07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í C-deild Alþingistíðinda. (2668)

81. mál, Landsbanki Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg á hjer fjórar brtt. á þskj. 485, sem jeg verð að minnast á.

1. brtt. er við 9. gr. frv. og er ekki annað en lítilsháttar leiðrjetting, sem er bein afleiðing af fyrri hluta gr., er samþ. var við 2. umr.

Þá er 2. brtt. um skyldur sparisjóðsdeildarinnar til þess að koma innlánsfje í trygg verðbrjef. Það hefir nú verið vikið að því oftar en einu sinni í umr., að varhugavert sje að binda svo fast sparisjóðsdeildina sem gert er með því, að hún skuli jafnan hafa 1/3 af innlánsfje sínu í verðbrjefum. Þetta mundi þýða það, að verja þyrfti 4 miljónum króna af því fje, sem Landsbankinn hefir nú til umráða, til þess að kaupa verðbrjef, svo að ákvæðunum yrði fullnægt. Það gæti haft mjög varhugaverðar afleiðingar eins og stendur að gera þessar breytingar á ráðstöfunum sparisjóðsdeildarinnar.

Jeg hefi í þessu efni borið mig saman við stjórn Landsbankans, og hefir hún látið í ljós, að annaðhvort verði að breyta hlutfallinu, færa það niður, eða þá að orða greinina þannig, að bankastjórnin verði ekki bundin við ákvæði hennar fyr en kringumstæður leyfa. Og í samráði við bankastjórnina hefi jeg valið hina seinni leið, og að þessu leyti er brtt. eigi annað en leiðbeining um það, að hverju skuli stefna.

Þá kemur 3. brtt., sem er við 52. gr., er sett var inn í frv. við 2. umr. Jeg er því í sjálfu sjer mótfallinn, að sú grein sje í frv., en úr því að hún er nú einu sinni komin þangað, þá vil jeg gera greinina þannig úr garði, að hún bindi ekki svo, að lögin verði brotin eins og nú er. Brtt. fer fram á það, að í stað þess, sem nú er, komi: „nema öðruvísi sje ákveðið í stofnskrám eða skipulagsskrám“. Mjer virðist, að um þetta efni eigi ekki hið sama við í öllum tilfellum. Um opinbera sjóði sýnist að vísu eðlilegast, að þeir sjeu geymdir í Landsbankanum, en öðru máli er að gegna um þá sjóði, er bundnir eru með skipulagsskrá, eða fje, sem gengið er frá á annan hátt, t. d. gjafabrjef. Það má búast við því, að gefandi vilji ávaxta slíkt fje í þeim sjóði, er hann ber sjerstaka trygð til. En þótt tillaga mín sje í 2 liðum, bið jeg hæstv. forseta að skoða hana sem eina tillögu. Þær eru báðar ein brtt, af því að hvorttveggja kemur að efni til í staðinn fyrir grein, sem burt á að falla. Jeg vona, að þeir hv. þm., sem greiddu atkv. með því, að setja þessa gr. í frv., geti til samkomulags gengið inn á, að henni sje breytt þannig, svo að hún geti staðið í frv., þótt hún sje andstæð þeim kenningum, sem mest er haldið á lofti, að vara við því að veita innlánsfje að þessari bankastofnun.

4. brtt., við 62. gr., er líka rjetting á seinni hluta greinar, sem er afleiðing af breytingu, sem samþ. var inn í gr. við 2. umr.

Jeg skal að vísu játa, að þessa rjettingu mætti gera með öðru móti. En eins og till. er borin fram verða öll ákvæði gr. með öðrum hætti og ekkert ósamræmi í þessu. Að öðru leyti þarf till. engrar skýringar við. Um aðrar brtt. ætla jeg ekkert að tala fyr en hv. flm. þeirra hafa gert grein fyrir þeim og nefndin tekið afstöðu til þeirra.