02.03.1926
Neðri deild: 18. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í D-deild Alþingistíðinda. (2771)

18. mál, sæsímasambandið við útlönd o.fl.

Frsm. (Klemens Jónsson):

Samningarnir, sem gerðir voru við Mikla norræna 1905, eru á enda hinn 1. sept. þ. á. Hæstv. stjórn hefir litið svo á, eftir því sem hæstv. atvrh. fórust orð í þinginu í fyrra, einkum í Ed., að hún hefði fulla heimild til þess að taka upp nýja samninga, eða endurnýja þá eldri við fjelagið. Nokkuð er það, að snemma vetrar 1924 var landssímastjóri í Kaupmannahöfn í þeim erindum, en þá mun það fljótt hafa komið í ljós, að erfitt mundi verða að endurnýja samningana.

Í fjárlagafrv. stjórnarinnar fyrir 1926 var ekkert minst á þetta mál, sennilega af því, að þegar frv. var samið, hefir ekki verið fengin full vitneskja um, hvernig málinu reiddi af. En svo kom fjvn. með svohljóðandi viðaukatillögu við fjárlögin á liðnum um hraðskeytasambönd:

„Landsstjórninni er heimilt, ef hún telur þörf á, að stækka og fullkomna svo loftskeytastöðina í Reykjavík, að hún geti annast skeytasamband við umheiminn“ o. s. frv., og þessi tillaga var auðvitað bygð á því, að slíkt samband væri nauðsynlegt, ef samningar við Mikla norræna skyldu ekki komast á.

Þessi heimildartillaga var samþykt í einu hljóði, og var hún þó harla víðtæk, því ekki lágu fyrir neinar tryggilegar áætlanir um það, hvað slík loftskeytastöð mundi kosta.

Í Ed. var, eftir ósk hæstv. atvrh., borin fram og samþykt, í sambandi við fyrnefnda till., svohljóðandi viðbótartill.: „Ennfremur er henni“ — þ. e. landsstjórninni — „falið að gera samning um skeytasamband við umheiminn frá þeim tíma, er einkaleyfi Mikla norræna ritsímafjelagsins er á enda — “. Hæstv. atvrh. (MG) hjelt því að vísu fram, að stjórnin þyrfti enga heimild frá þinginu til þess að gera þessa samninga, því hún væri beinlínis skyldug til þess, en þetta væri aðeins gert fyrir kurteisis sakir við hinn málsaðiljann. En svo kom fram viðbótartill. í hv. Ed. þess efnis, að stjórnin skyldi leggja samninginn fyrir Alþingi til fullnaðarályktunar um málið, og var hún samþykt.

Jeg skal nú ekki eyða tíma með því að fara út í það, hvort það hafi verið rjett hjá hæstv. atvrh.(MG), að stjórnin hafi haft sjálfstæðan rjett og skyldu til þess að endurnýja samningana eða ekki. Slíkt er óþarft, því það er víst, að eftir heimildinni í fjárlögunum 1926 hefir hún haft fullan rjett til þess að endurnýja samningana, sem hún hefir nú líka gert og lagt fram fyrir þingið til samþyktar. Jeg skal geta þess, að hæstv. atvrh. (MG) var óánægður yfir þessu í fyrra í Ed., en jeg hygg, að hann muni nú við samningana hafa komist að raun um, að þetta ákvæði var þarft og gott, og að það mátti nota sem keyri á Mikla norræna, og sama tekur landssímastjóri fram í niðurlagi greinargerðar sinnar.

Það var næsta eðlilegt, að um leið og leitað var eftir um endurnýjun á ritsímasamningnum, kæmi fram sú spurning yfirleitt, hvort rjett væri yfirleitt að gera slíka samninga, jafnvel þótt góðir fengjust; hvort ekki mundi rjettara að snúa sjer að loftsambandi eingöngu. Jeg fyrir mitt leyti er ekki á þeirri skoðun, og jeg held, að jeg tali þar fyrir munn allrar fjárhagsnefndar. Jeg gat þess við umr. í fyrra um heimild til þess að stækka loftskeytastöðina, að jeg vænti þess, að til hennar þyrfti ekki að grípa, heldur tækist að komast að góðum samningum við Stóra norræna. Þeirri skoðun hefi jeg ekki breytt síðan.

