16.03.1926
Efri deild: 29. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (2760)

47. mál, ríkisborgararéttur

Flm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Jeg ætla að leyfa mjer að fara nokkrum orðum um þáltill. á þskj. 82, sem lögð hefir verið fram hjer í hv. deild. Hún er um ríkisborgararjett, hvernig menn öðlast hann og missa.

Eins og segir í greinargerð, till. borin fram í því skyni að fá lögum um ríkisborgararjett breytt í samræmi við lög annara þjóða um sama efni, þannig, að konur njóti fullkomins jafnrjettis við karlmenn á þessu sviði sem öðrum.

Lögin kveða svo á, að skilgetið barn fái ríkisborgararjett föður síns, en óskilgetið móður sinnar. Bæði konur og karlar geta öðlast ríkisborgararjett með sjerstökum lögum. Það er líkt um þennan rjett og framfærslurjettinn, að sami maður getur hvorugan átt á fleiri stöðum en einum samtímis. Í nokkrum tilfellum er mismunur á rjetti karla og kvenna. Kvonfang karlmanns hefir engin áhrif á rjettindi hans. En íslensk kona, sem giftist útlendum manni, missir ríkisborgararjett sinn hjer, en fær rjett bónda síns. Af þessu leiðir, að íslenskri konu, sem hjer væri búsett og gift væri útlendum manni, mætti vísa úr landi vegna bjargarskorts eða lagabrots. Hinsvegar fær útlend kona íslenskan ríkisborgararjett, ef hún giftist íslenskum manni, þó að hún eigi heimili erlendis. Þessum mismun vilja konur láta breyta sjer í vil. Þetta hefir tekist sumstaðar. Norðmenn og Svíar hafa tekið tillit til þessa í lögum sínum um ríkisborgararjett frá 1924. Hjá Dönum voru samþ. lög um þetta efni 18. apríl 1925. Íslenskar konur óska eftir líkum lögum hjer, og virðist því sjálfsagt, að það sje látið eftir þeim. Jeg skal geta þess, að hæstv. forsrh. (JM) hefir tekið þessu máli vel, og þar sem lík lagasetning um þetta efni er komin á hjá nágrannaþjóðunum, virðist ástæða til, að svipuð ákvæði sjeu lögleidd hjer. Jeg býst ekki við, að þetta hafi víðtæk áhrif, þar sem við erum svo afskekt þjóð, en það hefir a. m. k. „pricipiella“ þýðingu. Breytingin yrði talsverð rjettarbót íslenskum konum, er ættu útlenda menn. Þær fengju að halda rjetti sínum, og væri ekki hægt að vísa þeim úr landi vegna lagabrots eða bjargarskorts.

Jeg skal ekki fara fleiri orðum um þetta, en fel till. riddaralegum undirtektum hv. deildar.