu ræðu mína.

Ræðu mína get jeg svo endað á því, að benda hv. meiri hl. nefndarinnar og hæstv. stjórn á það, að þetta mál er alls ekki athugað nje rannsakað til hlítar. Till. eru að vísu bygðar á umsögn erlendra sjerfræðinga, en þeim hefir að vissu leyti verið vilt sýn um okkar hag. Þess vegna eru tillögur þeirra ekki eins mikils virði og þær hefðu átt að vera. Mjer finst, að sje það einlægur vilji stjórnar og þings, að ganga örugglega frá málinu, þá lægi næst að fá einhvern erlendan sjerfræðing hingað og láta hann setja sig inn í bankamálin og viðskiftaástandið, og gera síðan tillögur á þeim grundvelli. Og jeg er sannfærður um, að við þá athugun mundi hver sjerfróður maður komast að þeirri niðurstöðu, að við verðum að skipa bankamálum okkar á sama hátt og dýrkeypt reynsla hefir kent öðrum þjóðum í nálægum löndum að skipa sínum bankamálum.