Jeg tel það því vel farið, að samningar hafa tekist við Stóra norræna, og það því fremur sem þeir verða að teljast í alla staði aðgengilegir. Um hagnaðinn af samningunum skal jeg leyfa mjer að vísa til greinargerðar landssímastjóra, sem prentuð er aftan við nál. fjhn. Skal jeg þar aðeins leyfa mjer að benda á fá atriði: að árstillagið, 38 þús. kr., fellur alveg niður; að fjelagið borgar okkur sjerleyfisgjald, 30 þús. kr.; að allar tekjur af veðurskeytunum verða okkar eign, sem nemur 20 þús. kr. Þessir tveir síðustu liðir nema 50 þús. kr., og þessar tekjur verða að skoðast sem alveg vissar. Auk þess telur landssímastjóri vissan hagnað á tveimur öðrum liðum, á rekstri Seyðisfjarðarstöðvarinnar og 50% af sæsímagjöldunum af viðskiftum fram yfir það sem var 1924, alls tekjur að upphæð 25000 kr. + 37000 kr. eða 62000 kr. Þessir tveir síðustu liðir eru að vísu áætlunarliðir, og því ekki vissa um, að þeir nemi nákvæmlega þessari upphæð. En þó skal jeg geta þess, að samkvæmt minni reynslu er lendssímastjóri einn hinn allra nákvæmasti og varkárasti verkfræðingur um áætlanir allar, sem jeg hefi haft kynni af. Það var venja hans að áætla gjaldaliði svo gætilega, að þeir fóru sjaldan nokkuð fram úr áætlun. En það vill nú einmitt brenna við hjá verkfræðingum að áætla gjaldliði í lægra lagi. Jeg tel það því mjög líklegt, að þessir áætluðu liðir reynist nærri lagi, og verður þá hagnaðurinn eða sparnaðurinn við samninginn um 150 þús. kr. á ári. Við þetta bætist það einnig, að sæsímagjöldin hafa fengist talsvert lækkuð, svo að þau verða nú 30 aurar fyrir hvert orð til Englands og Danmerkur, miðað við gullgengi ísl. krónu.

Þá tel jeg það til mikilla bóta, að eftir hinu nýja sjerleyfi hefir Ísland rjett til þess að afgreiða öll sín viðskifti við útlönd þráðlaust á stríðstímum, eða þegar svo stendur á, að sæsíminn telur sjer ekki fært að annast sendingu skeyta hindrunarlaust, þ. e. án skeytaskoðunar.

Alt þetta, sem jeg hefi nú upp talið og felst í hinu nýja sjerleyfi og samningum við Stóra norræna, vona jeg að rjettlæti þau ummæli, sem eru í greinargerð nefndarinnar: „að samningamir sjeu í alla staði viðunanlegir“. Og í rauninni get jeg bætt því við frá eigin brjósti, að þeir hafa náðst miklu betri en jeg hafði gert mjer vonir um, því mjer er persónulega kunnugt um það, að byrjun samninganna var alt annað en glæsileg. Jeg var staddur í Kaupmannahöfn í nóv. og des. 1924 og vissi nokkurnveginn, hvernig samningatilraununum leið. Jeg hafði líka frá fornu fari nokkra reynslu fyrir því, að Stóra norræna var ekkert lamb að leika við, og segi jeg það ekki fjelaginu til lasts. Það er hlutafjelag og þarf auðvitað fyrst og fremst að taka tillit til sinna hluthafa, og hefir rjett til þess að fara eins langt í samningum sínum og það sjer sjer fært.

Jeg hefi nú verið nokkuð margorður um málið alment, en hefi þó drepið á helstu atriði samningsins, af því að jeg tel rjett, að þetta mál liggi sem allra ljósast fyrir þinginu.

Um þáltill. sjálfa er ekki annað að segja en það, að nefndinni þótti rjettast, úr því samningamir lágu fyrir fullgerðir og undirskrifaðir af öllum aðiljum, að taka þá beint upp í hana tilvitnun í þá sjálfa, og ber hún því fram brtt. í þá átt. Vona jeg, að hæstv. atvrh. (MG) hafi ekki neitt við þá breytingu að athuga.

