08.05.1926
Neðri deild: 74. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í C-deild Alþingistíðinda. (2690)

81. mál, Landsbanki Íslands

Jón Baldvinsson:

Jeg hefi ekkert sjerstakt að athuga við orðalag 12. gr. í sjálfu sjer, ef þetta ákvæði þyrfti þar að vera. En jeg álít, að þetta ákvæði í síðari hluta 12. gr. eigi ekki að vera í lögunum, og eigi því að falla burtu, en hliðstætt ákvæði að koma í bráðabirgðarákvæðin.

Háttv. frsm. meiri hl. (MJ) sagði, að þetta væri sett vegna væntanlegrar stórkreppu. En þá er því meiri ástæða til þess að hafa, það ekki. Það er meira öryggi í því falið, ef stjórnin þarf að gera slíkar ráðstafanir á eigin ábyrgð, heldur en ef hún getur gefið út konunglega tilskipun eftir gildandi lögum. Það er meiri trygging fyrir því, að til slíks verði ekki gripið nema í virkilegri nauðsyn, því stjórnin hefir þá ástæðu til þess að líta vel í kringum sig, áður en hún tekur á sig slíka ábyrgð. Jeg er því enn ákveðnari í því en áður, að þetta eigi ekki að standa í lögunum, heldur eigi það að falla alveg niður. Í því er ekki öryggi — og meira öryggi að hafa það ekki, en láta stjórnina á hverjum tíma taka á sig þá ábyrgð, að meta, hvort ljetta skuli innlausnarskyldu bankans eða ekki. 1. málsgrein 12. gr. getur staðið eins fyrir því, að því athuguðu, að orðið „þá“ falli líka niður.