08.05.1926
Neðri deild: 74. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í C-deild Alþingistíðinda. (2688)

81. mál, Landsbanki Íslands

Halldór Stefánsson:

Till. okkar á þskj. 506 hafa sætt andmælum úr sömu átt og við 2. umr.

Háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) taldi óaðgengilegt að miða við nafnverð. Tekið er fram nú, að miðað sje við nafnverð. Við meintum aldrei annað en nafnverð, en rjettara að taka það fram til að fyrirbyggja efa eða misskilning.

Háttv. þm. (MJ) sagði, að till. væri þannig, að bankinn eða sparifjeð fengi ekki aðeins ónógan gróða, heldur hlyti það að verða til stórskaða fyrir sparisjóð. Fjarstæða er það ekki út af fyrir sig, því að vaxtamunur á sparisjóði og brjefum yrði ½%. En það er gamla sagan, að meir beri að meta gróða banka en alhliða hagsmuni atvinnuveganna.

Það er ekki vert að lengja umr. með því að fara út í þá sálma.

Getur verið, að jarðræktarbrjefin verði ekki eins útgengileg og önnur brjef, en þó er það ekki víst, að menn vildu ekki líta við þeim. Því verður ekki neitað, að þau sjeu þó einna tryggust af bankavaxtabrjefum. Búast má við, að bankinn liggi altaf með einhvern hluta af fjenu. En benda má á, að fje þannig bundið þyrfti ekki að vera með öllu ónýtt sem rekstursfje fyrir bankann, þótt ekki reyndust brjefin auðseljanleg. Væru þau vel til þess fallin, að vera sem trygging fyrir sparisjóðsfje og jafnvel útlendu fje, ef á lægi. Er bent á þetta í nál. okkar minni hl. manna.

Jeg hefi þá sýnt fram á, að þetta ákvæði um nafnverð ætti ekki að verða till. okkar til hnekkis. Síðari till., sem er varatill., hyggur hv. 4. þm. Reykv. (MJ) sje aðgengilegri, og hefir ekki verið að henni fundið, en þó talað um, að hún sje ósamrýmanleg samningi milli Ræktunarsjóðs og Landsbankans á grundvelli Ræktunarsjóðslaganna. En það er bygt á misskilningi; blandað saman tveim óskildum atriðum, vöxtum og brjefamagni. Samningurinn gildir um þann hluta verðbrjefanna, sem hann nær til. Þessi andmæli eru því heldur eigi til fyrirstöðu, að till. verði samþykt.

Þar sem varatill. okkar er miðlunartill., samanborið við það, sem áður var, og hafði þó allmikið fylgi við 2. umr., þá vænti jeg þess, að annaðhvort aðaltill. eða varatill. verði nú samþykt við þessa umr. hjer í deildinni.