Nefndin rak augun í það, að samningamir, sem eru gerðir af atvrh. (MG) sjálfum við stjórn Stóra norræna, og undirskrifaður af þessum aðiljum, auk danska ráðherrans fyrir opinberum verkum, eru gerðir og undirritaðir eingöngu á dönsku. Nefndinni hefði þótt rjettara, að þeir hefðu verið samþyktir og undirskrifaðir bæði á íslensku og dönsku. En það hefir flogið fyrir nefndina, að stjórn Stóra norræna hafi lagst mjög á móti því, af þeirri ástæðu, að hún hefði engan mann íslenskufróðan, er hún gæti treyst til að bera ábyrgð á því, að þýðingin væri rjett. Þetta er nú vitanlega engin ástæða, því jeg veit ekki betur en að til sje íslenskur maður í Khöfn, sem er löggiltur skjalaþýðari á íslensku. En auk þess eru þar tveir Íslendingar háskólakennarar, og hefði fjelagið vel getað treyst þeim til þess að bera ábyrgð á þýðingunni. En þó jeg telji það miður farið, að samningarnir voru ekki jafnhliða undirritaðir á íslensku, þá sætti jeg mig við það, úr því sem komið er, því það væri hið mesta óráð að stofna samningunum í hættu af þeim sökum. En eftirleiðis verð jeg þó að telja það rjettast, að þegar ráðherra sjálfur eða umboðsmaður landsins í útlöndum gerir samninga við útlönd um einhver málefni, þá sje samningurinn jafnframt skráður og undirritaður á íslensku.

Hæstv. atvrh. (MG) hefir látið þýða samningana ásamt fylgiskjölum á íslensku. Býst jeg við því, að sú þýðing verði prentuð í Stjórnartíðindunum, og vildi jeg því mælast til, að hann láti yfirfara þýðinguna á ný, áður en hún verður birt þar. Jeg skal ekki fara að eltast við þýðinguna orði til orðs, en benda aðeins á fá atriði, sem jeg tel að betur mætti fara. Þar er t. d. talað um ráðherra opinberra „verka“. Betra væri: ráðherra opinberra framkvæmda eða athafna. Það vill svo einkennilega til, að sami ráðherra gerði þessa samninga fyrir hönd Danastjórnar 1905, og er hann þá kallaður á íslensku: samgöngumálaráðherra. Hann hefir þá líka haft samgöngumar. Auðvitað er það ekki nákvæm þýðing. En þetta orð „verka“ kann jeg ekki við.

Í leyfisbrjefinu er á tveim stöðum talað um neðansjávarritsíma. Þetta er auðvitað orðrjett þýðing á „undersöisk Telegrafkabel“. En annars er alstaðar annarsstaðar notað orðið sæsími, og er það gott og gilt orð, sem jeg hefði kosið að fengið hefði að halda sjer. Þá er talað um danska „ríkisdaginn“. Hjer væri laglegra að segja: ríkis þing.

Í 2. gr. er talað um: „ef fjelagið brýtur leyfið af sjer“. Á dönskunni er þetta: „saafremt Koncessionen erklæres forbrudt“, nefnilega, ef stjórnir Íslands og Danmerkur lýsa því yfir, að leyfisbrjefið sje brotið. Þessi þýðing er tæplega nákvæm.

Í 5. gr. er víða notað orðið „Fejl“ á dönsku. Er það þýtt með fjórum orðum: „skemmist“, „er aflaga fer“, „er áfátt“ og loks „bilun“. Það væri æskilegt að fá eitt orð yfir þetta. Einkum vil jeg skjóta því til hæstv. atvrh., hvort orðið sje á síðasta stað rjett þýtt með „bilun“. „Afbrydelser“ er í sömu grein þýtt: „slit“, og má vera, að það sje rjett, en þetta orð hefir tvíræða meiningu í íslenskunni. Fleira mætti til tína, en jeg treysti því, að þetta nægi til þess, að hæstv. atvrh. (MG) láti endurskoða þýðingu samningsins og gæta þess, að hún verði í fullkomnu samræmi við danska textann.

Að svo mæltu legg jeg það til, að þáltill. verði samþ. með þeirri einu breytingu, sem nefndin hefir lagt til að gerð yrði.